Vídjó

Crossfire var kjaftaþáttur á bandarísku fréttastöðinni CNN þar sem kappræður voru haldnar á milli hægri og vinstrimanna (eða íhaldsmanna og frjálslyndra – eins og það heitir í Ameríku). Hannes og Mörður var líklega náskyldasta íslenska birtingarmynd sömu hugmyndar.

 

Í mars 1986 mætti enginn annar en tónlistargoðið Frank Zappa í Crossfire. Zappa var harður andstæðingur ritskoðunar og taldi að stjórnvöld mættu alls ekki ráða því hvort einhver tónlist væri gjaldgeng eða ekki. Enda væru engin rök fyrir að banna orð í söngtextum.

 

Zappa, sem reyndar leit á sjálfan sig sem íhaldsmann, mætti í þættinum hinum hægrisinnaða dálkahöfundi John Lofton sem taldi að stjórnvöld ættu að banna vissa tónlist til að vernda kristin heimili fyrir sóðalögum rokktónlistarmanna.

 

Árið áður hafði Zappa haldið ræðu á Bandaríkjaþingi um sömu mál, en upptaka frá því er einnig varðveitt á hinu alvitra safni YouTube. Zappa bar vitni í september 1985 fyrir framan nefnd öldungadeildar þingsins og beindi þar spjótum sínum að samtökunum Parents Music Resource Center, sem var einskonar foreldrafélag sem stofnað var til að hvetja stjórnvöld til að banna „dónalega“ tónlist. Tipper Gore, eiginkona Als Gore, var í fararbroddi þessara samtaka.

 

Vídjó