Fyrir nokkrum árum fékk aserski ljósmyndarinn Rena Effendi verkefni frá olíufélaginu BP að ferðast um Aserbaídsjan og festa á filmu auðlegðina sem olíuiðnaðurinn hefði fært landinu hennar. BP er aðalsamstarfsaðili Aserbaídsjans í olíuvinnslu, en landið framleiðir um 800.000 tunnur af olíu á dag.
Hún sannfærðist þó fljótlega um að sú auðlegð væri í höndum afar fárra og langflestir íbúar Aserbaídsjan nytu lítils góða af.
Í stað þess að lofprísa olíufélagið ferðaðist hún því í þorp á bökkum Kaspíahafs þar sem gríðarlegum verðmætum er pumpað upp úr vatninu, en þorpsbúar búa margir við ömurlegan kost. Og í fátækustu hverfi höfuðborgarinnar Bakú, þar sem verkamenn olíuiðnaðnarins búa í niðurgrotnandi risablokkum.
Myndir hennar sýna raunveruleika þeirra sem lítið sem ekkert hafa grætt vegna olíuauðsins.
Eftirfarandi myndir tók Effendi í Georgíu og Tyrklandi. Olíuauðlegðin einskorðast nefnilega ekki við landamæri Aserbaídsjans. Olíuleiðsla liggur frá Baku yfir til Georgíu og svo til Ceyhan, hafnarborgar í Tyrklandi, hvaðan olían flæðir svo um borð í skip og yfir til Evrópu.
Meðfram leiðslunni hefur fólk þurft að yfirgefa heimili sín, búskapur bænda eyðilagst vegna mengunar og fiskimenn misst aflann vegna umferðar tankskipa.