Sá ótrúlegi atburður átti sér stað á ólympíuleikunum í Helsinki 1952 að hjón frá Tékkóslóvakíu unnu bæði til gullverðlauna í greinum sínum – og það með aðeins nokkurra mínútna millibili.

 

Emil Zátopek og Dana Zátopková voru óvenju samrýmd hjón. Sálufélagar, elskendur og bestu vinir. Þau fæddust meira að segja sama daginn, þann 19. september 1922. Þau kynntust á frjálsíþróttavellinum og vörðu þar ómældum tíma, þó í sitt hvorri greininni. Emil var hlaupari af guðs náð, en Dana var frábær í kastgreinum og valdi sér loks spjótkast sem sérgrein.

 

Emil hafði reyndar þegar unnið til ólympíuverðlauna fyrir leikana 1952 en hann sigraði í 10 þúsund metra hlaupi í Lundúnum 1948 og vann einnig silfurverðlaun í 5000 metra hlaupi. Hlaupastíll Emils þótti nokkuð sérstakur. Það leit alltaf út fyrir að hann væri gjörsamlega að þrotum kominn. Var mál manna að hann hafi hlaupið með hjartanu, meir en nokkur annar hlaupari.

 

Emil var staðráðinn í að vinna einungis til gullverðlauna í Helsinki. Æfingar hans þóttu vera á mörkum heilbrigðrar skynsemi þar sem hann keyrði sig bókstaflega út á hverjum degi. Sagði hann ætíð sjálfur, að það væri á mörkum sársauka og þjáningar þar sem sauðirnir væru greindir frá höfrunum. Einn daginn hljóp hann 400 metra hlaup í hundrað skipti!

 

Æfingarnar borguðu sig. Emil vann bæði 5000 metra hlaupið og 10 þúsund metra hlaupið eftir ótrúlega endaspretti. Aðeins mínútum eftir sigurinn í 5000 metrunum kastaði Dana spjótinu 50.47 metra og tryggði sér gullið. Á blaðamannafundi þar sem hjónin sátu fyrir svörum mátti sjá yndislega kímnigáfu þeirra hjóna. Emil sagði að sigur hans hefði veitt Dönu innblástur fyrir síðasta kastið. Dana svaraði við mikil hlátrasköll: „Jæja þá. Þá ættirðu kannski að finna aðra konu til að veita innblástur og við skulum sjá hvort hún geti kastað spjóti 50 metra.“

 

Zatopek hljóp jafnan eins og hann væri við það að örmagnast. Hann hlaut snemma viðurnefnið „tékkneska eimreiðin.“

Zatopek hljóp jafnan eins og hann væri við það að örmagnast. Hann hlaut snemma viðurnefnið „tékkneska eimreiðin.“

 

Ólympíuleikunum var þó ekki lokið fyrir Emil. Hann ákvað á síðustu stundu að taka þátt í maraþon-hlaupinu, þrátt fyrir að hafa aldrei áður hlaupið svo langa vegalengd. Hann hafði ekki æft fyrir hlaupið og vissi ekki hvernig ætti að bera sig að. Hann ákvað því að leita uppi Jim Peters, þáverandi heimsmethafa í maraþoni, og elta hann allt hlaupið. Þegar hlaupið var hálfnað tók Emil eftir því að Peters var hvergi sjáanlegur. Emil hafði hlaupið hann af sér og fór létt með að sigla sigrinum heim á nýju ólympíumeti.

 

Emil og Dana sýna uppskeruna frá Helsinki.

Emil og Dana sýna uppskeruna frá Helsinki.

 

Dana og Emil voru þó ekki aðeins þekkt fyrir afrek sín í íþróttum. Þau voru heimsfræg að sjálfsögðu en þau voru einnig fræg meðal annarra íþróttamanna fyrir hógværð, vinsemd og góða kímnigáfu. Þau voru umfam allt, ótrúlega nett!

 

Þau áttu til að vingast við keppinauta sína sem þau tóku ávallt opnum örmum og gáfu þeim jafnvel góð ráð til að bæta árangur sinn. Þau buðu fjölda íþróttamanna til að heimsækja heimili þeirra í Prag, þar sem var ævinlega glatt á hjalla.

 

Sagan af heimsókn ástralska hlauparans Ron Clarke er dæmigerð fyrir þau. Clarke var frábær hlaupari á sínum tíma og setti 17 heimsmet í millivegalengdum. Skömmu eftir að hann hengdi hlaupaskóna á hilluna kom hann í heimsókn til Dönu og Emils í Prag. Þau áttu saman góðar stundir en á meðan heimsókninni stóð fannst Emil sem Clarke væri ögn dapur yfir því að hafa aldrei tekist að vinna til gullverðlauna á ólympíuleikum. Þegar Emil kvaddi Clarke á flugvellinum í Prag rétti hann honum lítinn pakka í brúnum pappír, brosti og sagði honum að opna hann í flugvélinni. Þegar Clarke opnaði pakkann komu í ljós gullverðlaun, ein þeirra sem Emil hafði unnið til í Helsinki.

 

Emil og Dana voru þjóðhetjur í Tékkóslóvakíu en eftir árið 1968 breyttist það. Þau voru í fremstu röð á götum Prag árið 1968 þar sem almenningur krafðist lýðræðis og málfrelsis. Sovétmenn kæfðu þessa uppreisn, Vorið í Prag, með skriðdrekum og blóði. Emil var sviptur flestum réttindum, og þurfti að starfa sem ruslakarl það sem eftir var ævinnar. Árið 1990 sá Václav Havel til þess að Emil og Dana fengju aftur þann sess sem þau áttu skilinn. Emil lést árið 2000, 78 ára að aldri. Dana er enn á lífi, er ern og hress og hikar ekki við að segja sögur af sjálfum sér og Emil þar sem brosið og hláturinn er aldrei langt undan.

 

Hér má sjá stutta umfjöllun CNN um hjónin (þó áherslan sé öllu meiri á Emil).

 

Vídjó

 

Sigurkast Dönu:

 

Vídjó

 

Sigurhlaup Emils:

 

Vídjó