Árið 1942 kvörtuðu stjórnvöld á Íslandi formlega undan bíómynd frá Hollywood sem bar nafnið Iceland og átti að gerast á landinu. Þjóðin öll var sármóðguð yfir kvikmyndinni sem þótti uppfull af ærumeiðandi rangfærslum.

 

Í dag erum við kannski orðin vön því að Ísland birtist í bíómyndum. Nú á dögum streyma frægir leikstjórar og leikarar til landsins til að taka upp myndir.

 

En þetta hefur ekki alltaf verið svona. Þjóðflokkurinn okkar birtist nær aldrei á hvíta tjaldinu eða í sjónvarpi í gamla daga og því var hvert skipti sem það gerðist lengi í minnum haft.

 

Og við vorum því ánægð árið 1990 þegar hin frábæra sjónvarpsþáttaröð Twin Peaks eða Tvídrangar hófu göngu sína. Einn af framleiðendum þeirra var Sigurjón Sighvatsson og fljótlega eftir að fyrstu þættirnir voru sýndir fór að berast út að íslenskri þjóð yrði gerð skil í þáttaröðinni og fengi því „góða landkynningu“, eins og við orðum það svo gjarnan, í bandarísku sjónvarpi.

 

Vídjó

 

En margir urðu fúlir þegar Íslendingarnir birtust loks í Twin Peaks. Því þeir voru stórfurðulegir. Íslendingarnir voru bissnessmenn sem kyrjuðu ættjarðarljóð, Öxar við ána og slík lög, allan sólarhringinn, auðvitað blindfullir og héldu vöku fyrir aðalpersónunni, rannsóknarlögreglumanninum viðkunnanlega Dale Cooper. Hann blótar þessum dónum í sand og ösku. Þetta var ekki glæsileg mynd sem dregin var upp.

 

En þótt ýmsum Íslendingum hugnaðist ekki að þjóðflokkur þeirra birtist sem fyllibyttur eða sem nánast sem brandari á skerminum, var þjóðin ekki svo hörundsár að mikið mál yrði gert úr þessu.

 

En um miðja 20. öldina voru landsmenn sérstaklega hörundsárir, þá gátu þeir ekki hlegið með og grínið þótti langt frá því að vera saklaust, eins og Eggert Þór Bernharðsson sagnfræðingur lýsir í greininni Iceland: Saga um kvikmynd“, sem birtist í bókinni Heimur kvikmyndanna sem út kom árið 1999 og er frábær gripur fyrir alla áhugamenn um kvikmyndir.

 

Eggert segir frá Hollywoodmyndinni Iceland frá árinu 1942. En kvikmyndin, sem átti að gerast hér á landi, þótti gefa rammskakka mynd af Íslandi og var þjóðin svo móðguð að stjórnvöld kvörtuðu við Bandaríkjastjórn. Og endanum var fallist á að nafni myndarinnar yrði breytt. En hvað var svona slæmt við þessa mynd?

 

Í september 1942 birtist þessi grein í Morgunblaðinu. Talað var um „fáránlega kvikmynd“.

 

MblIceland1942a MblIceland1942b

 

Það er auðséð á þessum skrifum að landinn var mjög ósáttur við myndina. Og íslensk stjórnvöld létu málið ekki kyrrt liggja. Úr grein Eggerts: „Utanríkisráðuneytið sendi Thor Thors, sendiherra Íslands í Bandaríkjunum, umsvifalaust skeyti þegar fregnir af myndinni bárust til landsins og fól honum að gera viðeigandi ráðstafanir vegna Iceland því lýsingin á landi og þjóð væri engan veginn viðunandi. Sendiherrann átti að sjá til þess að sýning myndarinnar yrði hindruð eða að minnsta kosti yrði kvikmyndinni breytt þannig að ekki yrði til ófrægðar Íslendingum og Íslandi.“

 

„Skömmu fyrir jólin 1942 bárust loks fregnir sem glöddu landsmenn: „Eftir umkvartanir þær, er sendiherra Íslands í Washington gerði, hefur verið breytt um nafn hennar og það tekið út úr henni, er benda átti til þess að myndin gerðist hér á landi.““

 

Vídjó

 

„Ýmislegt undarlegt hafði komið frá háborg kvikmyndaiðnaðarins og landsmenn höfðu oft skemmt sér í bíóhúsum bæjarins, en þegar grínið var á kostnað þeirra sjálfra horfði málið talsvert öðruvísi við. Og ekki bætti úr skák að titilhlutverkið var í höndum hinnar heimsfrægu norsku skautadrottningar Sonju Henie.“

 

Aðalleikarar myndarinnar. Norska skautadrottningin Sonja Henie á milli þeirra John Payne og Jack Okie.

