Splunkunýjar rannsóknir, sem gerðar voru ekki síst á ískjörnum úr íslenskum jöklum, hafa nú sýnt fram á að fjögur stór eldgos sem urðu í heiminum á árabilinu 1250-1300 ollu „litlu ísöldinni“ – miklu kuldaskeiði sem gekk yfir heiminn á árunum 1300-1600.

 

Gosefni sem bárust upp í andrúmsloftið ollu því að sólarljós komst ekki til jarðar og hiti á yfirborðinu minnkaði.

Litla ísöldin á Íslandi

 

Fyrstu þrír vetur sautjándu aldar á Íslandi voru nefndir Lurkur, Píningur og Eymdarár. Í Skarðsannál var þetta skrifað:

 

„1603. Mannfall af fátæku fólki um alt Ísland af harðindum og sulti.

 

1604. Gekk blóðsóttin. Féllu yfirferðarmenn. Hlutavetur syðra. Fiskleysi fyrir norðan. Kom ís. Rak hvali. Selatekja mikil. Þetta kallað eymdarár. með því, þriðja hörkuárinu, sem mest undir bjó (1604), féllu í Hegranesþingi átta hundruð manna. Það var bæði yfirferðarfólk og fátækir barnamenn, sem inni lágu. Svo hafa menn reiknað, að um alt Ísland hafi á þessum 3 árum fallið níu þúsund manna.“

 

Rannsóknir íslenskra og kanadískra vísindamanna hafa leitt þetta í ljós, en sagt er frá þeim í nýjasta hefti Geophysical Research Letters. Gosefni við Hvítárvatn hafa til dæmis komið að góðum notum.  BBC segir frá rannsóknunum í dag.

 
 

Ekki er vitað hvar þessi fjögur miklu eldgos urðu, en vísindamenn hyggjast leita þau uppi. Ljóst þykir hins vegar að þau hafi orðið á suðurhveli jarðar. Hins vegar er vitað að gríðarmikið eldgos sem varð í Kuwae-eldstöðinni í sjónum við Vanúatú-eyjar í Suður-Kyrrahafi árið 1452-53 hafi framlengt „litlu ísöldina“ verulega.

 

Litla ísöldin olli því til dæmis að lífsskilyrði á Íslandi versnuðu mjög mikið og nánast óbyggilegt varð á landinu þegar verst lét á sautjándu öld. Og málverkið hér fyrir ofan sýnir ísilagt Thames-fljót í London árið 1677.

 

Hvítárvatn og Grænlandsjökull undir smásjánni

 

Á vef Raunvísindastofnunar Háskólans er rætt um rannsóknina:

 

Ýmsar kenningar hafa verið uppi um orsakir kólnunar á Litlu ísöldinni. Brennisteinssambönd í gosmekki stórra sprengigosa, sem safnast í gufuhvolf jarðar, geta valdið tímabundinni lækkun á inngeislun sólar en Litla ísöldin náði yfir mun lengra tímabil, frá 1275 fram undir aldamótin 1900. Því hafa flestir hallast að því að meginorsök langvarandi kuldaskeiðs Litlu ísaldarinnar hafi stafað frá lækkandi útgeislun sólar (lítilli sólblettavirkni). Litla ísöldin hófst hins vegar meira en þremur öldum á undan sólblettalægðinni 1645-1715, sem kennd er við Maunder.

 

Með því að bera saman kolefnisaldursgreiningar á gróðri undan bráðnandi jökulhettu Baffinlands, við gögn úr hvarflögum setkjarna úr Hvítárvatni og ískjörnum úr Grænlandsjökli hafa Gifford Miller og Áslaug Geirsdóttir ásamt samstarfsmönnum unnið loftlagslíkön sem sýna nákvæma tímasetningu kólnunar á Litlu ísöldinni og hugsanlegar ástæður hennar. Endurtekin eldgos á stuttum tíma urðu þess valdandi að hafísmyndun óx í Norðurhöfum. Hafísmyndunin viðhélt síðan kuldatímabilinu löngu eftir að áhrif eldsumbrotanna höfðu fjarað út, með auknu endurvarpi sólgeislunar (Albedo) og kólnun andrúmslofts.