Bandaríski djasstónlistarmaðurinn heimsfrægi Charles Mingus var mikill unnandi katta. Hann skrifaði á sjöunda áratugnum kennslubækling um hvernig venja ætti ketti á að nota klósett. Hann birtist hér í heild sinni.
Mingus (1922-1979) lék á kontrabassa og gaf út fjölmargar hljómplötur með hljómsveit sinni en með henni léku tugir manna í gegnum tíðina en sumir þeirra urðu seinna sjálfir heimsfrægir. Mingus þjáðist af þunglyndi, notaði fíkniefni og þótti erfiður í umgengni.
Hann var afar hæfileikaríkur og metnaðarfullur tónlistarmaður en viðkvæmur fyrir mistökum og truflun. Hann trylltist stundum á miðjum tónleikum og húðskammaði hljómsveit sína. Af þessum sökum hlaut hann viðurnefnið „The Angry Man of Jazz“ (Reiði maður djassins).
Eftirlætistómstundaiðja Charles Mingus var kattahald. Hann var sagður loka sig inni svo vikum skipti með engan sér við hlið nema köttinn Nightlife. Mingus náði að kenna Nightlife að ganga þarfa sinna á klósettinu og skrifaði um það kennslubæklinginn – kattalóginn – „The Charles Mingus CAT-alog for Toilet Training Your Cat“. Við komumst yfir þetta stórmerkilega rit og birtum í íslenskri þýðingu.
Klósettþjálfun fyrir ketti eftir Charles Mingus
1
Fyrst verður þú að kenna kettinum þínum að nota heimagerðan sandkassa, ef þú ert þá ekki þegar búinn að því. (Ef botninn í kassanum þínum er ekki búinn til úr stökum hlut, notaðu pappaspjald í staðinn og þá færðu falskan botn sem er bæði mjúkur og sterkur. Það kemur í veg fyrir að kassinn blotni í gegn og að botninn rifni. Í kjörbúðinni má finna flöt pappaspjöld sem passa fullkomlega í kassann þinn.)
Notaðu rifinn dagblaðapappír, ekki kattasand. Hættu að nota kattasand. (Þegar stundin rennur upp geturðu ekki sett sand í klósettið.)
Um leið og kötturinn þinn hefur vanist pappakassanum skaltu byrja að færa kassann til og frá, í átt að baðherberginu. Ef kassinn er staðsettur í horni skaltu færa hann nokkra metra frá horninu en ekki svo að eftir sé tekið. Ef þú færir kassann of langt getur kötturinn átt til að nota gamla hornið fyrir þarfir sínar. Færðu hann smám saman. Þú verður að fá hann til að hugsa.
Hann mun þannig hægt og hægt elta kassann á meðan þú færir hann inn á baðherbergið. (Mikilvægt: ef þú ert þegar með kassann inni á baðherbergi, færðu hann út úr því, til og frá og svo aftur inn. Kötturinn verður að læra að elta kassann. Ef kassinn er of nálægt klósettinu til að byrja með, mun hann ekki elta hann upp á klósettsetuna þegar þú færir kassann þangað.)
Kötturinn mun leita að kassanum sínum. Hann finnur lyktina af honum.
2
Á meðan þú færir kassann skaltu líka byrja að skera hliðar hans, svo þær verði lægri. Gerðu þetta smám saman.
Að endingu nærðu baðherberginu og að lokum klósettinu sjálfu. Þá skaltu undirbúa flutning kassans upp á klósettið. Skerðu örlítil göt á hornin á kassanum. Þú getur þrætt lítið snæri í gegnum kassann og bundið hann við klósettið, svo hann detti ekki af því. Kötturinn þinn mun finna hann þar og stökkva upp í kassann, sem er nú uppi á klósettinu (þá hefurðu skorið hliðarnar svo þær séu ekki hærri en 50 sentímetrar).
Ekki ónáða köttinn þinn núna, ekki reka á eftir honum, því hann gæti skelfst og hætt við. Leyfðu honum að hvíla sig og ganga sjálfur þarfa sinna í einhvern tíma, eina til tvær vikur. Á sama tíma seturðu ávallt minna af dagblaðapappír í kassann.
3
Dag einn skerðu lítið gat í miðjuna á kassanum, ekki stærra en sem nemur stærð peru – og skildu eitthvað af pappír eftir í kringum gatið. Hann mun um leið fara að miða á gatið og hugsanlega að reyna að stækka það. Skildu pappírinn eftir um stund til að fela úrganginn. Þegar kötturinn stekkur upp á mun hann ekki hræðast holuna því hann býst við henni. Á þessum tímapunkti veistu að þú hefur sigrað. Erfiðasti hlutinn er að baki.
Hér eftir tekur tíminn við. Reyndar, þegar ég var að þrífa kassann eitt sinn og þurfti að færa hann af klósettinu, stökk kötturinn upp á það og datt næstum ofan í klósettið. Til að koma í veg fyrir að svo fari skaltu vera með pappaspjald með lítilli holu til reiðu og renna því undir klósettsetuna svo kötturinn geti gengið þarfa sinna á meðan þú þrífur, ef hann langar til, og detti ekki ofan í klósettið og skelfist algerlega. Þú gætir þurft að setja dagblaðapappír yfir, á meðan þú þrífur, ef kötturinn þinn er ekki jafnklár og Nightlife minn var.
4
Næst skerðu kassann alveg svo engar hliðar verði eftir. Taktu flata pappaspjaldið sem eftir verður, renndu því undir klósettsetuna og biddu til guðs. Skildu eftir smá dagblaðapappír, í bili. Hann mun hvort eð er ýta því ofan í holuna, eftir að hann hefur gengið þarfa sinna. Á endanum muntu geta hætt að nota pappaspjaldið. Þú sérð hvenær hann hefur náð jafnvæginu.
Ekki láta koma þér á óvart að heyra sturtað niður um miðja nótt. Köttur getur lært að gera það, hvattur af eðli sínu til að moka yfir eða fela. Það er alveg höfuðatriði hjá kettinum að fela. Ef hann ýtir óvart á takkann sem sturtar niður og sér að það þrífur skálina að innan, mun hann hugsanlega læra það og sturta niður vísvitandi.
Mundu einnig að snúa klósettpappírsrúllunni við svo hún rúlli ekki auðveldlega niður ef kötturinn slær í hana. Viðbúið er að kötturinn rúlli henni ofan í klósettið, í þeim tilgangi að moka yfir og fela – á sama hátt og ef það væri enn þá kattasandur hjá honum.
Það tók mig þrjár til fjórar vikur að klósettþjálfa köttinn minn, Nightlife. Mestur tími fer í að færa kassann til og frá, smám saman, inn á baðherbergið. Gerðu það mjög hægt og ruglaðu köttinn ekki í ríminu. Og mundu að þegar kassinn er kominn upp á klósett, skildu hann eftir þar í eina eða tvær vikur. Aðalatriðið er að reka ekki á eftir kettinum eða rugla hann.
Gangi þér vel.
Charles Mingus