Þessi mynd birtist í hinum bandaríska fjölskylduatlas Cram’s árið 1884 og sýnir hæstu byggingar heims á þeim tíma. Smellið á myndina til að stækka hana.

 

Árið 1884 var Washington-minnismerkið í höfuðborg Bandaríkjanna hæsta mannvirki heims. Það er tæplega 170 metra há broddsúla (e. obelisk). Sú sem kom næst á þessum tíma var dómkirkjan í Köln í Þýskalandi, en turnar hennar eru 157 metra háir.

 

Athyglisvert er að Keopspíramídinn í Egyptalandi, reistur á tuttugu ára tímabili fyrir rúmum 4000 árum síðan, var fjórða hæsta mannvirki heims árið 1884. Píramídinn trónaði á toppnum í yfir 3.800 ár, eða þangað til Lincolndómkirkjan var reist á Englandi árið 1311. Hann er 146 metra hár.

 

Árið 1887, aðeins þremur árum eftir að meðfylgjandi mynd birtist, var Eiffelturninn reistur í París en hann var langhæsta mannvirki heims, 324 metrar.

 

Menn hafa byggt ákaflega mörg háhýsi síðan þessi listi birtist árið 1884 og sífellt slegið ný met. Í dag er Burj Khalifa turninn í Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum hæsta mannvirki heims en hann er 828 metra hár.