Halldór Armand Ásgeirsson er rithöfundur og pistlahöfundur sem er allajafna búsettur í Berlín, höfuðborg Þýskalands. Hann er fæddur árið 1986, gekk í MH og fór í lögfræði í Háskóla Íslands að stúdentsprófi loknu. Á námsárunum starfaði hann sem blaðamaður hjá Morgunblaðinu og skrifaði þá einnig leikritið Vakt sem var sýnt í leikhúsinu Norðurpólnum árið 2010. 

Halldór hefur skrifað nóvellurnar Vince Vaughn í skýjunum og Hjartað er jójó (2012) og skáldssögurnar Drón (2014) og Aftur og aftur (2017). Hann flytur vikulega pistla í Lestinni á Rás 1 sem hafa notið mikillar hylli hlustenda. Halldór hefur ekki síst vakið athygli á síðustu misserum fyrir að vera mun betri talsmaður neytenda en Talsmaður neytenda, en pistlar hans um verðlag á Íslandi tryggðu honum meðal annars samsetta mynd á vefsíðu DV.

Skáldsagan Aftur og aftur kom út árið 2017 við góðar undirtektir. Bókarkápan, eftir Sigga Odds, vakti sömuleiðis verðskuldaða athygli.

Halldór ætlar að taka Proust-prófið, sem byggir á þýddu prófi Egils Helgasonar, eins og áður hefur komið fram. Sögu prófsins má í öllu falli nálgast hér

Sæll, Halldór. Apríl er að ljúka og vorið virðist komið. Hvernig er heilsan?

Líkamleg heilsa er bara mjög fín, það er gott að vera kominn heim og ég kann bara ágætlega við þetta ástand. Annars hefur ákveðin ringulreið fylgt því að vita ekkert hvað er framundan, hvenær maður getur farið aftur út og svo framvegis. Það getur skapað smá kvíða.

En þú ert klár í prófið? 

Já, ég sit hérna við stofuborðið hjá mér með bláa könnu af ísköldu vatni og til í slaginn. Tek fram að ég veit ekkert um svona próf, svo ég er spenntur.

Flott er, ræsum þetta. 

Hver er þín hugmynd um hamingju? 

Það fyrsta sem kemur upp í hugann er það lífsviðhorf mitt, sem er kannski ekki mjög frumlegt, að hamingja sé ekki beinlínis markmið út af fyrir sig. Hamingja ræðst af svo ótrúlega mörgum hlutum, atvikum og aðstæðum sem við ráðum engu um. Þess vegna er hamingja kannski svolítið eins og leiðarstjarna á himni, sem maður getur reynt að elta og fylgja, þótt maður nái kannski aldrei fyllilega þangað. Hvað sjálfan mig varðar pæli ég meira í einhverju eins og lífsfyllingu og merkingu heldur en hamingju. Lífsfyllingunni getur maður meira stjórnað, og hamingjan er – vonandi – oft afurð hennar.

Hvað óttast þú mest? 

Hér þarf ég að hugsa mig vandlega um. Ég óttast oft að taka rangar ákvarðanir og ég óttast oft minn eigin efa, hræðist að hann leiði mig á glapstigu eða til einhvers konar andlegrar lömunar. En stundum kemur yfir mig svart ský og ég fer að óttast að mannlegt samfélag sé á algjörlega hroðalegri vegferð, því sé stjórnað af mannfjandsamlegum öflum og að í stuttu máli sé lífið og tilveran fyrir þorra manna miklu erfiðara og þjáningarfyllra en það þyrfti nokkurn tímann að vera. Vandamálið í dag er að það virðist næstum því óhugsandi að ímynda sér annað ástand. Ég væri til í að vera aðeins meiri draumóramaður.

Hvað er þér verst við í eigin fari?

Ég get verið mjög mislyndur og sjálfhverfur.

Hvað er þér verst við í fari annarra? 

Ég held að það sé bara einfaldlega ókurteisi og óvirðing við aðra.

Hvaða lifandi manneskju dáir þú mest? 

Það er engin ein manneskja sem trónir þar á toppnum. Ég dái foreldra mína, föðurbróður minn og mjög marga vini mína og vinkonur. Svo á ég mér alls konar fyrirmyndir úti í heimi sem hafa ekki hugmynd um að ég dái þær.

Hvað, ef eitthvað, áttu til að gera í óhófi? 

