Um miðjan níunda áratug síðustu aldar var þýski söngvarinn Thomas Anders líklega eftirsóttasti maður Evrópu. Skiljanlega. Þessi þýðverska útgáfa af Adónis var engu lík. Anders var brúnn á hörund, með silkimjúka og vel blásna hárgreiðslu og kunni að klæða sig betur en aðrir síðri kynbræður. Svo ekki sé minnst á, að hann söng eins og engill.

 

Þokkafullur.

Þokkafullur.

 

Anders var annar helmingur tvíeykisins Modern Talking og vinsæll eftir því. En þrátt fyrir að vera eftirsóttur vegna ómælds kynþokka var ljóst frá sólarupprás frægðarsólar Modern Talking að Anders væri ekki á lausu. Það fengu allir að vita og það var persónulegur umboðsmaður og eiginkona Anders sem sá til þess.

 

Nora Balling var fyrirsæta sem átti ágætu gengi að fagna sem slík í byrjun 9. áratugarins. Á sama tíma og frægðarsól hennar tók að setjast, fór hún að rísa hjá kærasta, og síðar eiginmanni hennar, Bernd Weidung. Sá breytti nafni sínu síðan í Thomas Anders. Árið 1984 brá Balling á það ráð að gefa Anders risastórt hálsmen, úr skíragulli að sjálfsögðu, þar sem nafnið NORA fór ekki framhjá neinum.

 

Anders var eign Noru og var hann tilbúinn að gangast við því með glöðu geði. Anders lét vart sjá sig næstu árin án þess að vera með merkimiðann á sér. Varð hálsmenið skotspónn grínista um víða veröld, sem fannst merkimiðinn – og sérstaklega stærð hans – bráðfyndið fyrirbæri. Sem það er.

 

Thomas er vel merktur.

Thomas er vel merktur.

 

Eftir að Anders hætti í Modern Talking, vegna ósættis milli Noru og félaga hans í sveitinni, Dieter Bohlen, settist parið að í Kaliforníu. Þau nutu þar lífsins, fluttu til Hollywood og keyptu sér húsið sem kvikmyndaleikarinn Clark Gable hafði átt. Hvorki meira né minna. Þau bjuggu fyrir vestan í eitt ár og fluttu síðan aftur til Þýskalands. Þar fór að síga á ógæfuhliðina á tíunda áratugnum og skildu þau að lokum fyrir fullt og allt árið 1999.

 

Hér má að lokum sjá hinn þokkafulla Anders, syngja við hlið hins aulalega Dieter Bohlen, um bróðurinn Louie. Að sjálfsögðu er Anders merktur Noru sinni.

 

Vídjó