Hér sjáum við eldfjallið Vesúvíus við Napólíflóa á Suður-Ítalíu gjósa árið 1872. Eldfjallið, sem frægast er fyrir að hafa komið rómverska bænum Pompeii í eyði árið 79, gaus átta sinnum á nítjándu öld og var gosið sem við sjáum hér það kraftmesta. Vesúvíus er eina eldfjallið á meginlandi Evrópu sem gosið hefur á síðustu hundrað árum. Á tuttugustu öld voru þrjú gos, árin 1906, 1929 og 1944. En þetta mikla og sögufræga fjall hefur ekki gosið síðan. 

 

Íslenski vísindamaðurinn Þorvaldur Thoroddsen ferðaðist víða um lönd á nítjándu öld. Hann skrifaði ferðapistla í tímaritið Ísafold sem voru magnaðar frásagnir fyrir almenning sem á þessum árum hafði engan kost á því að ferðast svo mikið.

 

Hann heimsótti Napólí og virti fyrir sér Vesúvíus í maí árið 1885.

 

FERÐAPISTILL XX.

Neapel 27. mai 1885.

 

Jeg var fyrstu nóttina í Hotel di Roma, sem er byggt fram í sjóinn norðan til bænum.

 

Þegar jeg í fyrsta sinn leit út út um gluggann, sá jeg þá dýrðlegustu sjón, sem jeg hefi sjeð, því þaðan sjer yfir flóann mestallan.

 

Vesúvíus blasir nú hinum meginn; ströndin er öll þakin hvítum húsum; neðri hluti fjallsins dimmgrænn af skógi og vínekrum og alstaðar ljósleit hús innan um hæst upp eptir fjalli; þegar ofar dregur, verður liturinn dimmri, svarblár í fjarska af hraunum og brunaklungrum, en efst mjallahvítur gufumökkur þráðbeint í lopt upp; í suðri sjást móbergsfjöllin á skaganum hjá Sorrentó með ótal tindum og hamrahlíðum skógar í hlíðunum, þorp í lægðunum og hamrar við sjóinn; yzt úti sjést Capri, þverhnýpt eins og Drangey á Skagafirði, en miklu hærri og stærri.

 

Það, sem gerir útsjónina svo undrafagra, eru litirnir, svo hreinir og tærir, og tíbráin yfir öllu.

 

Höfnin er full af bátum og skipum; undir kvöldið fjölgar bátunum; menn eru að róa sjer til skemmtunar og kliðurinn og áraglamrið verður meira og meira; þar heyrist söngur, kveðskapur, hlátrar og köll.

 

Þorvaldur Thoroddsen fæddist 6. júní 1855 í Flatey á Breiðafirði. Hann lærði jarðfræði og landafræði í Kaupmannahöfn og starfaði þar í borg lengst af. Einna kunnastur er Þorvaldur fyrir ferðir sínar um Ísland og rannsóknir á landinu. Afrakstur þeirra eru meðal annars grundvallarritin tvö, Ferðabók (1913-1915) og Lýsing Íslands (1908-1911). Hann lést árið 1921 úr heilablæðingu. (Heimild: Ormstunga).

Þó rökkurdimman um kveldið hylji allt í fjarska, sjest þó Vesúvíus nema við himinn; við og við slær purpuralitum glampa úr gígnum og glóandi hraunstraumar liðast niður eptir hlíðunum, en inn í bænum heyrist vagnaskröltið og umferðin eins og brimhljóð álengdar.

 

Hvergi hefi jeg sjeð annað eins fjör og líf á götunum eins og í Napoli; það gengur jafnvel langt fram úr því, sem sjá má í London; hávaðinn og glumragangurinn á torgunum niður við sjóinn er; svo mikill, að það ætlar að æra hvern þann, sem óvanur er.

 

Ítalir eru fjörugir og líflegir allir; en þó komast engir í hálfkvisti við Napolibúa; þeir tala opt svo hátt, eins og þeir sjeu að hnakkrífast og baða út höndunum í sífellu, þó þeir að eins sjeu að tala um almenna og ómerka hluti.

 

Mannfjöldinn er mikill á götunum, af því svo margir vinna verk sín undir berum himni og hafast við úti.

 

Í engri borg hefi jeg sjeð annað eins sambland af auði og fátækt, skrauti og óþrifum; skrautlegar hallir og glæsilegar götur eru rjett við smástræti, þar sem óhreinir ræflar hanga á stögum yfir göturnar þverar, og haugar af rusli eru undir húshliðunum ; þar eru skrautlegir vagnar, borðalagðir þjónar og snoturt fólk innan um skríl á gauðrifnum görmum og með hálfbera eða alsbera krakka.