Það eru fáir staðir ólíkari gylltum sandströndum Kaliforníu heldur en Grænland.  Þó gat landið af sér hina frambærilegu brimbretta-rokksveit The Eskimo’s [sic], en hér að ofan má sjá mynd framan af annarri smáskífu þeirra.  Hljómsveitin var stofnuð árið 1964 í Nuuk (eða Godthåb eins og hún þá hét) og starfaði fram til 1968.  Á þessu tímabili sendi hún frá sér tvær ónefndnar smáskífur, sem báðar voru undir miklum áhrifum frá bandarísku brimbrettarokki.

 

Fyrri smáskífa Eskimóana kom út í Nuuk 1966. Framhliðin sýnir þessa ungu menn leika á hljóðfæri sín í roða grænlensku kvöldsólarinnar.

 

 

Ungu grænlensku brimbrettarokkararnir.

Eskimóarnir voru stofnaðir af fjórum nemendum í Realskolen í Godthåb í byrjun ársins 1964, en þeir voru:

 

Barsilaj ,,Morpak“ Danielsen (söngur, gítar)

Jakob ,,Arngo“ Petersen (gítar)

Johannes ,,Orre“ Jonassen (bassi)

Peter 0. Petersen (trommur)

 

Á árunum 1964-1966 tók hljómsveitin þátt í fjölmörgum tónlistarkeppnum, og varð brátt ein fremsta rokksveit Grænlands.  Á þessum tíma starfaði hún einnig með öðrum grænlenskum rokksveitum á borð við The Zeros, The Snobs og The Love.   Í lok ársins 1964 flutti gítarleikarinn Arngo til Danmerkur og í hans stað kom Jonas Berthelsen.  Orre var stuttu síðar skipt út fyrir bróðir Jonasar, Jonathan Berthelsen.  Um hríð léku kumpánarnir fjórum sinnum í viku á barnum Alegamut í Nuuk og fóru í tvær tónleikaferðir um Grænland 1964-1965 þar sem þeir heimsóttu meðal annars Maniitsoq, Kangerhussuag og Sissimiut.

 

Eskimóarnir leystust upp í apríl 1968 — einungis trommuleikari hljómsveitarinnar, Peter Petersen, hélt áfram í tónlistinni.  Brimbrettarokkið tilheyrir þó fortíðinni, því þessa dagana flytur hann frumsamda þjóðtónlist við grænlenska texta, og hefur m.a. haldið tónleika á Íslandi.

 

Hér að neðan má heyra tvö lög Eskimóanna: ,,Jacob“ og ,,Mr. Twist (Hallo Mr. Twist)“. Hið fyrra er án söngs, en hið síðarnefnda er sungið á dönsku með þykkum grænlenskum hreim.  Lögin eru bæði frá 1966.

 

,,Jacob“

Vídjó

,,Mr. Twist (Hallo Mr. Twist)“

Vídjó

 

Nánari upplýsingar um Eskimóana er hægt að nálgast hér (á dönsku).  Lemúrinn þakkar Dr. Gunna fyrir ábendinguna.