Borða súkkulaðirúsínur, bæði dökkar og ljósar, það skiptir engu, ég spæni þetta upp. Svo er örugglega hægt að segja að ég sinni minni eigin ástríðu óhóflega, en eru ekki allar ástríður nauðsynlegar í óhófi?

„Borða súkkulaðirúsínur, bæði dökkar og ljósar, það skiptir engu, ég spæni þetta upp.“ Auglýsing fyrir Californíu-rúsínur og annað góðgæti, í jólablaði Þjóðviljans árið 1977.

Hvert er hugarástand þitt núna? 

Geysileg óvissa fyrst og fremst. Ég var að klára handrit sem ég hef verið vakinn og sofinn yfir í langan tíma og hef mjög takmarkaða hugmynd um það hvort það er eitthvert vit í því. Það er óþægilegt. Svo vegna þessa ástands er líka óvissa um margt annað hjá mér. Svo ég er dálítið stressaður. 

Hver er ofmetnasta dyggðin? 

Það er alltaf verið að segja fólki að „halda áfram“ ef það lendir í einhverju slæmu. Ég veit ekki hvort það flokkast sem dyggð, en fyrir mér er það ekki mjög gagnleg speki.

Við hvaða tækifæri lýgurðu? 

Ég held að það tengist miklu frekar viðfangsefninu hverju sinni heldur en einhverju sérstöku tilefni. Ég hreinlega veit það ekki. Kannski bara þegar mig langar ekki til að ræða eitthvað en hef ekki kjarkinn í að segja það?

Hvað þolir þú minnst við útlit þitt? 

Þegar ég var yngri fannst mér ég með ljótt nef og leið alltaf eins og ég væri algjör væskill af því ég var alltaf svo léttur og aumur. Ég hef líka oft öfundað fólk sem er með beinar tennur og fannst oft neyðarlegt að sýna brosið mitt þegar ég var yngri. Finnst það ómeðvitað ennþá, held ég, núna þegar ég leiði hugann að því. Ég brosi yfirleitt með lokaðan munninn.

Hvaða eiginleika kanntu mest að meta í fari karla? 

Við erum á leiðinni fimm strákar á eftir að bera píanó upp stiga fyrir vinkonu mína, en annars held ég að það sem ég kann mest að meta í fari fólks sé ekki á nokkurn hátt tengt kyni.

Hvaða eigineika kanntu mest að meta í fari kvenna? 

Já, bara sama svar, held ég.

Hvaða orð, eða frasa, áttu til að nota of mikið? 

Ætli það sé ekki bara gamla góða sko, sko.

Hver er stærsta ástin í lífi þínu? 

Sú ást er farin úr lífi mínu. En hver veit, kannski gerist það aftur einhvern tímann. Í dag er stærsta ástin eflaust bara ást á bókmenntum og heimspeki.

Hvar og hvenær varst þú hamingjusamastur?

Ég man eftir einu mómenti í Madríd á Spáni þegar ég var þar í skiptinámi, það var hlýtt vorkvöld og ég var mjög ástfanginn. Foreldrar mínir voru í heimsókn og gistu á hóteli í svona fimmtán mínútna fjarlægð frá þar sem ég bjó. Þegar við kvöddum þau fyrir utan hótelið og gengum heim, það var þetta móment. Mér fannst bara heimurinn og lífið allt fullkomið og ég vissi að þetta allt yrði eflaust aldrei betra en nákvæmlega þetta rölt heim. 

Hvaða hæfileika myndirðu helst vilja búa yfir? 

Ég væri mjög til í að vera góður söngvari.

Ef þú gætir breytt einhverju einu við sjálfan þig, hvað væri það?

Ég vildi að ég hefði aðeins meiri stjórn á mínum eigin hugsunum og að ég ætti auðveldara með að tjá tilfinningar mínar, og satt best að segja skilja tilfinningar mínar aðeins betur.

Ef þú myndir endurholdgast sem önnur manneskja, dýr eða lifandi vera, hvað væri það?

Ég hef lengi séð fyrir mér að endurholdgast sem mávur, til dæmis einn af þessum mávum sem hanga upp á ljósastaurum við Sæbraut. 

Í hvaða borg/landi myndirðu helst vilja búa? 

Mér finnst voða fínt að búa í Berlín. Það er engin önnur borg sem togar í mig á sama hátt.

