Konan á þessari mynd kann að hafa átt sinn þátt í að Hitler beið ósigur í síðari heimsstyrjöldinni. Kannski ekki mjög stóran þátt, en einhvern þó. Hún er þó fjarri því að vera nafnkunn og þó upplýst sé að hún hafi heitið Jean Leslie, þá eru líklega fáir nokkru nær. En hún lék sitt hlutverk í einum frægasta blekkingarleik síðari heimsstyrjaldar þegar breska leyniþjónustan varpaði í sjóinn út af Spánarströndum líki sem átti að vera lík liðsforingja með mikilvæg leyniskjöl í farangri sínum.

 

Málið snerist um að Bretar og Bandaríkjamenn voru að undirbúa innrás á Sikiley 1943 en vildu telja Þjóðverjum trú um að innrás í Grikkland stæði fyrir dyrum. Þeir bjuggu því út skjöl sem sýndu ranglega að slík innrás stæði fyrir dyrum og settu í skjalatösku sem síðan var fest við handlegg líks sem dubbað hafði verið upp í einkennisbúning liðsforingja í breska hernum.

 

Líkið var af róna sem hafði drukknað í Thames en Þjóðverjum var ætlað að trúa því að þetta hefði verið Bill nokkur Martin sem hefði verið á ferð á skipi á Miðjarðarhafi en fallið útbyrðis og drukknað með leyniskjölin í farangri sínum. Lík rak upp að ströndum Spánar og komst þar í hendur lögreglunnar. Í spænsku lögreglunni var mikið af stuðningsmönnum Þjóðverja, svo skjölin sem „Bill Martin“ var með í farangri sínum komust fljótt í þýskar hendur og áttu sinn þátt í að Þjóðverjar vanræktu að styrkja varnir Sikileyjar. Með innrás sinni á Sikiley sneru Bandamenn stríðsgæfunni endanlega sér í vil.

 

Til að „Bill Martin“ væri sem mest sannfærandi var komið fyrir á líki hans alls konar persónulegum munum, þar á meðal geymdi hann í veskinu bréf frá alúðlegri en heldur gáfum snauðri kærustu sem kallaðist „Pam“.

 

Og að sjálfsögðu var hann með mynd af „Pam“ í veskinu líka. Leyniþjónustumennirnir sem bjuggu út „Bill Martin“ fengu þá lánaða mynd sem ritari hjá leyniþjónustunni hafði látið taka af sér í fríi við Thames sumarið áður.

 

Það var Jean Leslie. Hún lést nú á dögunum, 88 ára að aldri.

 

Atburðarás þessi varð árið 1956 efniviður í kvikmyndina The Man Who Never Was. Þar fór hin undurfagra Josephine Griffin með hlutverk ‘Pam’.

 

Josephine Griffin og Clifton Webb í 'The Man Who Never Was'