Það er janúar. Lengsti og kaldasti mánuður ársins. Og ef það er ekki nógu slæmt, þá er hann jafnframt sá mánuður sem innheimtir flesta veikindaga.

 

Fyrir þá sem þjást af hálsbólgu og kvefi er lítið hægt að gera annað en að bíða, líkaminn ætti að geta reddað þessu fyrir ykkur. Það er hins vegar ekkert að því að hjálpa honum smá af stað – og gefa bragðlaukunum um leið eitthvað til að gleðjast yfir.

 

Heitt kakó með chili

Allt síðan undirritaður sá myndina Chocolat eftir Lasse Hallström, hefur chili verið fastagestur í heitu kakói, hvenær svo sem það er útbúið. Atriðið þar sem hin fúllynda Judi Dench kom kvartandi og kveinandi á fund Juliette Binoche, sem þá hafði nýopnað súkkulaðiverslun í íhaldsömu og strangkristnu þorpi í Frakklandi, er einfaldlega svo minnistætt. Binoche gaf Dench bolla af kakói (súkkulaði) og bætti við hnífsoddi af chili. Dench var efins í fyrstu en við fyrsta smakk fór hún bókstaflega í annan heim, æskan rifjaðist upp fyrir henni og hún var öll hin hressasta á eftir. Frábært!

 

Hér er uppskrift að gómsætu kakói sem er gott við aumum hálsi og enn betra í munni. Það er talsvert ódýrara en að búa til  „ekta“ súkkulaði, en er alls ekki síðra að gæðum. Hægt er að prófa sig áfram með hlutföllin, þau fara í raun eftir því hve bragðsterkt kakóið á að vera, og hve sætt. Hunangið er gott í hálsinn, og chili-piparinn hreinsar vitin.

 

Fyrir hvern bolla eru hlutföllin:

 

Bolli af mjólk

1-2 tsk. Kakó

1-2 msk. Hunang

1/4 tsk kanill

Þurrkað chili eða Cayenne pipar á hnífsoddi

 

Þetta er hrært jafnt og þétt uns hráefnin hafa blandast vel saman undir góðum hita. Passið að það sjóði ekki.

 

Svo er auðvitað rétt að minna á þessa ágætu ræmu. Hún er að vísu keimlík dönsku kvikmyndinni Babettes Gæstebud, fyrir utan að Hollywood-fólkinu tókst að bæta Johnny Depp við sögu Karen Blixen. Í Chocolat er Depp hvorki meira né minna en framandi sígauni sem kann að dansa og spila á gítar.

 

Við þá sem eru kvefaðir segir Mahlzeit í öllu falli: Gute Besserung!

 

Vídjó