„Mér finnst voða fínt að búa í Berlín. Það er engin önnur borg sem togar í mig á sama hátt.“ Halldór ásamt kisu í Neukölln, Berlín. Mynd úr einkasafni.

Hver er mikilvægasti hlutur sem þú hefur átt? 

Það eru ákveðnar bækur sem skipti mig miklu máli að eignast. Svo örugglega bara tölvan mín, því ég vinn allt á hana.

Hver er mesti harmur sem þú gætir hugsað þér?

Ég held að ég vilji ekki fara út í það hér. Það of mikill harmur til þess að það sé eitthvert gagn í því að skrifa hann niður.

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera? 

Það er að eiga góðar samræður við skemmtilegt fólk, lesa, spila fótbolta og skrifa skáldskap. Svo líður mér mjög vel á teknóklúbbum.

„Svo líður mér mjög vel á teknóklúbbum.“ Berghain/Panorama Bar, líklega frægasti slíki klúbbur heims. Staðsettur í Friedrichshain-hverfi Berlínar, rétt við Ostbahnhof, í gömlu raforkuveri. Mynd: M.Laiacker/wikimedia commons.

Hver er sterkasti þátturinn í þínu fari?

Ég hef mjög skýra sýn á það sem ég vil gera og hvað ég brenn fyrir. Það er eitthvað sem má hugga sig við.

Hvaða rithöfundar eru þér mest að skapi? 

Hómer, Shakespeare, DeLillo og Kundera væru alltaf ofarlega á blaði.

Hvaða skáldskaparpersóna er þér mest að skapi?

Hamlet.

Hvaða einstaklingur úr mannkynssögunni er þér mest að skapi?

Plató. Kristur. 

Hvaða einstaklingur úr mannkynssögunni er þér síst að skapi?

Það er erfitt að draga einhvern einn út hér. Er ekki best að sleppa því bara.

Hvaða tónlistarfólk er þér mest að skapi? 

Þegar ég var yngri var ég mikið fyrir hipparokk frá Kaliforníu, t.d. Grateful Dead. Ég var alltaf rosalega hrifinn af heimspeki og lífsviðhorfi þeirrar hljómsveitar, sem sagt anarkisma og frjálsræði, og er það enn. Svo ég ætla að segja: Tónlistarfólk sem gerir frelsandi músík!

„Þegar ég var yngri var ég mikið fyrir hipparokk frá Kaliforníu, t.d. Grateful Dead. Ég var alltaf rosalega hrifinn af heimspeki og lífsviðhorfi þeirrar hljómsveitar, sem sagt anarkisma og frjálsræði, og er það enn.“ Bandaríska hljómsveitin Grateful Dead í desember árið 1970, ljósmynd sem birtist í Billboard-tímaritinu til að kynna plötuna American Beauty.

Hvernig viltu deyja? 

Væri flott að fara í drive-by árás, en það er kannski ekki mjög líklegt einmitt núna. Annars þætti mér gott ef ég get dáið og vitað að ég hafi að minnsta kosti reynt að gera það sem gerði mig glaðan og færði mér fyllingu í lífinu.

  

Hvert er uppáhaldsblómið þitt? 

Ég kann ekki mörg blómaheiti. En begóníur eru góðar og svo eru kaktusar æðislegir. Friðarlilja er líka mjög fallegt og aðlaðandi heiti á blómi.

Hvert er uppáhaldsfjallið þitt? 

Ég veit ekkert um fjöll og veit engin nöfn heldur. Eina fjallið sem hefur einhvern presens í lífi mínu í áranna rás er Hafnarfjallið. Það er mjög tignarlegt og fínt fjall.

Áttu þér eftirlætis einkunnarorð/mottó? 

Nei, í rauninni ekki, en ég las eitt gott frá Plató um helgina, bíddu, ég strikaði undir það. 

Já, hérna er þetta. „Ekkert stórt vinnst, nema miklu sé hætt.“

„Ekkert stórt vinnst, nema miklu sé hætt,“ gæti Plató verið að segja Aristóteles, á þessari fresku eftir Rafael frá árinu 1509 sem ber titilinn Aþenuskólinn. Hana er að finna í Vatikaninu.

Það eru prýðileg lokaorð, prófinu er lokið. Kærar þakkir, Halldór. 

Takk fyrir mig!