Ég hef ekki getað hætt að hugsa um stjórnarskrár einhvern veginn.
Byrjum á byrjuninni. Þegar franska keisararíkið var orðið ein rjúkandi rúst í apríl árið 1814, rússneskir kósakkar riðu um götur Parísar og Napóleon sjálfur hafðist við einhvers staðar úti í óbyggðum með her sinn, lömdu marskálkar hans hnefanum í borðið og sögðu: „Þetta er búið. Segðu af þér.“ Englendingarnir náðu honum, skutluðu honum í bát út á Elbu, pínulítinn klett milli Korsíku og Ítalíu, og þar fékk hann að kalla sig keisara áfram og gefa út tilskipanir um nútímalegar vinnuaðferðir í landbúnaði sem bæri að framfylgja. Á Elbu.
Eins og oft áður í evrópskum fjölþjóðaátökum (ég nefni þrjátíu ára stríðið) var Þýskaland rústir einar eftir þetta og allir í sjokki. Erlendur her hafði valtað yfir landið, deilt þar og drottnað árum saman og getið mörg ástandsbörn, hvort sem er með leyfi barnsmæðranna eða án.
Franska byltingin var alltaf í bakgrunni. Það var hún sem hafði getið þennan mann, þennan her og þetta stríð af sér. Hún hafði komið öllu í bál og brand og pirrað þýska smáfursta og keisara sem vildu bara safna skatti í ríkissjóð, heyja smáskærur á nokkurra ára fresti við óvini sína og að þegnarnir héldu kjafti á meðan. Og ekki bara það, því hún hafði líka kveikt í þýskum hugsuðum og skáldum sem enginn væri morgundagurinn. Um fátt hugsuðu þeir meira og skrifuðu.
Þegar tveir þýskir menntamenn hittust um aldamótin 1800 spurðu þeir hvor annan fyrst: „Hvað finnst þér um frönsku byltinguna?“ Franska byltingin var hentugur miðpunktur sem allir Þjóðverjar gátu skipst á skoðunum um og skilgreint sig út frá.
Þýskaland var komið á eftir í samfélagsþróun álfunnar. Franska byltingin var óskaviðburður sem Þjóðverjum fannst mjög gaman að spegla sig í. Slík bylting myndi kollvarpa ástandinu í landi sem var skipt í fjöldamörg furstadæmi, stórhertogadæmi, konungsríki, frjálsar ríkisborgir og keisararíki. Það voru tollmúrar á milli allra þessara svæða. Þetta var skipulagsleg martröð. Rykfallnir einvaldar sátu sem fastast, héldu fyrir eyrun og öskruðu ef einhver sagði „nútími“.
Ef þú varst eldheitur föðurlandsvinur og skáld af rómantíska skólanum var þetta ástand óþolandi. Þú myndir vilja þingræði og stjórnarskrárbundið konungdæmi eins og í Englandi, þú myndir vilja sterkt miðlægt ríkisvald eins og í Frakklandi og umfram allt annað: sameiningu allra Þjóðverja í eitt, framsækið og öflugt ríki.
Frá sjónarhóli valdhafanna setti þessi hugsun „eðlilegt ástand hlutanna“ náttúrulega í uppnám. Ef þú ert smágreifi í Saxlandi sem nýtur þess að skattpína þegna þína eða austurrískur keisari sem vill ekki að erkióvinurinn í Prússlandi verði mögulega þýskur yfirkeisari, þá ferðu að hlæja svolítið vandræðalega og svitna ef talið berst að frönskum stjórnmálum. Franska byltingin var hættuleg, áhrif og eftirköst hennar bar að þurrka út úr sögunni og ruglið eftir Napóleon þurfti að laga.
Í september þetta sama ár, 1814, komu saman í Vín fulltrúar allra helstu valdaþjóða í Evrópu; nýrra valdhafa í Frakklandi eftir að Napóleoni var komið frá, Rússlands, Bretlands, Austurríkis og Prússlands. Sendimenn frá litlu ríkjunum fengu líka að vera með. Meira að segja útnáramaðurinn Friðrik 6. Danakonungur fékk að vera með. Þar hittust menn yfir prótótýpunni af Sacher-tertu og kaffibolla og ákváðu að franska byltingin væri sögulegt slys sem bæri að skauta yfir. Almenningur væri í eðli sínu vitlaus og heimskur og óhæfur til að skipa málum sínum sjálfur. Þaðan af síður væri hann til þess bær að semja sér stjórnarskrá. Sú krafa borgaranna væri ekki við hæfi í þýsku ríkjunum, þar sem slíkt nyti engrar hefðar.
Maðurinn á bak við þessa almennu afstöðu Vínarfundarins var Klemens von Metternich, fursti, utanríkisráðherra og kanslari Austurríkis – maðurinn sem tók fundinn í sínar hendur og dáleiddi alla viðstadda með persónutöfrum og skemmtilegheitum. Ef einhver stjórnaði því hvernig Evrópa leit út eftir Napóleonsstyrjaldirnar, þá var það hann.
