Margskonar sögusagnir hafa lengi verið á kreiki um andlát Vladimirs Komarovs, fyrsta geimfarans sem lét lífið í geimferð. Löngu eftir að kalda stríðinu lauk var flestu enn haldið leyndu um þetta mikla áfall sovésku geimferðaráætlunarinnar. En nú getur Lemúrinn sagt söguna eins og hún var.

 

Þetta var hjartnæm saga:

Vladimir Komarov var skotið á loft í geimfarinu Soyuz-1 frá Sovétríkjunum 23. apríl 1967. Strax og hann var kominn á sporbraut um Jörðu kom á daginn að stórkostleg bilun var í geimfari hans.

 

Komarov gerði örvæntingarfullar en árangurslausar tilraunir til að laga bilunina meðan far hans hringsólaði um Jörðina en brátt varð ljóst að hann myndi aldrei snúa lifandi til Jarðar á ný.

 

Alexei Kosygin, forsætisráðherra Sovétríkjanna, gekk þungum skrefum í stjórnstöð sovésku geimferðastofnunarinnar og vottaði Komarov virðingu sína. Hann sæmdi Komarov æðstu orðu Sovétríkjanna en viðbrögð Komarovs voru að bölva hönnuði geimfarsins í sand og ösku.

 

Eiginkona Komarovs og börnin hans tvö komu einnig í stjórnstöðina. Menn litu undan þegar kona Komarovs kvaddi eiginmann sinn tárvotum augum og svo ávarpaði hann börnin sín.

 

Vladimir Komarov (1927-1967)

Hann kvaddi þau elskulega, hvatti þau til að verða góðir og nýtir þjóðfélagsþegnar og hugsa vel um mömmu sína. Og hann kvaðst harma mest að sjá þau ekki vaxa úr grasi.

 

Fjölskylda Komarovs var svo leidd burt áður en hann gerði vonlausa tilraun til að komast lifandi aftur til Jarðar.

 

Á miðri leið gegnum lofthjúpinn rofnaði talstöðvarsambandið við Soyuz.

 

Geimfarið logaði á leið til Jarðar og þegar mölbrotið, brennt farið fannst á Jörðu niðri áttu leitarmenn í mestu erfiðleikum með að finna lík Komarovs í brakinu.

 

Grafinn í Kremlarmúr

Þessari sögu var púslað saman á Vesturlöndum á árunum eftir hið hryggilega fráfall Komarovs. Sovésk geimferðayfirvöld voru alræmd fyrir hve mikil leynd hvíldi ævinlega yfir öllum þeirra aðgerðum og þau veittu litlar sem engar upplýsingar um hvað hefði eiginlega gerst.

 

Það voru ekki síst radíóamatörar víða um heim sem komu á framfæri sögunni um heimsóknir bæði Kosygins og eiginkonu Komarovs í stjórnstöðina og hina hjartnæmu kveðju geimfarans til barna sinna.

 

Sovétmenn sýndu Komarov margvíslegan heiður eftir lát hans. Aska hans var múruð inn í Kremlarmúra. Einn gígur á bakhlið tunglsins var nefndur í höfuðið á honum og sömuleiðis smástirni í smástirnabeltinu milli Júpíters og Mars.

 

Stórt geimrannsóknarskip var einnig nefnt Vladimir Komarov en það kom margoft til Íslands fyrir um aldarfjórðungi og vakti athygli fyrir gríðarstórar ratsjárkúlur sem stóðu upp úr yfirbyggingu þess.

 

Frakkastígur í Reykjavík í janúar 1974. Fiskbúð, Lífstykkjasalan og sovéska geimrannsóknarskipið Vladimir Komarov, sem kom oft til Íslands á þessum árum. Mynd: Christian Bickel (Wikimedia Commons).

 

Eftir að Sovétríkin hrundu tók rússneska geimferðastofnunin í arf tilhneigingu Sovétmanna til að halda öllu leyndu sem ekki þótti passa nógu vel við þá glansmynd af geimferðum Rússa sem ætlunin var að halda á lofti. Því leið enn á löngu þangað til forvitnir blaðamenn og sagnfræðingar fengu að komast í skjöl sem snertu hinstu för Komarovs.

 

Margt málum blandið

En nú er sannleikurinn kominn fram í dagsljósið. Og skemmst er frá því að segja að þótt endalok Komarovs hafi vissulega verið hörmuleg, þá er þó margt málum blandið um þá frásögn sem menn höfðu sett saman á Vesturlöndum.

