Argentavis magnificens eða hinn mikli argentínski fugl var gríðarstór fuglategund sem lifði fyrir um sex milljónum ára síðan á sléttum Argentínu og við rætur Andesfjallanna. Þetta er stærsta tegund fljúgandi fugls sem fundist hefur í heiminum.

 

Vænghaf fuglsins var um sjö metrar, hæð 170-200 cm og þyngd 70 kíló! Með öðrum orðum var argentavis ekki ósvipaður í stærð og lítil flugvél. Og þegar hann flaug er talið að hann hafi náð allt að 240 km hraða á klukkustund. Talsverður fjöldi steingervinga frá tegundinni hefur fundist í Argentínu.

 

Mesta vænghaf núlifandi fuglategundar má finna hjá hrimtrosa (l. diomedea exulans, e. Wandering Albatross) en það er um 3,65 m.

 

En stærstu fljúgandi dýr sögunnar sem vitað er um voru fljúgandi eðlur sem á latínu kallast pterosaurus. Þær voru uppi á tímum risaeðla en dóu út á krítartímanum. Þær eru taldar hafa haft um 12 metra vænghaf.

 

Ekki er talið að argentavis hafi átt marga óvini vegna stærðar sinnar og því svifið hæst í fæðukeðjunni á svæðinu. Einstaklingar af tegundinni drápust því nær eingöngu úr elli eða í slysum og úr sjúkdómum. Margt bendir til að þessi mikli fugl hafi lifað á svipaðan hátt og kondórar og hrægammar gera enn í dag í Andesfjöllunum. Hann hafi ýmist veitt sér lifandi dýr til matar eða seilst í hræ.

 

Teikning af argentavis. Athugið að vísindamenn hafa ekki áreiðanlegar sannanir fyrir útliti fuglsins en líklegt er að hann hafi verið svipaður þessum. Talið er að þessi stærsti fljúgandi fugl sögunnar hafi líkst kondórum nútímans.

 

Á efstu myndinni stendur Dr. Kenneth Campbell, einn þeirra sem uppgötvuðu argentavis magnificens, fyrir framan fuglinn stóra á safni í Los Angeles í Bandaríkjunum.

 

Meira um fuglinn hér.