Mónóhjól, farartæki ekki óþekk einhjólum nema hjólið eina er risastórt og ökumaðurinn situr innan í hjólinu, var undarleg þráhyggja margra uppfinningamanna og hugsuða á fyrstu árum 20. aldar. Uppfinningamenn héðan og þaðan teiknuðu og smíðuðu prótótýpur að allskyns mónóhjólum — fótstigin, mótorknúin, sérstök stríðsmónóhjól og svo framvegis.

 

Hér að ofan má sjá mann aka í ítalska mótor-mónóhjólinu Motoruota árið 1931, það ku hafa getað náð 150 kílómetra hraða á klukkustund. Fyrstu mónóhjólin voru fundin upp árið 1869 og voru fótstigin:

 

 

En það er lítið fútt í slíku. Árið 1912 smíðaði bandaríski uppfinningamaðurinn Alfred D’Harlingue mónóhjól knúið af flugvélamótor. Þó virðist það hafa haft hjálpardekk, sem er ekki alveg jafn töff:

 

 

Árið 1933 stakk bandaríska tímaritið Popular Science upp á því að mónóhjólið gæti notast í hernaði. Lýsing blaðsins á mónó-orustum framtíðarinnar var dramatísk: „Skyndilega, í gegnum reyk erfiðrar orustu, ryðjast fram undarlegir einsmanns-skriðdrekar. Þeir líkjast diskum og rúlla eins og gjarðir yfir vígvöllinn. Þeir láta vélbyssuskotin dynja sem þeir fljúga yfir skotgrafirnar, skoppa yfir á skrýtnum stálhækjum, á eftir óskipulögðum óvininum.“

 

 

Heiðurinn að besta (að minnsta kosti því mest töff) mónóhjólinu á þó ótvírætt Bretinn J. A. Purves, sem um 1932 fann upp hið tryllingslega Dynasphere. Mónóhjól Purves var gríðarlegt kringlótt járnvirki sem vó hálft tonn. Hér er sonur uppfinningamannsins á fleygiferð:

 

 

Markmið Purves með Dynasphere var að smíða mótorknúið farartæki sem væri eins einfalt og hægt er. Afraksturinn var þó kannski aðeins of einfaldur, þar sem ökumaðurinn gat lítið gert nema rúllað beint af augum — að beygja eða bremsa var mjög vandasamt. Þrátt fyrir það var Purves þess fullviss að Dynasphere væri „háhraðafarartæki framtíðarinnar“.  Til er dásamlegt fréttamyndband sem sýnir Dynasphere í allri sinni dýrð:

 

Vídjó

 

Þetta eru aðeins nokkur dæmi um undraheima mónóhjólsins, og jú, fólk er víst enn að smíða slík tæki í dag. Ítarlegar upplýsingar um sögu mónóhjólsins má lesa hér á Museum of Retro Tech.