Þann 1. júní 1960 andaðist 64 ára gömul kona sem bjó í smábænum Berchtesgaden í Þýskalandi, rétt fyrir landamæri Austurríkis. Hún bjó ein og átti ekki mikið af kunningjum, svo andlát hennar vakti litla athygli. Ættingjar mættu engir í útförina. Hún hafði borið nafnið Paula Wolff og í Berchtesgaden vissu menn ekki annað en það væri hennar rétta nafn. Það vakti því svolitla eftirtekt um skeið þegar á legsteini hennar birtist annað nafn.

 

Paula Hitler.

 

Því þetta var systir Adolfs.

 

Foreldrar Adolfs hétu eins og allir vita Alois og Klara. Alois átti tvö börn áður en þau Klara giftust, en Klara bar manni sínum svo sex börn. Þrjú þau elstu dóu ung – Gustav tveggja ára, Ida eins árs og Otto þriggja daga. Fjórða barnið Adolf fæddist 1889 og lifði þar hann svipti sig lífi við lok síðari heimsstyrjaldar. Fimmta barnið Edmund fæddist 1894 og dó tæplega sex ára.

 

Svo fæddist Paula 1896. Adolf var sem sagt sjö árum eldri en Paula. Aldursmunurinn kom ekki í veg fyrir að væntumþykja væri milli systkinanna, og Paula litla fylgdist af samúð með baráttu stóra bróður við hinn yfirþyrmandi ofstopamann sem heimilisfaðirinn Alois var.

 

„Hjónalíf foreldra minna var gott,“ sagði Paula síðar, „þótt þau væru mjög ólíkir persónuleikar. Faðir minn var gífurlega strangur hvað snerti uppeldi barnanna, þó hann spillti mér svolítið með eftirlæti af því ég var yngst. Hann var dæmigerður austurrískur embættismaður af gamla skólanum, erkiíhald og trúr keisara sínum til dauðans. Móðir mín var hins vegar mjög mild og blíð manneskja, og vóg svolítið salt milli hins stranga heimilisföður og hinna mjög líflegu barna sem stundum létu ekki almennilega að stjórn.“

 

Paula Hitler.

 

„Það var sérstaklega Adolf bróðir minn sem ögraði föður mínum og gerði að verkum að hann varð æ strangari. Faðir minn lúskraði á honum á hverjum degi. Hann var óþekkur lítill þorpari og allar tilraunir föður míns til að berja úr honum dónaskapinn og fá hann til að elska og sækjast eftir starfi embættismanns keisarans voru þýðingarlausar. En móðir mín aftur á móti var sífellt að láta vel að honum og reyna að fá hann með góðu til að gera það sem faðir minn gat ekki fengið hann til með hörkunni.“

 

Svona lýsti Paula heimilislífinu í yfirheyrslu hjá bandarískum hermönnum eftir seinni heimsstyrjöldina. Í dagbók sem hún skrifaði, og fannst löngu eftir lát hennar, kemur fram enn ofstopafyllri mynd af uppeldinu á Hitlers-heimilinu. Þar segir m.a. um barsmíðarnar sem Adolf sætti:

 

„Þegar hún [Klara] óttaðist að faðirinn gæti ekki lengur hamið sig í stjórnlausri reiði sinni, þá ákvað hún að stöðva barsmíðarnar. Hún fór upp á loft og kastar sér yfir Adolf sem liggur á gólfinu. En hún nær ekki að stöðva síðasta högg föðurins. Án þess að gefa frá sér minnsta hljóð tekur hún við högginu.“

 

Vídjó

 

Breski kvikmyndagerðarmaðurinn Peter Morley tók viðtal við Paulu árið 1958 — eina sjónvarpsviðtalið sem hún gaf á ævinni. Hún neitaði að tala um pólitík og ræddi aðeins æsku sína og Adolfs.

 

Úr heimildaþætti History Channel, Hitler’s Family: In the Shadow of the Dictator:

 

Adolf litli var, að sögn Paulu, ætíð „leiðtogi“ annara barna í leik þeirra, þar sem hann hafi haft „sterkari vilja“ en þau. Adolf og Paulu mun hafa verið skikkanlega til vina í uppeldinu, þótt þau ættu líka til að rífast og skammast hvort í öðru. Adolf fór strax að draga dám af föður sínum, og sló Paulu óhikað utan undir ef honum sinnaðist við hana.

