Everything is a Remix er afar fróðleg og hnitmiðuð heimildarmynd í fjórum þáttum um hringrás hugmyndanna í samfélagi manna. Bandaríski kvikmyndagerðarmaðurinn Kirby Ferguson, sem er sögumaður og prímusmótor myndarinnar, birti fyrsta hlutann fyrir rúmu ári síðan. Nú er fjórði og síðasti hlutinn kominn á netið og er eins og hinir, algjörlega ókeypis til áhorfs á netinu.
Megininntakið í þáttaröðinni er að frábær listaverk, uppfinningar og uppgötvanir verði aldrei til úr engu. Menn fái óafvitandi alltaf eitthvað lánað úr umhverfi sínu og að sköpunin felist því aðallega í að púsla saman nýrri afurð úr byggingareiningum ólíkra hugmynda.
Fyrsti hlutinn, „The Song Remains the Same“, fjallar um hlutverk rímixins, endurhljóðblöndunar og endurgerðar, í tónlist. Annar hluti, „Remix Inc.“ fjallar um það sama en á sviði kvikmyndagerðar og sá þriðji, „The Elements of Creativity“, ræddi hringrás hugmyndanna í tækni- og tölvugeiranum.
Fjórði og síðasti hluti Everything is Remix kom út í gær og nefnist „System Failure“. Í þetta sinn varpar Kirby Ferguson kastljósi sínu á gallaða höfundarréttarlöggjöf Bandaríkjanna og fleiri ríkja, sem hann telur að þjóni fyrst og fremst hagsmunum stórfyrirtækja og sinni alls ekki því hlutverki sem henni var ætlað í upphafi.
„The Song Remains the Same“
„Remix Inc.“
„The Elements of Creativity“