Barna- og unglingablaðið Vorið birti þessa sögu í mars árið 1970. Afrískur innflytjandi í Svíþjóð segir frá starandi fólki og forvitnum börnum.

 

SJÁÐU NEGRANN

 

Hvernig er að vera negri í ókunnu landi, þar sem fólk starir á mann á götunni og ræðir um mann?

 

Georg frá Kenyu í Afríku hefur átt heima í Svíþjóð í þrjú ár, og í þessari grein svarar hann þessari spurningu.

 

Og hann vill ekki láta kalla sig negra.

 

— Það var einn mánudagsmorgun, að ég var á leið til neðanjarðarlestarinnar. Ég ætlaði á járnbrautarstöðina og með lestinni til Smálanda til að heilsa upp á fjölskyldu stúlkunnar minnar. Á eftir mér gekk kona með barn.

 

— Mamma, sjáðu negrann!

— Uss, svaraði móðirin, — svona á maður ekki að segja.

— Er hann ekki negri?

Greinin í Vorinu.

— Jú, hann er það. En við tölum ekki um það.

— Mamma, hefur hann málað sig?

— Málað sig. Nei, hann er bara sólbrenndur.

Ég hlustaði á samtalið, en reyndi að láta ekki bera á því, sem þau sögðu.

 

Lestin kom og móðirin með barnið settist í sama klefa og ég.

 

Sennilega af misgáningi, því að þegar hún sá mig, reyndi hún að snúa barninu frá mér. En strákurinn sá mig fljótt.

 

— Mamma, eru allir negrar sólbrenndir?

— Já, það eru þeir. Nú skaltu vera hljóður.

 

Eitt andartak var drengurinn hljóður.

 

— Mamma er hann sólbrenndur á öllum líkamanum?

— Já, hann er það.

— En sjáðu hendurnar á honum. Þær eru ekki sólbrenndar.

 

Drengurinn færði sig nær mér.

 

— Ertu negri? Mamma, hann svarar ekki, þegar ég talaði við hann.

Bræður Georgs.

— Hann kann ekki sænsku, svaraði mamman.

— Kann negrinn ekki sænsku?

— Nei.

 

— En hann sem er svo stór, hvers vegna kann hann ekki sænsku?

— Af því að hann er ekki Svíi.

Þegar ég kom til Smálanda, tóku þau á móti mér Eva vinstúlka mín og Kalli bróðir hennar, sem er tíu ára.

 

Þegar ég hafði heilsað Kalla, horfði hann á hendurnar á sér, eins og hann byggist við að þær hefðu orðið svartar.

 

— Hvaðan kemur hann ? spurði hann stóru systur sína.

— Hann kemur frá Stokkhólmi.

— Eru negrar í Stokkhólmi. Ég hélt að þeir væru í Afríku.

 

Ég greip inn í og sagði:

 

— Ég er ekki negri. Eg er Afríkubúi, af því að ég er frá Afríku.

— Og ég er sænskur, af því að ég á heima í Svíþjóð, sagði Kalli.

 

Kalli vildi vita meira um mig og þegar við komum heim til hans spurði hann mömmu sína:

 

— Hann er fæddur svona.

 

— Nú, ég hélt að það væri af því, að hann hefði nýlega þvegið sér um hendurnar.

— Ég held, að hann sé fæddur svona, sagði mamma hans aftur.

— Mamma, hann sagði við mig, að hann væri Afríkubúi en ekki negri. Hvernig lítur þá negri út?

— Það er enginn munur á negra og Afríkubúa. Og sumir negrar búa í Ameríku.

— Þetta er misskilningur, skaut ég inn í samtalið. Orðið negri var notað fyrir fleiri hundruð árum meðal hvítra þrælasala. Þeir kölluðu þrælana negra. Þess vegna fellur okkur illa að láta kalla okkur negra, og sama er að segja um svertingja í Ameríku.

 

Við miðdegisverðinn fórum við að ræða um mat í ýmsum löndum.

 

— Ég hef heyrt í skólanum, að þið borðið mest ný epli og banana, sagði Kalli við mig.

— Við borðum einnig venjulegan mat, fisk, kjöt og kartöflur, en við höfum ekki eins mikinn mat og fólk hefur hér.

— Hvers vegna ekki?

— Af því að fólkið er fátækt. En það er ekki verra fyrir það.

— Hvers vegna er það fátækt?

 

— Af því að það er svo mikið sólskin og stundum rignir ekki tímunum saman. Þá verður jörðin svo þurr, að ekkert sprettur. Kornið vex ekki og engin mjólk er í kúnum. Og þegar rignir kemur fyrir, að það koma mikil flóð sem eyðileggja jarðveginn, sem sáð hefur verið í.

— Hvers vegna hefur þú svona þykkt hár, sagði Kalli nokkru síðar.

— Það er ekki eins og á okkur.

— Nei, ég hef svart, grófgert og þykkt hár, og það vex ekki eins mikið og á þér. Og ég þarf að greiða það með sérstakri greiðu.

— Hvernig er hún?

— Af þeim finnast ýmsar tegundir, og fer það eftir því hve hárið er mikið.

— En litlu börnin? Greiða þau sér líka?

 

— Ég á þrjá bræður heima í Afríku. Mitoko er tíu ára, og stundum köllum við hann Matoka, sem þýðir banani, af því að hann borðaði svo mikið af banönum, þegar hann var lítill. Owino er sjö ára, og sá minnsti heitir Oyola, sem þýðir sá feiti. Hann var nefnilega svo feitur og þungur, þegar hann var lítill, að við gátum varla borið hann. Hann hefur sérstaka greiðu, en venjulega þurfa lítil börn ekki að greiða sér. Nýfædd börn í Afríku hafa mjög þunnt hár, mjúkt eins og hárið á þér. Veiztu það, að börn í Afríku eru eins hvít og þú? En eftir nokkrar vikur fer skinnið að dökkna og hárið breytist einnig.

— Er það vegna þess, að það er miklu meira sólskin í Afríku en hér?

— Nei, þó að ég væri fæddur í Svíþjóð, mundi ég líta alveg eins út og ég geri.

 
E. Sig. þýddi.