Á þessari mynd frá 1871 sjáum við keisarann af Brasilíu, Pedro II., slaka á með fríðu föruneyti við pýramídana miklu í Egyptalandi.

 

Keisarinn?

 

Já, Brasilía var keisaradæmi á nítjándu öld, eftir að hafa hlotið sjálfstæði frá Portúgölum árið 1822 og þar til lýðræði var komið á árið 1889. Tveir keisarar ríktu á þeim tíma, fyrst Pedro I. og síðar sonur hans Pedro II. Brasilía varð sjálfstæð á svipuðum tíma og aðrar þjóðir Suður-Ameríku, en Evrópa var á þessum tíma í kaldakolum eftir Napóleonsstríðin og nýlenduveldin, Portúgal og Spánn, höfðu ekki bolmagn til að halda utan um gríðarstórar nýlendur Nýja heimsins.

 

En því fór fjarri að Brasilíumenn sjálfir fengju að ráða yfir landinu. Portúgalskt aðalsfólk réð enn yfir landinu og var keisarinn Pedro I. konungssonur frá Lissabon. Til að gera langa sögu stutta naut hann aldrei stuðnings brasilísku þjóðarinnar. Hann starfaði í óþökk valdamikilla manna sem tóku gjarnan ákvarðanir að honum forspurðum. Stéttabarátta var í algleymingi en meginþorri landsmanna lifði við bág kjör á meðan fámennur hópur aðalsmanna, landeigenda og iðnjöfra lifði miklu sældarlífi.

 

Pedro I. var aðdáandi Napóleons og reyndi að herma eftir honum en hafði engar forsendur til að skilja hið gríðarlega víðlenda ríki sitt. Hann var sjálfur frá litlu Evrópuríki þar sem aðstæður voru gjörólíkar. Pedro I. afsalaði sér keisarakrúnunni árið 1831 eftir aðeins níu ár á valdastóli.

 

Keisarakrúnan gekk til sonar hans, sem nú var nefndur Pedro II. og var aðeins fimm ára gamall. Hann ríkti í 58 ár en fyrstu árin réðu ríkisstjórar landinu á meðan hann var enn barn að aldri. Honum gekk aðeins betur að stjórna ríkinu en pabba sínum þegar hann komst til vits og ára. En til að gera langa sögu aftur stutta einkenndist valdatími Pedros II. þó af ýmsum vandræðum og af stöðugum pólitískum erjum en hann var þó virtur og elskaður af þjóð sinni, ólíkt pabba sínum.

 

Hann glataði stuðningi hersins, því hann var frjálslyndur og menntaður leiðtogi og hataðist við alla hermennsku. Að lokum missti hann tökin á efnahagsstjórninni þegar hann afnam þrælahaldið, sem hann taldi smánarblett á landinu. Það leiddi til afnáms keisaradæmisins með uppreisn árið 1889 þegar Pedro II. var komið frá.

 

Margir telja að ein helsta ástæðan fyrir falli keisaradæmisins hafi verið áhugaleysi og lífsleiði Pedros II. undir lok valdatímans. Hann var sjálfur stuðningsmaður lýðræðishátta og sagði eitt sinn: „Leyfum einhverjum öðrum að stjórna ef Brasilíumenn vilja það. Ég vil verða kennari.“ Hann var löngu orðinn leiður á starfinu og geispaði oft og blundaði jafnvel á fundum með ráðgjöfum sínum.

 

Hann var sagður óhræddur um uppgang lýðræðissinna sem nú urðu valdameiri með hverjum deginum og vildu steypa honum af stóli. Keisarinn sagði einhvern daginn: „Mér væri alveg sama ef Brasilía yrði lýðveldi.“

Pedro II. átti marga fræga vini úr vísindaheiminum, sem var hans líf og yndi. Undir lokin sást keisarinn sjaldan við aðra iðju en að skrifa bréf til Charles Darwin, Louis Pasteur og Thomas Edison.