Mahlzeit hefur ekkert á móti Nigellu Lawson, enda er það ekki henni að kenna að faðir hennar hafi verið fjármálaráðherra í ríkisstjórn Margaret Thatcher. Vonandi verður Nigella bara á skjánum um ókomin ár.

 

Því ber hins vegar að fagna þegar nýir og ferskir þættir um matreiðslu líta dagsins ljós, ekki síst þegar þáttastjórnendurnir hafa unnið fyrir þeirri athygli sem þeir óneitanlega hljóta þegar í sjónvarp er komið. Rachel Khoo á svo sannarlega skilið allt það hrós sem hún hefur fengið að undanförnu, og hér verður því slegið föstu að þetta er aðeins byrjunin á vegferð hennar upp á stjörnuhimininn.

 

Rachel Khoo er 32 ára gömul. Hún fæddist í Lundúnum og gekk í einn virtasta listaháskóla í heimi, Central Saint Martins í heimaborg sinni. Eftir að hafa útskrifast með BA-gráðu í hönnun fékk hún starf í tískubransanum þar sem hún tók að sér ýmis almannatengslaverkefni og markaðs-og kynningarstörf. En Khoo var ekki ánægð í starfi, ástríðan var ekki til staðar. Ákvað hún að venda kvæði sínu í kross, fluttist til Parísar og gerðist au-pair.

Nú þegar er búið að þýða bækur Khoo á sjö tungumál. Hér má sjá hollenska útgáfu Chez Rachel.

 

Khoo lét ekki þar við sitja. Skömmu síðar hafði hún skráð sig í frönskunám við Sorbonne-háskólann og lét svo draum sinn rætast með því að skrá sig til náms við Le Cordon Bleu – þar sem hún sérhæfði sig í bakkelsis-og eftirréttagerð (pâtisserie). Khoo var fljót að ná tökum á frönskunni og eftir að námi hennar við Le Cordon Bleu var lokið réði hún sig til vinnu í versluninni La Cocotte – bókaverslun sem sérhæfir sig í matreiðslubókum.

 

Innan tíðar var Khoo farin að standa fyrir matreiðslunámskeiðum í versluninni sjálfri. Hjólin voru farin að snúast og ekki leið á löngu þangað til henni var boðið að skrifa matreiðslubók, og það á frönsku! Gaf hún út tvær bækur á frönsku áður en risaútgáfan Penguin sannfærði hana um að gefa út sína fyrstu ensku bók. Kom hún út nú í marsmánuði síðastliðnum og ber titilinn The Little Paris Kitchen. En það voru ekki aðeins bókaútgefendur sem komu auga á hæfileika Khoo, sem betur fer, þann 19. mars hófu göngu sína sjónvarpsþættirnir Little Paris Kitchen á BBC. Þættirnir hafa hlotið einróma lof gagnrýnenda.

 

Í þáttunum, og bókinni reyndar líka, fá áhorfendur að skyggnast inn í líf Khoo og það nokkuð bókstaflega. Þættirnir eru teknir upp í hennar eigin íbúð í París, þar sem hún notast við pínulítið eldhús sitt af mikilli kostgæfni með skipulagsgáfu að vopni (öll íbúðin er aðeins 21 fm að stærð). Khoo hafði nefnilega rekið veitingastað í þessari sömu íbúð, til að drýgja tekjurnar á meðan hún vann í La Cocotte. Tók hún þá við einu pari á kvöldi, en þá þurfti bara að panta með góðum fyrirvara. Khoo eldaði því næst fjögurra rétta máltíð og þjónaði gestum sínum til borðs og reyndi að ganga úr skugga um að kvöldið yrði ógleymanlegt fyrir gesti sína. Því miður fyrir þá sem eru ferðinni í París þá hefur Khoo látið af þessari iðju, enda hafa verkefnin hrannast upp í kjölfar mikilla og skjótra vinsælda. Þessar vikurnar ferðast hún heimshorna á milli, áritar bækur, stendur fyrir viðburðum og heldur fyrirlestra um matargerð.

 

Khoo nálgast matargerð á aðdáunarverðan hátt. Henni er mikið í mun um að hráefnið sé alltaf fyrsta flokks og eins ferskt og kostur er. Hún sýnir hinu klassíska franska eldhúsi mikla virðingu, þrátt fyrir að hún prófi sig óneitanlega áfram með eigin hugmyndir. Þær hugmyndir má að einhverju leyti rekja til föður hennar, en hann er ættaður frá Malasíu og Kína. Uppáhald Khoo er eftir sem áður eins franskt og hugsast getur – gott brauð og ostar. Endalaust af ostum!

 

Að lokum er ekki hægt að slaufa þessa umfjöllun án þess að minnast á hvað Khoo er einstaklega töff. Hún klæðir sig óaðfinnanlega og þá oftar en ekki í „vintage“ kjóla frá sjöunda áratugnum. Oft er engu líkara en að hún sé nýkomin af tónleikum með Jacques Dutronc í Olympia árið 1966. Hún á því fjölmarga aðdáendur sem fá ekki nóg af tískuvitund hennar, sem er svo sem ekkert skrýtið. Og ekki má gleyma því að hún er með menntun í hönnun, sem nýtist henni greinilega vel þegar hún stendur fyrir sérviðburðum eins og þessum, en þarna má sjá þegar hún tók að sér að halda Mad Men matarboð – þar sem hún bauð meðal annars upp á ætilegar Lucky Strike sígarettur. Takið líka eftir hvernig brotið er upp á servíetturnar. Frábært!

 

Hér má síðan sjá brot úr þáttaröðinni Little Paris Kitchen.

 

Vídjó