Oft vill það verða svo að listamenn fá ekki verðskuldaða athygli og viðurkenningu fyrr en eftir að þeir eru komnir í gröfina. Jafnvel popptónlistarmenn. Jim Morrison og hljómsveit hans The Doors hefur líklega aldrei verið vinsælli en í dag. Það sama má segja um Bob Marley. Enginn hefur þó „hagnast“ jafnmikið á dauða sínum og Jeff heitinn Buckley, nú, eða faðir hans Tim Buckley.

Það er því skemmtileg nýbreytni þegar löngu gleymdar stjörnur eru enduruppgvötaðar… og það án þess að þær séu komnar í gröfina. Allir þekkja nú þegar sögu Sixto Rodriguez, bandaríska söngvarans frá Detroit sem gerði tvær plötur í kringum 1970 og hvarf. Heimildamyndin Searching for Sugarman er líkari ævintýramynd, svo ótrúleg er saga Rodriguez sem er um þessar mundir við það að gefa út sína fyrstu plötu í rúmlega 40 ár.

En saga Sixto á sér eins konar hliðstæðu á Englandi þar sem ung kona gafst upp á tónlistarheiminum árið 1970, varð svo síðar heimsfræg – án þess að hafa hugmynd um það!

Vashti Bunyan fæddist í Newcastle og sýndi snemma mikla hæfileika í skapandi listum. Hún hóf nám við hinn virta Ruskin School of Drawing and Fine Art við Oxford-háskóla en féll úr námi vegna lélegrar mætingar. Þegar Bunyan var 18 ára ferðaðist hún til New York og heyrði þar Freewheelin’ plötu Bob Dylan. Hún ákvað skömmu síðar að flytja til Lundúna og reyna fyrir sér sem atvinnutónlistarmaður.

Bunyan1
Bunyan árið 1966.

Ekki leið á löngu uns hún hitti umboðsmann og upptökustjóra Rolling Stones, hinn skrautlega Andrew Loog Oldham, sem tók hana undir sinn verndarvæng (þó deila megi um gagnsemi þess vængs til lengri tíma). Hún tók upp fyrstu smáskífu sína árið 1965 „Some Things Just Stick In Your Mind,“ lag eftir Keith Richards og Mick Jagger. Á b-hliðinni var lag eftir Bunyan, „I Want to be Alone,“ og ári síðar kom frumsamin smáskífa með hinu undurfallega „Train Song.“

Vídjó

Bunyan gaf út nokkrar smáskífur til viðbótar og tók upp lagið „The Coldest Night of the Year“ með þjóðlagasveitinni Twice as Much, en þeir voru einnig vinir Oldhams og gáfu út hjá plötufyrirtækinu Immediate Records – sem var í eigu Jagger og Oldham. Miðað við þetta lag er með engu móti skiljanlegt hvernig almenningur hafi ekki áttað sig á snilldinni sem Bunyan bauð upp á.

Vídjó

Bunyan fékk leið á tónlistarbransanum og flutti árið 1967 með kærastanum sínum til Suðureyja, vestur af Skotlandi, en þar hafði þjóðlagasöngvarinn Donavan stofnað til kommúnu. Bunyan var svo einbeitt að hippalífinu að hún ferðaðist norður á bóginn á hestbaki!

Á Suðureyjum hélt hún áfram að semja tónlist sér til gamans. Síðla árs 1968 hitti hún fyrir tilviljun plötuútgefandann Joe Boyd sem vildi ólmur gefa út breiðskífu með lögum Bunyan. Hún tók upp sína fyrstu breiðskífu árið 1969 með einvala liði úr ensku þjóðlagasenunni. Meðal tónlistarmanna sem lögðu henni lið voru Simon Nicol og Dave Swarbrick úr Fairport Convention og Robin Williamson úr The Incredible String Band. Platan, Just Another Diamond Day, kom reyndar ekki út fyrr en seint árið 1970. Fékk hún mjög góða dóma, en sölutölur ollu vonbrigðum. Bunyan fékk sig þá fullsadda og kvaddi tónlistarbransann fyrir fullt og allt.

Bunyan flutti til Írlands og einbeitti sér að barnauppeldi og garðyrkju. Bunyan hafði því ekki hugmynd um að hún var orðin að einhvers konar „költ-fígúru“ innan þjóðlagatónlistarsenunnar, og það ekki aðeins á Englandi heldur um allan heim. Just Another Diamond Day var orðin ein eftirsóttasta plata sem um getur meðal plötusafnara og seldist til að mynda eitt eintak af henni á yfir 2000 dollara á uppboðsvefnum eBay.

Nafn Bunyans varð enn þekktara þegar bandarísk-venesúelski tónlistarmaðurinn Devandra Banhart sagðist ætíð skrifa nafn hennar á handlegg sinn fyrir tónleika. Hinn mikli smekkmaður var víst helsti aðdáandi hennar og hikaði ekki við að segja Bunyan vera guðmóður þeirrar tónlistarstefnu sem Banhart er jafnan kenndur við, hið svokallaða „Freak-Folk.“ Þessi andlegu systkini áttu síðan eftir að hittast og vingast en Bunyan lagði einmitt til undurfagra rödd sína á plötu Banharts, Rejoicing in the Hands, sem kom út árið 2004.

Bunyan tók upp fyrstu plötu sína í 35 ár þegar hún gaf út Lookaftering hjá Fat Cat árið 2005. Platan mæltist vel fyrir og ekki síður safnplatan Some Things Just Stick in Your Mind sem Fat Cat gaf einnig út – en þar má finna allar smáskífur hennar auk laga sem höfðu ekki verið gefin út áður en allt efnið er frá árunum 1964 til 1967.

bunyan3
Nýleg mynd af Bunyan sem er bara nokkuð nett á því.

Bunyan unir vel við sinn hag í dag. Árið 2008 var gerð heimildamynd um hana, From Here to Before,  þar sem hún ferðaðist um Bretland og rifjaði upp ótrúlega sögu sína – þessa sannkölluðu rússíbanareið sem lífið getur verið. Hún heldur reglulega tónleika enn þann dag í dag og á einnig til að koma fram sem gestasöngvari hjá listamönnum sem hún kann að meta.