 

Árið 1903 dó Alois og varð börnum sínum ekki harmdauði. Annað var upp á teningnum 1907 þegar Klara dó úr krabbameini aðeins 47 ára gömul. Þá voru þau óhuggandi, og Paula lýsti því síðar af hve mikilli natni og blíðu Adolf hefði hlúð að móður sinni meðan hún lá banaleguna.

 

Klara og Alois Hitler.

 

Ári síðar hvarf Adolf á braut og Paula frétti ekki af honum í mörg ár. Hún fluttist til Vínarborgar og starfaði þar á skrifstofu og hitti Adolf næst í upphafi 3. áratugarins. Þá var hann orðinn forkólfur í hreyfingu nasista í Þýskalandi. Heimildir eru um að Paula hafi deilt með Adolf sterkri þjóðernishyggju en hún lét það þó aldrei opinberlega í ljósi, og gekk aldrei í nasistaflokkinn.

 

Raunar voru samskipti þeirra afar takmörkuð alla tíð, þótt þau væru vinsamleg. Árið 1930 missti Paula vinnu sína í Vínarborg, þegar vinnuveitandi hennar frétti af því að hún væri systir herra Hitlers sem fór svo mikinn fyrir norðan landamærin, og þegar Hitler frétti þetta veitti hann systur sinni ýmsan stuðning. Hún fékk eftirleiðis ákveðna peningaupphæð árlega frá Adolf og hann ráðlagði henni að skipta um nafn til að losna við áreiti vegna tengsla við sig. Það var hann sem stakk upp á nafninu Wolff, en það nafn hafði hann stundum notað sjálfur á sínum yngri árum.

 

Þegar Hitler var orðinn einræðisherra í Þýskalandi hittust þau systkinin á að giska einu sinni á ári, en hún kom aldrei fram opinberlega með honum, né hafði sig í frammi í nokkurn hátt. Árið 1942 keypti Hitler handa systur sinni lítið hús í smáþorpi í Austurríki. Mestöll stríðsárin starfaði hún á aðalskrifstofu hersjúkrahúss í Austurríkis.

 

Þar mun hún hafa kynnst dr. Erwin Jekelius, tauga- og geðlækni sem drap milli sem fjögur og fimm þúsund sjúklinga sína með gasi, af því þeir voru taldir óæðri, vangefnir eða haldnir arfgengum sjúkdómum af ýmsu tagi. Jekelius er talinn einn af verstu glæpamönnum Austurríkis frá árum seinni heimsstyrjaldarinnar.

 

Árið 1942 fór Jekelius á fund Hitlers og bað um hönd Paulu, vitanlega með fullum vilja hennar. Hitler aftók það með öllu að þessi maður kvæntist systur hans. Og hann lét sér ekki nægja að banna hjónaband, heldur sendi hann Jekelius þegar í stað á austurvígstöðvarnar, þar sem hann féll fljótlega í hendur Sovétmanna, og dó í sovéskum fangabúðum árið 1952.

 

Fangamynd af Erwin Jekelius.

 

Paula hélt sambandi sínu við Jekelius alla tíð leyndu, svo ekki tókst að spyrja hana út í það áður en hún dó, og því er ekki vitað nákvæmlega hve mikið hún vissi um glæpi hans. Hún hefur þó áreiðanlega vitað um þá, því þessi „líknardráp“ voru stunduð nánast fyrir opnum tjöldum.

 

Eftir að stríðinu lauk og Paula Hitler var spurð út í „lokalausn“ bróður síns í málum Gyðinga og annarra „undirþjóða“, það er að segja þá allsherjar útrýmingu sem hafin var, þá brast hún í grát og kvaðst ekki trúa því að bróðir hennar hefði staðið fyrir þessum glæpum eða vitað um þá. Hún sagði líka:

 

„Gerið svo vel að muna að hann var bróðir minn … Persónuleg örlög hans snertu mig mjög djúpt. Hann var samt bróðir minn, sama hvað gerðist. Endalok hans færðu mér, sem systur hans, ósegjanlega sorg.“

 

Rétt um það leyti sem stríðinu var að ljúka var Paula kölluð til Þýskalands, líklega á fund bróður síns, en komst að líkindum ekki alla leið. Hún flutti til Berchtesgaden árið 1952 og bjó þar til æviloka.