Berglind María Tómasdóttir er tónlistarfræðingur, tónlistarkona og dósent við Listaháskóla Íslands. Hún er fædd árið 1973 og hefur búið í Reykjavík, Kaupmannahöfn og San Diego. Í síðastnefndu borginni stundaði hún nám við Kaliforníuháskóla og lauk þaðan doktorsprófi í flutningi og miðlun samtímatónlistar árið 2013.

Ef það er ekki nóg, er Berglind líklega mesti sérfræðingur þjóðarinnar þegar kemur að vinsælasta tónlistarfólki heims fyrir akkúrat 30 árum, þeim Prince, Whitney Houston og Michael Jackson. Auk starfa sinna við Listaháskóla Íslands er Berglind sjálfstæður flytjandi, hljóðfærasmiður og túrar með Björk. Hún hefur áður stýrt tónlistarhátíðum, tekið þátt í listgjörningum og var einnig útvarpskona á Rás 1, svo fátt eitt sé nefnt.


Berglind ætlar að taka Proust-próf Lemúrsins, eða öllu heldur Proust-próf Egils Helgasonar, svo öllu sé haldið til haga. Fyrir forvitna lesendur var saga Proust-prófsins einmitt rakin hér


Sæl, Berglind. Í dag er miðvikudagur, sá síðastí í marsmánuði 2020.  Samkvæmt vefsíðu Veðurstofunnar er suddi í Reykjavík, sem er ef til vill huggandi – að það sé þó alltaf eitthvað sem gangi sinn vanagang? 

Já suddi er þekkt stærð, sem er gott. Nóg óvissa í gangi út af COVID19.

Ertu tilbúin í prófið? 


Já – og ath. Er ekki búin að lesa hitt – þetta er fullkomin óvissa þetta próf. Það er að segja, ég ákvað að lesa ekki það sem birtist um daginn á Lemúrnum.


Prýðilegt, það er enn betra. Keyrum…afsakið, hjólum þetta í gang. 


Hver er hugmynd þín um hamingju?


Hugmyndin, sú nýjasta að minnsta kosti, er jafnvægi. 


Hvað óttast þú mest? 


Ég óttast þessa spurningu smá, ég óttast aðallega óttann. Ég óttast allt sem er hræðilegt, en reyni að huga að jafnvægi. 


Hvað er þér verst við í eigin fari? 


Ójafnvægi, þegar litlir hlutir koma mér úr jafnvægi. Og talandi um jafnvægi, er að  hugsa um hvort þetta er gott orð eða ekki, þá á ég við hvort þetta er góð þýðing á orðinu balans, balance (hvers orðsifjar segja sennilega sitthvað fleira en orðið sjálft og gefa því þannig aukna dýpt). Er til dæmis nýlega búin að komast að því að enska orðið noise á sér latneskar rætur í nausea sem þýðir ógleði sem aftur á sér grískar rætur í naus sem þýðir skip. Sem sagt sjóriða, hversu brillíant er það?

Hvað er þér verst við í fari annarra? 

Þegar fólk hlustar ekki og sér ekki út fyrir sjálft sig.


Hvaða lifandi manneskju dáir þú mest? 


Vigdís Finnbogadóttir – hún plantaði trjám þegar enginn var að hugsa um að kolefnisjafna sitt vistspor. Michelle Obama, af því að hversu svöl getur kona verið á öllum vígstöðvum? Signý Sæmundsdóttir er mesti ljósgeisli sem ég þekki persónulega, manni líður alltaf betur eftir samtal við hana.

„Vigdís Finnbogadóttir – hún plantaði trjám þegar enginn var að hugsa um að kolefnisjafna sitt vistspor.“ Mynd frá fundi Vigdísar og Beatrix Hollandsdrottningar 1985. (Mynd: Rob C. Croes).


Hvað, ef eitthvað, áttu til að gera í óhófi?


Borða, til dæmis súkkulaði, setur mig í ójafnvægi.


Hvert er hugarástand þitt núna?


Nokkuð rólegt og stöðugt en síðdegin (og nú er síðdegi) eru þó oft með innbyggða spennu, sérstaklega á barnaheimilum. 


Hver er ofmetnasta dyggðin? 


Lítillæti, að hafa sig ekki í frammi. Þar sem það á við, er þó ekki að tala um að fólk eigi að að vera drambsamt eða með belging. Aftur er þetta spurning um jafnvægi. 


Við hvaða tækifæri lýgurðu? 


Þegar ég þarf að hagræða sannleikanum. Reyni að gera það í hófi samt. Og já þegar þarf að gera það til að viðhalda hefðum sem tengjast jólum og peningagjöfum undir kodda og slíkt.


Hvað þolir þú minnst við útlit þitt? 


Þegar ég sé á útlitinu að ég hef ekki gætt hófs eða hugað að jafnvægi.

Hvaða eiginleika kanntu mest að meta í fari karla? 


Góða hlustun. 


Hvaða eiginleika kanntu mest að meta í fari kvenna? 


Sennilega það sama. 


Hvaða orð, eða frasa, notar þú of mikið? 


Mér skilst að ég noti alls konar mikið. Það var kona sem sagði mér það í fyrra, ég var nokkuð ánægð með það enda þarf að vera pláss í heiminum fyrir alls konar. Eftir að konan sagði mér þetta fór ég að veita þessu athygli og í kjölfarið nota það minna. 

Hver er stærsta ástin í lífi þínu? 


Sú sem ég finn innra með mér í faðmlagi við mína nánustu fjölskyldu, börn og maka.

