Þessi fýlulegi loðklumpur er pallasarköttur eða manul, sem á heima á gresjum Miðasíu. Pallasarkötturinn (Felis manul) er elsta lifandi kattartegundin, en hún þróaðist líklegast úr fornaldarkettinum pseudaelurus fyrir heilum 12 milljón árum. Pseudaelurus þessi var á stærð við hlébarða og er einnig forfaðir hinna frægu sverðkatta. Pallasarkettir eru hinsvegar einungis á stærð við vel haldinn heimiliskött.

 

Ástæða langlífis tegundarinnar er talin vera sú að pallasarkettir halda sig venjulega á torbýlum svæðum, í hrjóstrugum fjallshlíðum hátt yfir sjávarmáli þar sem fá önnur dýr láta sjá sig. Sérstaklega ekki mannskepnan, sem er helsti óvinur pallasarkattarins. Þeir eru taldir í vægri útrýmingarhættu og friðaðir í flestum löndum þar sem þá er að finna.

 

Manulskettlingar.

 

Pallasarkettir eru að mörgu leiti svipaðir hinum sígilda heimilisketti í hegðun. Þeir eru einfarar sem veiða sér smáfugla og nagdýr til matar á kvöldin. Á daginn koma þeir sér fyrir í gjótum eða holum og taka því rólega eða leggjast í sólbað.

 

Pallasarkettir eru skýrðir í höfuðið á þýska líffræðingnum Peter Simon Pallas, sem rakst á einn slíkan kött á ferðum sínum um Rússland á átjándu öld og kynnti hann vestrænum menntamönnum. Pallas þessi var duglegur og alls eru ellefu dýrategundir skýrðar í höfuðið á honum. Auk pallasarkatta eru til pallasaríkornar, pallasarmávur, pallasardúfa og fleira.