Grein þessi birtist í breska dagblaðinu Northampton Mercury þann 23. júlí 1808 og greinir frá vægast sagt sérkennilegu einvígi í París það árið.

 

Íslensk þýðing:

 

Afar nýstárlegt einvígi átti sér stað í París fyrir skömmu. Herra Granpree og herra Le Pique höfðu deilt um fröken Tirevit, víðkunna óperudansmey, en hún var ástkona hins fyrrnefnda og var að halda við þann síðarnefnda. Upp úr því spratt einvígið. Þar sem báðir menn voru háfleygir hugsuðir komu þeir sér saman um að takast á í loftbelgjum …. Þann 3. maí hittust þeir á grasfleti við Tuilleries-höllina þar sem loftbelgirnir biðu þeirra. Hver um sig stigu þeir upp í fararskjót sinn ásamt aðstoðarmanni, vopnaðir rifflum, en skambyssur hefðu tæpast reynst vel undir þessum kringumstæðum.

 

Fjöldi manns mætti til þess að fylgjast með, hafandi heyrt um loftbelgina, en þó án þess að vita hver tilgangurinn væri. Parísarbúar héldu að hér væri um kappflug að ræða. Klukkan níu voru reipin skorin og belgirnir svifu tignarlega á loft innan um hróp og köll áhorfenda. Vindáttin var meðalsterk úr norð-norðvestri og eftir því sem menn gátu best séð héldust belgirnir í um það bil 75 metra fjarlægð hvor frá öðrum. Í um 800 metra hæð skaut herra Le Pique úr riffli sínum án árangurs. Nær samstundis eftir þetta svaraði herra Granpree og hæfði loftblöðru andstæðings síns. Í kjölfarið féll loftbelgurinn til jarðar, og herra Le Pique og aðstoðarmaður hans bútuðust í sundur á húsþakinu þar sem belgurinn lenti. Hinn sigursæli Granpree sveif svo glæsilega til himins og lenti öruggur ásamt aðstoðarmanni sínum í um það bil 40 kílómetra fjarlægð frá brottfararstað.