Umvafin hamingju og ást. Anna Signý, Sæmi, Sigga og Svana í fangi mömmu, Sigurbjartur og Steinunn. Jól, 2019.


Hvar og hvenær varst þú hamingjusömust? 


Í faðmlagi við nánustu fjölskyldu. 


Hvaða hæfileika myndir þú helst vilja búa yfir? 


Ég vildi að ég gæti flogið en ég myndi líka sætta mig við að búa yfir betri tímastjórnun. Get æft hvort tveggja, að minnsta kosti hið síðara.


Ef þú gætir breytt einhverju einu við sjálfa þig, hvað væri það? 


Segja sjálfri mér oftar að ég sé ok. 


Ef þú myndir endurholdgast sem persóna, eða hlutur úr náttúrunni, hvers konar vera/hlutur væri það? 


Erfið spurning, er að reyna hlusta inn á við eftir svari… ég sé fyrir mér hruman klett, til dæmis á Hornströndum, sem einstaka gestur, þriðja hvert ár, tyllir sér á. Er það ekki eitthvað?

„Ég sé fyrir mér hruman klett, til dæmis á Hornströndum, sem einstaka gestur, þriðja hvert ár, tyllir sér á. Er það ekki eitthvað?“ (Mynd: Steenaire/Wikimedia Commons).

Í hvaða borg/landi myndirðu helst vilja búa? 


Reykjavík er ok en ef ekki hér þá í Suður-Kaliforníu því það er svo næs þar.


Hver er mikilvægasti hlutur sem þú hefur átt? 


Held ég verði að segja flautan eða flauturnar í lífi mínu. Hef að minnsta kosti ekki varið meiri tíma með neinum öðrum hlut sem ég hef átt í viðlíka samtali við. 


Hver væri versti harmur sem þú getur ímyndað þér? 


Á erfitt með harm, vil helst ekki ímynda mér versta mögulega harminn. Þessi veira er býsna mikill harmur þótt allt sé allt í lagi hér í mínu nærumhverfi. 


Hvað finnst þér skemmtilegast að gera? 


Mér finnst hrikalega gaman að skíða niður brekku, sérstaklega með börnunum mínum þegar þau eru nýbúin að læra á skíði. Það kemst nálægt því að fljúga.


Hver er sterkasti þátturinn í þínu fari?


Að halda áfram. Sem er ekki alveg það sama og úthald (sem ég var búin að skrifa). Úthald mitt er misgott, en hér er ég enn og í nokkuð góðu stuði.


Hverjir eru uppáhaldsrithöfundar þínir?


Ég var svona líka svakalega hrifin af Sigurði Guðmundssyni um daginn eftir að hafa lesið Tabula rasa og Músa en svo las ég Dýrin í Saigon og mislíkaði. Hann Ragnar Helgi Ólafsson er í uppáhaldi. Og mikið var Hnitmiðaða kínversk-enska orðabókin fyrir elskendur góð sem ég las um daginn. Ég held að ég eigi enga uppáhalds rithöfunda, en stundum les ég mjög góðar bækur.


„Mikið var Hnitmiðaða kínversk-enska orðabókin fyrir elskendur góð sem ég las um daginn. Ég held að ég eigi enga uppáhalds rithöfunda, en stundum les ég mjög góðar bækur.“ Útgefandi: Angústúra, 2019.

Hvaða skáldskaparpersóna er í mestu uppáhaldi? 


Yoda kemur upp í hugann, persónur sem hafa lifað tímana tvenna, sem sjá inn í marga heima. 


Hvaða einstaklingur í mannkynssögunni er þér mest að skapi?


Greta Thunberg er ansi góð, hún segir hlutina umbúðalaust, eins og aðrar fleiri góðir úr mannkynssögunni.


Hvaða einstaklingur í mannkynssögunni er þér síst að skapi? 


Trump er ansi slæmur.


Hvaða tónlistarfólk er þér mest að skapi?


Tónlistarfólk sem býr yfir góðri hlustun og góðum smekk. Mér finnst mikið til Pauline Oliveros koma, tónlist sem heildstæð iðkun var eitthvað sem hún kannaði með farsælum hætti. 


„Mér finnst mikið til Pauline Oliveros koma, tónlist sem heildstæð iðkun var eitthvað sem hún kannaði með farsælum hætti.“ Oliveros á tónleikum árið 1978. (Mynd: Pat Kelly).

Hvernig viltu deyja? 


Með friðsælum hætti. 


Hvert er uppáhaldsblómið þitt? 


Blóm sem maður rekst á í óbyggðum, svona dugleg blóm sem birtast manni þar sem lítið er um gróður, til dæmis í sandbreiðu. 

„Blóm sem maður rekst á í óbyggðum, svona dugleg blóm sem birtast manni þar sem lítið er um gróður, til dæmis í sandbreiðu.“  Án titils, 1997. Eggert Pétursson.


Hvert er uppáhaldsfjallið þitt? 


Skarðsfjall í Landsveit, margslungið og frábært berjafjall.


Áttu þér eftirlætis einkunnarorð/mottó? 


Nei, en ég er alvarlega að hugsa um að fara vinna meira með mottó, svolítið vandræðalegt að detta ekkert í hug. Kannski: áfram veginn!


Fyrir áhugasama lesendur þá bendir lemúrinn á heimasíðu Berglindar, þar sem má nálgast fjölbreytta listsköpun, hljómplötur og upplýsingar um fræðastörf og kennslu.