Lemúrinn leyfir sér að fullyrða að fá dýr hér á jörðinni geti skákað nöktu moldvörpurottunni (Heterocephalus glaber) svokallaðri í hreinum ófríðleika. Þetta snotra nagdýr er að finna í graslendi Austur-Afríku. Sérkenni þeirra er að þær búa neðanjarðar í búum líkt og maurar og býflugur, en slík tilhögun er annars svo að segja óþekkt meðal spendýra. Þær bregða sér sjaldan ef aldrei upp á yfirborðið og eru þess vegna hárlausar og staurblindar, og eru auk þess eina spendýrið með kalt blóð. Naktar moldvörpurottur nærast aðallega á rótarhnýðum sem þær finna neðanjarðar, en eru einnig hrifnar af því að borða eigin skít.
Header: Kvikindi
Velkomin á Dýrasíðu Lemúrsins. Hér er fjallað um ýmsar dýrategundir.