Líkt og hjá flestum öðrum Afríkulöndum er nútímasaga Egyptalands saga torsóttrar sjálfstæðisbaráttu gegn heimsveldunum. Egyptar voru undirokaðir af breska heimsveldinu frá seinni hluta 19. aldar og fram yfir miðja 20.

 

Sjálfstæðishetja Egypta var Gamel Abdel Nasser (1918-1970) sem tók völdin af konungi Egyptalands eftir byltingu 1952. Nýlenduheimsveldunum, Bretlandi og Frakklandi, stafaði sérstök ögn af sjálfstæðistilburðum Nasser því ráðamenn þar vildu ekki að íbúar kúgaðra nágrannalanda á borð við Alsír eða Súdan fengju svipaðar hugmyndir.

 

Stjórnunarhættir Nassers voru einhliða. Hann ruddi meðal annars Bræðralagi múslima, sem voru fjölmenn og vinsæl samtök í Egyptalandi úr vegi. Einn helsti leiðtogi þeirra, Sayyid Qutb (1906-1966), var í nánu samstarfi við Nasser fyrst eftir byltinguna 1952. Svo varð honum ljóst að Nasser ætlaði ekki að stjórna eftir Kóraninum og skipulagði ásamt öðrum launmorð Nassers. Qutb sat því í fangelsi 1954-1966 og skrifaði áhrifamiklar bækur um íslam. Fræjum róttækrar íslamskrar hugmyndafræði í andstöðu við frjálslynd vestræn gildi var þar með sáð í Egyptalandi.

 

Árið 1955 lýsti Nasser yfir hlutlausri afstöðu í Kalda stríðinu og árið 1956 stóð Nasser af sér tilraun Ísraela, Breta og Frakka til að ná yfirráðum yfir Súez-skurðinum, sem hafði gífurlegt efnahagslegt mikilvægi. Almennt var litið svo á að átökin um Súez-skurðinn hefðu veikt mjög stöðu Breta og Frakka á alþjóðavettvangi en að sama skapi styrkt Nasser heima fyrir. Segja sumir að Súez-deilan marki endalok Breska heimsveldisins.

 

Simchoni_Dayan_Yafe_in_Sharm_El_Sheikh

Eineygði ísraelski hershöfðinginn Moshe Dayan ávarpar ísraelska hermenn í Sharm el-Sheikh, syðsta odda Sínaí-skaga árið 1956.

 

Nasser var mjög dáður um allan Arabaheim fyrir að boða arabíska þjóðernisstefnu, sem náði hámarki með stofnun ríkjasambands Egyptalands og Sýrlands undir heitinu Sameinaða arabíska lýðveldið (1958-1961) og fyrir að þjóðnýta á land, þ.e. úthluta landi til almennings sem áður hafði tilheyrt egypsku konungsfjölskyldunni.

 

Í júní árið 1967 hófst Sex-daga-stríðið með innrás Ísrael á Sínaí-skaga. Mannfall Egypta var gífurlegt og lauk því með tapi Egyptalands og yfirlýsingu Nassers um afsögn. Sir Alan Gordon Munro (f. 1935), breskur diplómati, segir svo frá upplifun sinni:

 

„Ég var í Líbýu þegar Sex-daga-stríðið geysaði. Hópi heimamanna, vopnaðir útvörpum sem færðu þeim fréttaflutning frá Egyptalandi, var heitt í hamsi gagnvart okkur „heimsvaldasinnunum“ sem studdu Ísrael. Þeir reyndu að gera áhlaup á sendiráðið og tókst næstum því að ná því á sitt vald. Tveimur dögum síðar eftir niðurlægjandi tap tilkynnti Nasser um afsögn sína. Meira að segja í Trípólí voru fjölmennar samkomur örvæntingafullra stuðningsmanna hans. Læknir við sjúkrahús borgarinnar sagði frá einstökum innlögnum stjarfra einstaklinga í eins konar dáleiðsluástandi. Svo sterk tilfinningaleg viðbrögð gat Nasser vakið, kannski sambærileg viðbrögðum Breta við fráfall Díönu prinsessu.”

 

Frásögn Sir Alan Gordon Munro (f. 1935), bresks diplómata.

 

En varaforseti Nassers neitaði að taka við embættinu og fjölmennar samkomur stuðningsmanna Nassers sannfærðu Nasser um að draga afsögn sína til baka. Nasser lést af völdum hjartaáfalls haustið 1970.

 

Sadat kúvendir utanríkisstefnu Egyptalands

 

Anwar Sadat (1918-1981) tók við af Nasser eftir að Nasser lést og var forseti Egyptalands í rúman áratug, frá 1970 til 1981. Sadat var umbótasinnaður,  hann leysti upp egypska stjórnmálaflokkinn Bandalag sósíalískra Araba sem hafði einkarétt á allri stjórnmálastarfsemi og kom upp fjölflokkakerfi. Bræðralagi múslima hafði verið haldið niðri í tíð Nassers en fengu nú að gefa út málgagn. Sadat styrkti tengslin við Vesturlönd um leið og hann bakkaði frá sósíalískri stefnu Nassers og nánu samstarfi við Sovétríkin.

 

Henry_Kissinger_with_Anwar_Sadat_cph.3b13868

Sadat ásamt Henry Kissinger árið 1975 sem var á þeim tíma þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjaforseta.

