Vídjó

„We are concerned with making money. That is what we are trying to do.“

 

Bretinn Adam Curtis hefur gert fjölmarga skemmtilega og fróðlega heimildarþætti í gegnum árin. Lesendur kannast ef til vill við þáttaraðir hans The Trap, The Power of Nightmares og Century of the Self, svo eitthvað sé nefnt.

 

The Mayfair Set frá árinu 1999 eru merkilegir heimildarþættir Curtis um þjóðfélags- og valdabreytingar í Bretlandi á áratugunum eftir stríð. Sigur í heimsstyrjöldinni síðari reyndist breska heimsveldinu dýrkeyptur og að stríðinu loknu var Stóra-Bretland stórskuldugt ríki að þrotum komið. Á árunum 1950-1980 slitu nýlendurnar sig frá heimsveldinu hver á fætur annarri með þeim afleiðingum að efnahagsmáttur landsins hnignaði og áhrif þess á alþjóðavísu fóru dvínandi. Á þessu umbreytingaskeiði hrifsaði ný kynslóð kapítalista og spákaupmanna til sín efnahagsvald í Bretlandi og gerbreytti þjóðfélaginu.

 

David Stirling, James Slater, Jimmy Goldsmith og Margaret Thatcher.

Þættirnir greina frá nokkrum litríkum ævintýramönnum sem áttu þátt í að hrinda af stað þessum breytingum, en þeir voru allir um tíma meðlimir í Clairmont klúbbnum í Mayfair í Lundúnum. Fyrsti þátturinn fjallar um sérsveitarmanninn David Stirling, sem barðist sem málaliði fyrir Bretland á eftirstríðsárunum og seldi vopn til Miðausturlanda. Annar þátturinn segir sögu fjárfestisins David Slater, sem vildi stokka upp í efnahagslífi Bretlands og taka völdin frá hefðbundnu ráðamannastétt landsins. Þriðji þátturinn rekur feril herskáa spákaupmannsins Jimmy Goldsmith, sem varð einn ríkasti maður heims af því að taka yfir fyrirtæki og leysa þau upp í hagnaðarskyni. Síðasti þátturinn fjallar svo um valdatíð Margaret Thatcher og efnahagsumbreytingar níunda áratugarins.