Hermennirnir sem komu heim úr stríðunum við Napóleon voru ekki sammála Metternich. Um neitt. Þeir og almenningur yfirhöfuð höfðu þróað með sér sterka pólitíska vitund og skýra kröfu um breytingar í þýsku ríkjunum. Þeir vildu eiga þátt í stjórn sameinaðs Þýskalands. Það varð snemma ljóst að Metternich og félagar, vinsælir alls staðar, vildu ekki vera með. Í staðinn var stofnað lauslegt ríkjasamband 35 þýskra ríkja og fjögurra ríkisborga með pósthólfsskrifstofu í Frankfurt. Engin stjórnarskrá var samin, engin raunveruleg sameining átti sér stað. Ekkert. Franska byltingin hafði aldrei átt sér stað og Napóleon hafði aldrei fæðst.
Þetta olli skiljanlega gríðarlegri gremju og biturð hjá öllum hugsandi mönnum. En þar sem Þjóðverjar eru svo kurteisir og hlýðnir að eðlisfari gerðist ekkert. Ekki á yfirborðinu að minnsta kosti. En undir niðri fór allt af stað. Þeir létu ekki af því að hugsa látlaust um frönsku byltinguna eins og áratugina á undan. Og eins og síðar í sögunni voru það háskólastúdentar sem létu til sín taka. Stúdentasamtök, svonefnd Burschenschaften, voru stofnuð í öllum háskólaborgum og höfðu á stefnuskrá sinni bjórdrykkju, skylmingar og sameinað, framsækið Þýskaland og létu öllum illum látum.
Að vera í stúdentasamtökum var sama og að vera pólitískur skæruliði og uppreisnarseggur í augum yfirvalda. Þeir voru að sturlast úr bræði yfir aðgerðaleysi og vanhæfni stjórnvalda til að innleiða nútímann og voru ekki hræddir við að láta það í ljós. Fáni hreyfingarinnar var svartur, rauður og gylltur. Þessir litir hafa verið tákn frelsis, lýðræðis og byltingar í Þýskalandi æ síðan – þess vegna var hann gerður að þjóðfána eftir að keisararíkið féll 1918 og þess vegna létu nasistar það verða sitt fyrsta verk að skipta honum út fyrir hakakrossinn árið 1933. Hættulegir litir. Pólitísk róttækni stúdenta – svört, rauð og gul – fæddist sem sé í Þýskalandi um 1830 en ekki í Frakklandi árið 1968.
Líður nú og bíður. Það er gerð bylting í Frakklandi í febrúar 1848. Pólitísk symbíósa þessara landa var þannig á þessum tíma að fordæmið kom alltaf frá Frakklandi. Nú er að duga eða drepast. Sameinað Þýskaland með frjálslynda stjórnarskrá eða dauði. Brjálaðir stúdentar og betri borgarar með pólitíska brundfyllisgremju fara út á götuvígin með fánann. Berlín og Vín loga. Það nennir enginn að vera kurteis lengur.
Ferdinand I. Austurríkiskeisari (sem fræðimenn eru nú sammála um að hafi verið þroskaheftur – note to self: erfðaríki eru óhentug) stendur úti í glugga og spyr Metternich: „Af hverju hafa þau svona hátt?“ „Þau eru að gera byltingu, yðar hátign.“ Ferdinand: „Já. Mega þau það?“
(Frægasta setning þessa keisara féll reyndar við matarborðið: „Ich bin der Kaiser und ich will Knödel.“ „Ég er keisarinn og mig langar í dumplings.“)
En nei. Byltingin rennur alls staðar út í sandinn og saga Þýskalands verður aldrei söm. Í London er staddur Karl nokkur Marx með Kommúnistaávarpið bókstaflega sjóðandi heitt úr prentvélinni, frumútgáfan var prentuð á þýsku í London 21. febrúar 1848, í miðri febrúarbyltingunni í París, fimm dögum áður en annað franska lýðveldið var stofnað, og frá London var bókinni smyglað til Þýskalands. Í London var reyndar þá þegar til nokkurs konar hugveita þýskra útlagamenntamanna sem höfðu flúið þrúgandi ástandið í Þýskalandi. Í London hugsuðu þeir og skrifuðu að vild og gáfu meira að segja út dagblað á þýsku, Deutsche Londoner Zeitung.
(Ég hef annars alltaf verið forvitinn um útbreiðslu þýsku og þýskrar menningar í hinum enskumælandi heimi, mér finnst það skrýtið og skemmtilegt kúríositet. Eins og til dæmis dagblaðaútgáfa á þýsku í Bandaríkjunum á 18. öld sem ég fjalla kannski um síðar. Eða sú staðreynd að 51 milljón Bandaríkjamanna er af þýskum ættum, sem er langstærsti þjóðernis-„minnihluti“ þar um slóðir. Hann er ábyrgur fyrir því að Apfelstrudel og Tannenbaum heita núna apple pie og christmas tree og eru amerískari en hamborgarinn. Já. Sem er líka þýskur.)
Og þó. Byltingin 1848 rann ekki alveg út í sandinn. Hún kom ýmsu óvæntu til leiðar. Meira um það síðar. Og um einn sérstæðasta og skemmtilegasta skríbent þýskrar sögu sem bjó stóran part ævi sinnar í Frakklandi og var hetja skammlífs manns úr Öxnadal.