Bob Dylan, George Harrison …og Olivia Newton-John. Síðasta nafnið passar kannski ekki beint í hópinn. Enda erfitt fyrir nánast hvern sem er að vera stillt upp með þessum hertogum rokksins. En hvað á þetta fólk sameiginlegt? Jú, öll sungu If Not For You, undurfallegt lag eftir Dylan.

 

Bangladesh er eitt fjölmennasta land í heimi, en íbúar þess eru um 150 milljónir talsins. Í byrjun áttunda áratugarins gekk landið í gegnum miklar hörmungar þegar fellibylur kostaði rúma hálfa milljón lífið árið 1970. Og mikið manntjón varð líka í blóðugu sjálfstæðisstríði landsins árið 1971.

 

Þannig var að þegar Indlandi var skipt árið 1947, þegar nýlendan breska hlaut sjálfstæði, varð Bangladesh hluti af Pakistan, þrátt fyrir að miklar vegalengdir séu á milli landanna. Bangladesh var löngum kölluð Austur-Pakistan. En árið 1971 lýsti Bangladesh yfir sjálfstæði og féllu margir í níu mánaða löngu stríði við pakistanska herinn.

 

Landið varð sjálfstætt hinn 16. desember 1971 þegar pakistanskar hersveitir gáfust upp í Dhaka, höfuðborg Bangladesh, en jafnmikill fjöldi stríðsfanga hafði ekki verið handsamaður frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar.

 

Bítillinn George Harrison fylgdist vel með þessum atburðum og ákvað að halda söfnunartónleika til styrktar bágstöddum í Bangladesh.

 

Tónleikarnir fóru fram í Madison Square Garden í New York í ágúst 1971 og fram komu „George Harrison og vinir hans“, eins og það var orðað.

 

Vinirnir voru ekki af verri endanum: Ravi Shankar, Bob Dylan, Ringo Starr, Eric Clapton, Leon Russell og margir fleiri. John Lennon ætlaði að vera með en hætti við eftir rifrildi við Yoko Ono en Paul McCartney vildi ekki mæta.

 

concert_for_bangladesh_xlg

 

Haldnir voru tvennir tónleikar sama daginn. Dagskráin þótti takast frábærlega og miklir fjármunir söfnuðust fyrir Bangladesh-búa, sérstaklega eftir að bæði kvikmynd og hljómplata um tónleikana höfðu gengið vel. Menn drógu dýrmætan lærdóm af þessum tónleikum og þeir voru nokkurs konar forleikur að hinum gríðarstóru Live Aid-styrktartónleikum sem haldnir voru árið 1985.

 

Harrison og Dylan tóku nokkur lög saman á tónleikunum. En ekki lagið If Not For You. Það var sérstakt lag fyrir þá félaga enda hafði Dylan samið það og gefið út á plötunni New Morning árið 1970. Dylan var svo góður að lána George lagið og er það að finna á plötunni All Things Must Pass, sem út kom þetta sama ár – einungis mánuði á eftir plötu Dylans.

 

Félagarnir höfðu þó greinilega í hyggju að leika If Not For You í Madison Square Garden því þeir æfðu það. En hættu við. Sem betur fer var æfingin kvikmynduð:

 

Vídjó

 

Ástralska söngkonan Olivia Newton-John skaust upp á stjörnuhiminninn árið 1971. Hver var hennar fyrsti smellur? Jú, auðvitað þetta sama lag Dylans, If Not For You. Hér sjáum við hana flytja lagið:

 

Vídjó

 

 

If Not For You eftir Bob Dylan

If not for you, babe, I couldn’t find the door
Couldn’t even see the floor
I’d be sad and blue if not for you.

 

If not for you, baby, I’d lay awake all night
Wait for the morning light
To shine in through
But it will not be new if not for you.

 

If not for you, my sky would fall, rain would gather too
Without your love I’d be nowhere at all
I’d be lost if not for you
And you know it’s true.

 

If not for you, my sky would fall, rain would gather too
Without your love I’d be nowhere at all
Oh what would I do if not for you ?

 

If not for you, winter would have no spring
I couldn’t hear the robins sing
I just wouldn’t have a clue
Anyway it wouldn’t ring true if not for you
If not for you, if not for you.

 

Þeir sem eru með Spotify geta svo heyrt höfundinn sjálfan, Bob Dylan, syngja þetta frábæra lag. If Not For You af New Morning:

 

 

Önnur upptaka með sama lagi sem kom út á nýjustu safnplötu Dylans, Another Self Portrait, sem inniheldur ýmsar gamlar og áður óbirtar upptökur:

 

 

 

Lítill maður með úfið hár

 

Vikan

George, Bob og Leon Russell á Bangladesh-tónleikunum.

 

Vikan fjallaði um Bangladesh tónleikana árið 1972 (bárust fréttir svona seint til Íslands þá?). Hér er dúett George og Bob lýst:

 

Eitt andartak var myrkur. Leon Russell birtist skyndilega og setti bassa í samband, George setti rafmagnsgítar um hálsinn á sér og setti stálhettu á fingurinn og Ringo birtist með tambúrínu í hendinni.

 

Sviðið var enn dimmt.

 

Lítill maður með úfið hár sást ógreinilega hægra megin á sviðinu þegar George gekk að hljóðnemanum og sagði: „Mig langar að kynna vin okkar allra, herra Bob Dylan“.

 

Þar stóð hann, í snjáðum vinnujakka, með Martin-gítar um hálsinn og gamla munnhörpustatívið líka. Hann stóð hreyfingarlaus og brosti lítillega á meðan fólkið klappaði og klappaði, sleikti á sér varirnar, byrjaði að spila, gekk að hljóðnemanum og byrjaði að syngja: „Oh, where have you been, my blue-eyed son?“, fyrstu línurnar úr laginu „A Hard Rain’s A-Gonna Fall“.

 

Aldrei hefur Dylan hljómað betur né haft betri stjórn á rödd sinni. Hann stóð dálítið hjólbeinóttur, hallaði sér fram á við meðan hann söng, en aftur á bak eftir hverja línu.

 

Munnhörpuna spilaði hann ekki á fyrr en í miðju næsta lagi, „It Takes a Lot to Laugh, It Takes a Train to Cry“. Munnhörpuleikur hans var gamalþekktur, í þann veginn að springa af æsingi og dapurleika.

 

George lék létt undir á „bottleneck“ og allt í allt hefur þetta sennilega verið bezta útgáfa af góðu lagi sem nokkru sinn hefur verið flutt.

 

Án þess að segja orð byrjaði Dylan á „Blowin’ in the Wind“. Áheyrendur gerðu sér grein fyrir stefnu hans þetta kvöld: Að flytja nokkur af sínum beztu lögum, frá þeim tíma er hann var „reiður ungur maður“.

 

En hvaða ár var þetta annars? Skeggið var stutt og hárið sömuleiðis en samt sem áður úfið, leit hann út eins og að hann hefði stigið út úr myndinni framan á „The Freewheelin’ Bob Dylan“.

 

Röddin var full og jöfn og líktist meir þeim tíma er hann sendi frá sér „The Times They Are A-Changin“ en „Nashville Skyline“. í búningsklefunum fyrr um kvöldið hafði hann raulað nokkur ný lög fyrir George, en á hljómleikunum sjálfum var hann ekki með neitt nýrra en frá árinu 1966, svo fólk fékk enn eina Dylan-ráðgátuna til að glíma við.

 

Fagnaðarlætin voru óskapleg og Dylan muldraði „Takk fyrir,“ einu orðin sem hann sagði á báðum hljómleikunum.