Árið 1924 fjallaði bandarískt dagblað um íslenska sjálfsvarnarlist, glímu, sem væri kjörin fyrir stúlkur. Þær gætu með ótrúlegum klækjabrögðum glímunnar yfirbugað kraftalega ribbalda með einfaldri snertingu.

 

Jóhannes á Borg, glímukóngur og hótelrekandi, ferðaðist vítt og breitt vestanhafs með sirkussýningum og breiddi hróður íslenskrar glímu út um Norður-Ameríku. Margir voru ákaflega hrifnir af þessari norrænu og kannski eilítið furðulegu bardagatækni.

 

Jóhannes var auðvitað mjög flinkur að glíma og gat yfirbugað sterkustu menn á augabragði. Var hér komin hin fullkomna sjálfsvarnarlist, spurðu sumir sig?

 

Árið 1924 ræddi blaðið Evening Tribune um glímu eða „hið íslenska jiu-jitsu“. Það væri kjörin bardagalist fyrir stóra sem smáa, fullkomin til sjálfsvarnar. „Kona stendur jafnvel að vígi fyrir framan glæpamann eins og ef hún stæði fyrir aftan vélbyssur.“

 

Glíma

Stelpan þarf ekki að vera sterk ef hún er klók í glímu. Smellið til að stækka myndina.

 

Blaðið ræddi við Jóhannes Jósefsson, sem var kunnasti glímukappi heims, og hann lagði til að glíma yrði kennd í bandarískum skólum svo að strákar og stúlkur lærðu að verja sig fyrir ribböldum. „Ég ýki ekki þegar ég segi að jafnvel veikbyggð kona geti með snaggaralegum glímubrögðum sigrast á kraftalegum stigamanni,“ sagði Jóhannes. „Hún getur meira að segja yfirbugað ræningjann þó hún sé óvopnuð og að hann haldi á fullkomnustu byssu.“

 

glima2

Smellið til að stækka myndina.

 

„Glíma snýst öðru fremur um andlega eiginleika og er að því leyti ólík mörgum íþróttum. Andstæðingurinn sér um allt erfiðið, þú átt rétt svo síðasta orðið, einfalda snertingu. Kunnátta þessi, viskan, þessi hárnákvæma leikni var fundin upp af víkingum á Íslandi fyrir um tíu öldum síðan,“ sagði Jóhannes ennfremur.

 

Lesið þessa skemmtilegu grein hér.

 

jóhannes