Nýlega bárust okkur þær fréttir að neyðarlög hefðu verið sett í borginni Detroit í Bandaríkjunum til að bjarga henni frá gjaldþroti. Nýr fjármálastjóri borgarinnar, Kevyn Orr, hefur svo víðtækar heimildir í sínu embætti að menn gengu svo langt að segja að lýðræði hafi verið afnumið í borginni. Uppfært 19. júlí: Detroit er gjaldþrota.

 

Detroit er borg með merkilega sögu en í dag má hún muna sinn fífil fegurri. Í gegnum tíðina hefur hún verið þekkt undir mörgum nöfnum sem gefa okkur vísbendingu um glæsta fortíð hennar. Nöfn eins og París Miðvesturríkjanna, Bílahöfuðborg Bandaríkjanna, Motor City og svo auðvitað Motown, sem einnig er nafn á plötufyrirtæki og mjög einkennandi sándi sem kennt var við það.

 

Byggingin sem við sjáum hér að ofan er Michigan Central Station, gríðarstór lestarstöð sem staðið hefur auð áratugum saman.

 

Vídjó

Motown-sándið.

 

Framan af tuttugustu öldinni var gríðarlegur uppgangur í Detroit og borgin stækkaði hratt. Þar setti Henry Ford á fót sína fyrstu bílaverksmiðju árið 1903 og þar með var tónninn sleginn fyrir næstu áratugi. En einhversstaðar á leiðinni fór eitthvað úrskeiðis. Uppgangur borgarinnar átti allt sitt undir ódýrri olíu, sem framan af draup af hverju strái. Miklar breytingar urðu á skömmum tíma þegar efri millistéttin hvarf í úthverfin en fátæka fólkið varð eftir í borginni.

 

En ameríski úthverfadraumurinn breyttist á endanum í martröð og í dag er svo komið að íbúafjöldi borgarinnar hefur um það bil helmingast, úr 2 milljónum í 1. Það segir sig því nánast sjálft að margar byggingar í borginni standa auðar.

 

Hér í iðnvæddasta ríki heims á 21. öldinni verða ekki bara til litlir draugabæir heldur líka heil draugaborg. Borg þar sem skólum er lokað í stórum stíl, ólæsi er mikil og glæpatíðni er svo há að lögreglan er hætt að svara útköllum.

 

Þessi þróun er raun ótrúlegri en orð fá lýst, en nokkrir heimildamyndagerðamenn gerðu þó heiðarlega tilraun til þess í mynd sem þeir gerðu árið 2010 og nefnist Requiem For Detroit. Horfið á hana hér:

 

 

Lesið meira: From Motown to Ghost town: How the once mighty Detroit is heading down a long, slow road to ruin