 

Árið 1973 réðust Arabar með Egypta í fararbroddi á Ísrael sem kallað er Yom Kippur-stríðið. Stríðið kom Ísraelum að óvörum og neyddi þá til þess að afsala sér Sínaí-skagann aftur í hendur Egypta árið 1975. Við það jukust vinsældir Sadats meðal Egypta. Vinsældir Sadats voru þó ekki eingöngu tilkomnar vegna endurheimt Sínaí-skaga. Sadat hafði einnig aukið hagsæld í Egyptalandi með því að nútímavæða egypska hagkerfið eftir vestrænni forskrift og opnað fyrir viðskipti við önnur lönd. En þá gerði hann nokkuð sem átti eftir að reynast örlagaríkt.

 

Í nóvember 1977 tók hann upp á því að heimsækja Ísrael, fyrstur leiðtoga Arabaríkja, og í heimsókninni fólst viðurkenning á tilvist Ísraelsríkis. Ekki nóg með það heldur tók hann líka til máls á Knesset-löggjafarþingi Ísraela og gaf til kynna vilja frekari samningaviðræðna. Tæpu ári seinna höfðu hann og Menachem Begin, forsætisráðherra Ísraels, skrifað undir friðarsamninga, Camp David-samningana sem kenndir eru við sumarbústað Bandaríkjaforseta, sem var milliliður í samningaviðræðunum.

 

Menachem Begin, forseti Ísraels, Jimmy Carter, forseti Bandaríkjanna og Anwar Sadat, forseti Egyptalands.

Menachem Begin, forsætisráðherra Ísraels, Jimmy Carter, forseti Bandaríkjanna og Anwar Sadat, forseti Egyptalands. Við undirritun Camp David-friðarsamningana árið 1978.

 

Í augum Araba hafði Sadat farið frá því að vera verðugur arftaki Nassers, leiðtogi Araba gagnvart umheiminum sem stóð keikur gagnvart yfirgangi nýlenduveldanna og stofnun Ísraelsríkis og yfir í að gerast undirlægja þeirra og um leið eyðileggja samheldni Araba gagnvart Ísraelum. Egyptalandi var vísað úr Arababandalaginu og átti ekki afturkvæmt í það aftur fyrr en 1989.

 

Assad tekinn af lífi

 

Í byrjun árs 1979 gerðist Íranska byltingin, sögulegur atburður sem átti eftir að hafa víðtæk áhrif á allan múslimaheiminn. Fjölmenn mótmæli almennings í Íran hröktu Mohammad Reza Shah Pahlavi Íranskeisara í útlegð og múslimaklerkurinn Ruhollah Khomeini tók völdin eftir að þjóðaratkvæðagreiðsla hafði kosið að stofna Íslamskt lýðveldi. Íranska byltingin markar þau sérstæðu tímamót í nútímasögu íslams, að Sádi Arabíu undanskildu, að bókstafstrúuð túlkun á Kóraninum varð grundvöllur að stjórnun ríkisins. Þaðanaf stóð íslam, og sjáldsmynd múslima, í meiri andstöðu við frjálslynd, vestræn gildi.

 

Þann 6. október 1981 var haldin hersýning til þess að minnast sigrana í Yom Kippur-stríðinu 1973. Stríðinu sem varð til þess að Egyptaland vann aftur á ný Sínai-skagann, sem Ísraelar höfðu tekið af þeim í Sex daga-stríðinu árið 1967. Byggður var stór pallur þar sem Sadat sat ásamt fylgdarliði í fullum herskrúða. Þúsundir hermanna marséruðu framhjá, skriðdrekar og brynvarðir bílar keyrðu framhjá og franskar Mirage-herflugvélar úr egypska flughernum flugu yfir. Án nokkurs fyrirvara stöðvaði einn hertrukkurinn og útúr honum þustu hermenn sem hófu skothríð á pallinn og vörpuðu handsprengjum. Atburðurinn náðist á myndskeið og sem má sjá hér að neðan:

 

Í frétt bandarísku fréttastöðvarinnar ABC News frá október 1981 var sýnd upptaka af launmorðinu en það var fyrst og fremst sett í samhengi við kalda stríðið.

 

Árásin entist í um tvær mínútur. Sadat dó fljótlega og hafði verið skotinn oft. Tíu aðrir gestir létu lífið. Leiðtogi hermannanna sem réðust að Sadat, Khalid Islambouli (1955-1982), var handtekinn og dæmdur til dauða. Hann sagði ástæðuna fyrir morðinu vera viðurkenning Sadats á Ísraelsríki. Múslimaklerkurinn alræmdi Omar Abdel-Rahman hafði gefið út fatwa, eða eins konar trúarlega tilskipun um að Sadat væri réttdræpur. Herforingjarnir (og frændurnir) Abbud al-Zumar og Tarek al-Zumar voru fangelsaðir fyrir að skipuleggja ódæðið. Abbud sagðist raunar í viðtali við Reuters árið 2011 í tilefni af Egypsku mótmælunum það ár sjá eftir því að hafa skipulagt launmorðið og afneitaði nú beitingu ofbeldis.

 

Á meðal þeirra 28 sem særðust voru varaforsetinn Hosni Mubarak, sem átti eftir að sitja sem fastast sem forseti Egyptalands í þrjátíu ár eða til ársins 2011, James Tully (1915-1992) varnarmálaráðherra Írlands og fjórir bandarískir hermálaráðgjafar.

 

Sadat myrtur

Sadat myrtur

 

Sadat myrtur

Sadat myrtur

 

James Tully (1915-1992), þáverandi varnarmálaráðherra Írlands

James Tully (1915-1992, annar frá hægri), þáverandi varnarmálaráðherra Írlands, var staddur á pallinum og fékk sprengjubrot í andlitið.

 

Heimildir