Árið 2011 stóð CNN Go fyrir könnun meðal lesenda sinna, um hvaða réttur væri sá gómsætasti í heimi. Fjölmargir kunnuglegir réttir rötuðu á topp 50 listann – svo sem ostborgarinn, kartöfluflögur eða steiktur kjúklingur. En af þessum 50 réttum sem skipuðu listann eru langflestir þeirra frá Asíu, þar á meðal allir réttirnir í efstu 10 sætunum. Lesendurnir sem kusu voru rúmlega 35 þúsund talsins.

 

Topp tíu listinn leit svona út:

 

10. Massaman karrý, frá Taílandi.

9. Peking önd, frá Kína.

8. Ramen núðlur, frá Japan.

7. Dim sum, frá Kína (Hong Kong).

6. Som tam, frá Taílandi.

5. Pad thai, frá Taílandi.

4. Tom yam goong, frá Taílandi.

3. Sushi, frá Japan.

2. Nasi goreng, frá Indónesíu.

1. Rendang, frá Indónesíu.

 

Þá er það staðfest, svo langt sem það nær. En hvað er Rendang, og hvernig er hægt að verða sér úti um þennan spennandi rétt?

 

Rendang rekur uppruna sinn til Minangkabau-ættflokksins á Vestur-Súmötru í Indónesíu. Rétturinn er yfirleitt framreiddur þegar gesti ber að garði, eða þegar meðlimir ættflokksins ætla að gera sér glaðan dag. Þetta er því sannkallaður hátíðarréttur. Talsverðan tíma tekur að útbúa réttinn, og segja því kunnugir að mikilvægasta hráefnið í réttinn sé þolinmæði þess sem hann eldar. En, að því sögðu, þá geta lesendur Mahlzeit spreytt sig á framreiðslu Rendang með eftirfarandi aðferð:

 

Notið stóra pönnu, Wok-pönnur eru til að mynda ákjósanlegar. Einnig þarf að beita mortéli, og ekki er verra ef það er einnig í stærra lagi.

 

Fyrir um 4-6 þarf þessi hráefni:

 

1 kg nauta- eða lambakjöt (eða geitakjöt ef því verður viðkomið)

1 dós kókosmjólk (400 ml)

 

Í mortélið:

3-4 ferska chili-pipra

Engiferrót, um 5-6 cm

Galangal-rót

2 túrmeriklauf

sítrónugrasstönglar, alls um 10 cm

4-6 hvítlauksrif

3-4 skallottulaukar

2-3 msk pálmasykur

 

Þurrkrydd:

1 msk malað cummin

1 msk möluð kóríanderfræ

1 msk möluð fennelfræ

1 tsk malaður svartur pipar

salt eftir smekk

 

Hráefnin sem á að setja í mortélið er gott að skera í smærri bita áður en byrjað er að hamast á þeim. Gott er að bæta þeim einu eftir öðru í mortélið þannig að ferlið verði auðveldara. Fyrir letingja er hægt að henda öllu í matvinnsluvél með hálfum til heilum bolla af vatni. Þegar öll hráefnin eru orðin að gullnu kremi er þessum erfiða hluta lokið.

 

Þá er að fituhreinsa kjötið og skera það í stóra bita, um það bil hnefastærð (ef miðað er við skrifstofumann). Þegar kjötið er klárt má byrja að hita pönnuna. Er þá gullna kreminu hellt út í ásamt helmingnum af kókosmjólkinni. Þegar blandan er byrjuð að hitna er þurrkryddunum bætt út í og hrært vel.

Rendang, rétt áður en kjötbitarnir fara út í.

 

 

Þegar kryddin hafa blandast kreminu er kjötbitunum skellt út í. Á þessum tímapunkti má vera mikill hiti, uns litur byrjar að myndast á kjötinu. Þegar ysta lag kjötbitanna tekur á sig lit má hella restinni af kókosmjólkinni út í og blanda vel. Þá er að lækka hitann og fylgjast vel með. Hræra þarf reglulega í réttinum.

Rendang, eftir að kjötbitarnir eru komnir út í. Þá er að lækka hitann.

Hann á að malla í pönnunni í 4 tíma á lágum hita, eða allt þangað til vökvinn sem samanstóð af kókosmjólkinni, grænmetinu og kryddunum er í raun orðinn að brúnni límkenndri leðju. Kryddin hafa þá náð að smjúga inn í kjötið og tíminn hefur hjálpað til við að gera kjötið svo meyrt að það má borða það með skeið.

Rendang, alveg að verða tilbúið.

 

Og þar hafið þið það! Sem meðlæti eru oftast hrísgrjón, gufusoðin Cassava-lauf og chili-mauk sem gengur undir nafninu sembal.

 

Gómsætasti réttur í heimi? Nú er um að gera að prófa, fyrr er maður ekki dómbær.