Afskekktasta eyja á Jörðinni er Bouveteyja, örsmá eldfjallaeyja í Suður-Atlantshafi, 2525 kílómetra suðsuðvestur af ströndum Suður-Afríku. Eyjan er undarlegt nokk hluti af Noregi, en norskir heimskautafarar eignuðu Noregi eyjuna árið 1927.
Flatarmál eyjunnar er 42 km² og eru 93% hennar hulin jökli. Það er því fátt að aðhafast á eyjunni og mjög sjaldgæft að fólk leggi þangað leið sína. Í dag er eyjan titluð náttúrufriðland og Norska heimskautastofnunin rekur þar veðurathugunarstöð. Ber þó að halda því til haga að Hollywood-myndin frábæra Alien vs. Predator átti að gerast á Bouveteyju.