Á síðari hluta 19. aldar var neysla á ópíum og ópíumskyldum efnum nokkuð útbreidd meðal efri stétta í Vestur-Evrópu. Voru þau jafnan markaðssett sem verkjalyf, eða jafnvel til að róa tannverki barna þegar þau voru að fá fullorðinstennur. Um svipað leyti fór annað efni að njóta almennrar viðurkenningar, fyrst sem íblöndunarefni í heilsudrykki.

Vin Mariani-auglýsing í art nouveau-stíl, teiknuð af franska listamanninum Jules Chéret, sem er jafnan kallaður „faðir auglýsingaplakatsins.“

Kókaín naut einnig talsverðra vinsælda, þá sérstaklega eftir að því var komið fyrir í drykk sem átti eftir að slá í gegn um allan heim. Það var árið 1863 sem Parísarbúinn Angelo Mariani (1838-1914) tók upp á því að blanda perúsku kókaínþykkni við rauðvín frá Bordeaux og selja undir vörumerkinu Vin Mariani. Drykkurinn var markaðssettur sem heilsudrykkur sem væri einkar árangursríkur gegn slappleika og hvers kyns sleni. Þótti jafnvel tilvalið að neyta hans þegar stigið var upp úr flensu.

Vin Mariani sló rækilega í gegn og þá sérstaklega meðal efri stétta í Evrópu. Mariani-vín varð til að mynda uppáhaldsdrykkur Viktoríu Englandsdrottningar, bandaríska hershöfðingans og síðar forsetans Ulysses S. Grant og frönsku leikkonunnar Söruh Bernhardt. Bandaríski uppfinningamaðurinn Thomas Edison sagði Vin Mariani afar hjálplegt þegar hann þurfti að vaka lengur á kvöldin.

Leó páfi XIII kom fram á auglýsingum til að leggja blessun sína yfir kókaínblandaða rauðvínið, Vin Mariani.

Leó páfi XIII lét ekki sitt eftir liggja, og gerði sér lítið fyrir og varð að opinberum talsmanni drykksins en á flöskum drykksins mátti einmitt sjá gullverðlaun Páfagarðs ásamt undirskrift heilagleikans.

Í Bandaríkjunum var gerð tilraun til að líkja eftir drykknum þótt þar væri ekki Bordeaux-vín að finna í stórum stíl. Lyfjafræðingurinn John Pemberton gerði þó sitt besta við að finna vín við hæfi og náði útgáfa hans af Vin Mariani nokkrum vinsældum eða allt uns heimaríki hans, Georgía, tók upp á því að setja á áfengisbann árið 1886. Þá voru góð ráð dýr.

John Pemberton bjó til Coca Wine, hans eigin útgáfu af Vin Mariani.

Pemberton neyddist til að finna aðra lausn til að selja fólki kókaín í flösku og kom sér loks niður á uppskrift af sýrópi, blandað kókaíni, sem átti síðan að blanda við kolsýrt vatn. Drykkurinn náði talsverðum vinsældum, svo vægt sé til orða tekið. Sá drykkur er vitaskuld Coca Cola.

Upphaflegi drykkur Mariani dó svo gott sem út eftir andlát höfundarins árið 1914. Hann lét enga afkomendur sína fá uppskriftina að drykknum og því fór sem fór.