Á 9. áratug síðustu aldar náði hin nýja þýska bylgja, eða Die Neue Deutsche Welle, talsverðum hæðum í poppheiminum. Margir muna eflaust vel eftir listamönnum á borð við Nenu („99 Luftballons“), überhipsterunum í Alphaville („Summer in Berlin“, „Big in Japan“) eða jafnvel spaugurunum í Trio („Da da da“).
Færri muna þó eftir furðufuglinum Joachim Witt, sem sló í gegn í Þýskalandi árið 1980 með frábærri plötu, Silberblick. Á plötunni mátti finna helsta slagara Witt, þann sem hann er sennilega frægastur fyrir „Goldener Reiter.“ Lagið er sannarlega frábært, nýbylgjuslagari af bestu gerð!
Witt var fæddur í Hamborg árið 1949 og sýndi snemma tónlistarhæfileika. Áður en hann sló í gegn sem nýbylgjupoppari var hann meðlimur í krautrokksveitinni Düsenberg, en sú sveit gaf út þrjár breiðskífur undir lok 8. áratugarins. Eftir Silberblick gaf hann nokkuð reglulega út plötur sem seldust vel á þýska málsvæðinu, en þar á meðal voru Edelweiβ (1982), Märchenblau (1983) og 10 Millionen Partys (1988).
Á 10. áratugnum heyrðist lítið sem ekkert frá Witt, en það átti eftir að breytast á nýrri öld. Witt var greinilega farið að leiðast gaufið, og var einnig greinilega búinn að hlusta talsvert á landa sína í hljómsveitinni Rammstein. Witt gaf út plötuna Eisenherz árið 2002, en samnefnd smáskífa fékk mikla spilun í þýsku útvarpi. Lagið má þýða beint sem „Járnhjartað,“ en í því fjallar Witt um, kannski augljóslega, konu (eða karl) sem vill ekkert með hann hafa. Allt mjög dramatískt.