 

Árið 1967 voru tvö ár síðan sovéskur geimfari hafði síðast farið út í geiminn. Eftir að Sovétmenn höfðu náð forskoti í geimferðakapphlaupinu 1961 þegar þeir sendu Júrí Gagarín út í geiminn voru Bandaríkjamenn nú að komast fram úr Sovétmönnum. Þeir undirbjuggu tunglferðir af kappi en allskonar vandamál hrjáðu sovésku geimferðaáætlunina. Í Sovétríkjunum var vissulega verið að þróa geimfar sem gæti komist til tunglsins, Soyuz, en tilraunir með mannlaus för lofuðu ekki góðu. Þrjú mannlaus Soyuz-för höfðu orðið fyrir miklum skakkaföllum.

 

Þá um vorið höfðu Sovétmenn hins vegar mikil áform á prjónunum. Ætlunin var að skjóta upp tveimur Soyuz-förum nálega samtímis og láta þau mætast í geimnum. Í fyrra farinu átti að vera einn geimfari en þrír í hinu. Geimfarinn úr fyrra farinu átti að skipta við félaga sinn úr seinna farinu og fara um borð í þriggja manna farið og halda síðan fljótlega heim til Jarðar aftur. Einn geimfaranna úr seinna farinu átti að halda áfram einn að hringsóla um Jörðina nokkra hríð en snúa svo aftur heim líka.

 

Soyuz-1 á skotpallinum.

Áróðursbragð

Sovésk yfirvöld lögðu mikla áherslu á að þessi ferð tækist sem best og miðuðu við að geimferðirnar færu fram meðan leiðtogar Sovétríkjanna og leppríkja þeirra í Evrópu sátu á fundi um framtíð kommúnismans í Evrópu. Litið yrði á það sem meiriháttar sigur í áróðursstríðinu við hin kapítalísku Vesturlönd ef sýna mætti með þessu fram á að kommúnistaríkin hefðu náð tæknilegu forskoti á vestræna fjendur sína í kalda stríðinu.

 

Því var málið keyrt áfram þótt ýmsir geimvísindamenn eystra hefðu sumir efasemdir um að Soyuz-farið væri tilbúið.

 

Þann 23. apríl var Soyuz-1 skotið á loft. Um borð var Vladimir Komarov en hafði hann árið 1964 stýrt fyrsta þriggja manna fari út í geiminn, Voskhod-1. Hann var fertugur, vel þjálfaður og þótti í alla staði fyrirmyndargeimfari. Daginn eftir átti svo að skjóta upp Soyuz-2 með þremur geimförum.

 

Ekki dauðadæmdur

Fljótlega eftir að Komarov kom út í geiminn varð ljóst að sólarorkuvél Soyuz-1 virkaði ekki sem skyldi. Komarov og mennirnir í stjórnstöðinni á Jörðu niðri reyndu klukkustundum saman að laga bilunina en allt kom fyrir ekki. Bilunin ógnaði ekki beinlínis lífi Komarovs en augljóst var að ekki yrði unnt að halda ferðinni áfram. Komarov var skipað að snúa aftur til Jarðar og ferð Soyuz-2 var blásin af.

 

Ekki var samt útlit fyrir annað en ferð Soyuz-1 til baka gæti heppnast sem best. Sögurnar um að Kosygin forsætisráðherra og eiginkona Komarovs hafi kvatt hann hátíðlega, af því allir hafi vitað að hann væri dauðadæmdur, eiga ekki við nein rök að styðjast, svo dramatískar sem þær eru.

 

Snemma að morgni 24. apríl stefndi Komarovs til Jarðar. Talstöðvarsamband rofnaði eins og ævinlega meðan geimför voru á leiðinni til Jarðar en þegar Sovétmenn flýttu sér á staðinn þar sem geimfarið lenti – á sléttum Mið-Asíu, skammt frá mótum Rússlands og Kasakstans – sást strax að eitthvað hafði farið úrskeiðis. Geimfarið hafði greinilega fallið til Jarðar á miklum hraða og flakið skíðlogaði.

 

Strax lá í augum uppi að Komarov gæti með engu móti hafa lifað þessa lendingu af.

 

Fallhlífar brugðust

Eftir nákvæma rannsókn sovéskra geimferðayfirvalda varð niðurstaðan sú að fallhlífin, sem bera átti Soyuz-1 mjúklega til Jarðar, hafði bilað. Er Komarov varð var við það reyndi hann að opna varafallhlífina en hún flæktist í fyrri fallhlífinni eða öðrum tækjum og opnaðist ekki til fulls. Því var Soyuz-1 á rúmlega 200 kílómetra hraða á klukkustund þegar geimfar hans rakst á Jörðu. Lík hans brann nálega upp til agna.

 

Vladimir Komarov var fyrsti maðurinn sem lét lífið í geimferð.

 

Líkamsleifar Komarovs.