Aðalleikarar myndarinnar. Norska skautadrottningin Sonja Henie á milli þeirra John Payne og Jack Okie.

 

„Sonja Henie var fædd árið 1912 og hafði heillað heiminn með leikni sinni á skautum. Ung að árum fór hún að renna sér, varð Noregsmeistari í skautaíþróttum aðeins fjórtán ára gömul og heimsmeistari fimmtán ára. Og áfram hélt hún. Á þrennum vetrarólympíuleikum í röð, 1928, 1932 og 1936, hreppti hún gullverðlaun og sló hvert heimsmetið af öðru. Að þessu búnu gerðist hún skautadansari að atvinnu, setti upp viðamiklar sýningar og ferðaðist víða.“

 

„Iceland gerist í Reykjavík skömmu eftir að bandarísku landgönguliðssveitirnar, „U.S. Marines“, koma þangað í júlí 1941. Sögusviðið kom Íslendingum afar undarlega fyrir sjónir. Höfundar myndarinnar virtust skálda hvaðeina sem þeim datt í hug. Þeir bjuggu t.d. til nýja þjóðbúninga sem líktust helst norskum búningum og í þeim dansar fólk hálffæreyska dansa í Ólafsvökustíl við undirleik hljóðfæraleikara sem eru klæddir líkt og svissneskir fjallagarpar. Á Tjörninni í miðbænum er auk þess haldin gríðarleg Snjóhátíð til styrktar Rauða krossinum þar sem fram fara mikilfengleg skautahlaup enda myndin sniðin að þörfum skautadrottningarinnar.“

 

14047_large_image

 

„Hátíðin er ein allsherjar Hollywoodskrautsýning þar sem ægir saman stílbrigðum frá öllum heimshornum og hún vitnar um mikið ríkidæmi Íslendinga, líkt og maturinn sem borinn er á borð fyrir gesti og gangandi. Og kjötkveðjuhátíðin í lok myndarinnar er ekki síður stórbrotin. Hún fer einnig fram á Tjörninni og þar er m.a. stiginn tilkomumikill skautadans frá Kína, Hawaii og Panama með tilheyrandi búningum. Einn galli er þó á gjöf Njarðar. Þótt ótrúlegt sé, virðist myndin gerast í júlí. Allt er þakið snjó og ís og helsta skemmtun innfæddra sem útlendinga eru skautahlaupin.“

 

Vídjó

 

„Tjörnin er mikilvæg í Iceland en „Hotel Jorg“ skiptir ekki síður máli sem sögusvið. Þar er hátt til lofts og vítt til veggja, gestirnir borða tugi tegunda af „smjörogbrauði“, eða „smorgasbord“ eins og það er kallað, og dansa við hljóðfæraslátt fjölmennrar og skrautlegrar hljómsveitar. Raunar leikur hljómsveit Sammy Kaye sjálfa sig og nokkur vinsæl lög heyrast í myndinni, t.d. „You Can’t Say No to a Soldier“.“

 

Vídjó

 

„Fyrir utan Tjörnina og Hotel Jorg, sem sver sig miklu fremur í ætt við glæsisali dansstaða í New York en „Borgina“, sést lítið af Reykjavík. Þó bregður kaupfélaginu fyrir eins og vera ber í mynd sem gerist á Íslandi og fáeinir braggar sjást. Auk þess kynnist áhorfandinn hinum mikilvæga „Sankti Ólafsdegi“ og hvað hann sé heppilegur brúðkaupsdagur og einnig „Sankti Ólafskirkjunni“ sem á líklega að vera dómkirkjan í Reykjavík. Var nokkur furða að landsmenn yrðu forviða?“

 

Vídjó

 

„Slip Riggs kallar landsmenn oftar en einu sinni Eskimóa, en það var eitthvert versta skammaryrði sem þjóðin gat hugsað sér. Hún reyndi hvað eftir annað að þvo af sér „Eskimóastimpilinn“ en ekki alltaf með miklum árangri.“

 

Vídjó