Vídjó

Hér sjáum við brasilísku söngkonuna Astrud Gilberto flytja bossanóva lagið „Agua de Beber“ (ísl. „Drykkjarvatn“). Lagið er af sólóplötu hennar The Astrud Gilberto Album frá árinu 1965, og var samið af Antonio Carlos Jobim.

 

Astrud Gilberto er í dag ein þekktasta bossanóva söngkona heims. Hún ólst upp í Rio de Janeiro en flutti til Bandaríkjanna árið 1963, og skaust upp á stjörnuhimininn ári síðar, þegar hún kom fram ásamt eiginmanni sínum João á plötunni Getz/Gilberto með Stan Getz, bandaríska djass-saxófónleikaranum fræga.

 

Gilberto hafði enga fyrri reynslu sem söngkona, en söngur hennar í laginu „The Girl From Ipanema“ (ísl. „Stelpan frá Ipanema“) heillaði hlustendur víða um heim og lagið sjálft vann til Grammy-verðlauna. Hún skildi við eiginmann sinn 1965 og átti um tíma í ástarsambandi við Getz á meðan þau túruðu um Bandaríkin.

 

Astrud Gilberto er enn á lífi og á að baki sér langan og farsælan söngferil. Árið 2002 hlaut hún þá viðurkenningu að vera innleidd í International Latin Music Hall of Fame.