Myndirnar sem við sjáum hér voru teknar í París árið 1914, í þann mund er fyrri heimsstyrjöldin hófst. Þekkja lesendur Lemúrsins staðina?

Albert Kahn (1860-1940) var vellauðugur franskur bankamaður sem notaði auðæfi sín í þágu ljósmyndunar. Árið 1909 ferðaðist hann til Japan í viðskiptaerindum og kom heim með bunka af ljósmyndum.

Upp frá því var hann forfallinn áhugamaður um ljósmyndun og beitti sér fyrir tækniþróun á sviðinu. Hann stofnaði sérstakt fyrirtæki sem vann að því að safna ljósmyndum frá öllum heiminum og á árunum 1909-1931 sendi hann ljósmyndara til allra heimsálfa. Um 70 þúsund ljósmyndir frá 50 löndum söfnuðust. Lemúrinn mun birta fleiri myndir úr þessu merkilega safni á næstunni.

Albert Kahn.

Nýstárleg tækni í litljósmyndun var notuð, svokölluð autochrome-tækni, þar sem sjálflitandi glerplötur voru notaðar. Ljósmyndasafn Reykjavíkur útskýrir autochrome-tæknina svona:

„Myndin var skoðuð með því að halda henni upp við ljós eða varpa henni á einhvern flöt. Þetta voru fyrstu hagkvæmu litmyndirnar þegar þær komu fram á sjónarsviðið árið 1904 og þurfti aðeins eina plötu til að ná fram litunum sem var bylting. Það var sá yngri af Lumière bræðrunum, Louis (1864-1948) sem uppgötvaði sjálflitandi glerplötur.“

Kahn fór á hausinn í kreppunni miklu sem hófst árið 1929 og lést árið 1940 þegar nasistar höfðu hernumið Frakkland.