Flestir kannast við hljómsveit Barða Jóhannssonar, Bang Gang. Færri vita hins vegar að Bang Gang var upphaflega tveggja manna verkefni skólafélaga úr Menntaskólanum í Reykjavík. Annar þeirra var vitaskuld Barði en hinn var Henrik Björnsson, sem átti síðar eftir að gera garðinn frægan með hinni ofursvölu hljómsveit Singapore Sling.
Fyrsta smáskífa hljómsveitarinnar, „Listen Baby“, er í talsvert öðrum stíl en síðari lög Bang Gang. Höfundareinkenni Henriks koma sterkt fram, undir áhrifum frá einhvers konar síðpönks-sörfrokki í ætt við þýsku framúrstefnuhljómsveitina Die Haut. Smáskífan kom út árið 1996, þegar meðlimir sveitarinnar voru rétt liðlega tvítugir.
Lagið er í öllu falli stórkostlegt. Það er alveg á hreinu. Og það sem gerir þetta jafnvel enn betra, er að Bang Gang gerði myndband við lagið!
Í myndbandinu má sjá þá Barða og Henrik eltast við seiðandi tálkvendi sem líkist Audrey Hepburn í hlutverki Holly GoLightly. Það var Árni Þór Jónsson sem leikstýrði þessu einstaka myndbandi en hann átti síðar eftir að stýra gullkistu tónlistaráhugamanna á Íslandi um nokkurra ára skeið, útvarpsþættinum Sýrðum rjóma. Árni starfar sem kvikmyndagerðarmaður í Los Angeles í dag.
En hvaða unga kona er þetta með sólgleraugun?
Jú, það er engin önnur en forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir!
Meira um árdaga Bang Gang: