Sæmileg fimmtán ára gömul amerísk spennumynd skilur eftir tómleikatilfinningu.

 

Einhvers staðar í vestrinu, miðja vegu á milli Kaliforníu og einskis, eru vegasjoppur þar sem sléttuúlfar með derhúfur liggja í skugganum og bíða eftir fórnarlömbum.

 

Eftirlætis fæða þeirra eru sakleysingjar úr stórborginni. Einn daginn rennur nýlegur og glansandi rauðleitur jeppi eftir þjóðveginum, bílnúmerið er merkt Massachussetts-fylki.

 

Þetta eru greinilega borgarbúar, einhverjir vel greiddir menntamenn sem einhvern veginn hafa villst alla leið hingað í eyðimörkina.

 

Svona er spennumyndin Breakdown frá 1997. Í henni leika Kurt Russell og Kathleen Quinlan aumingja Taylor-hjónin frá Boston sem ákveða að keyra á nýjum Cherokee-jeppa þvert í gegnum Bandaríkin, alla leið til San Diego, en lenda svo í klóm vondra karla á leiðinni.

 

Hinn stórfíni J.T. Walsh, sem lék í annarri hverri mynd á tíunda áratugnum, þangað til hann lést úr hjartaáfalli árið 1998, er einn aukaleikara.

 

Ég sá þessa mynd í fyrsta skipti um daginn. Ég held að tilviljun ein hafi ráðið að hún rataði aldrei í vídeótækið heima. Því þessi mynd kom út í Bandaríkjunum þegar ég var 13 ára – á miklu blómaskeiði í spennumyndaglápi – og var líklega komin upp á leigurnar í Reykjavík ári síðar. Og því þetta var ekta „leigumynd“.

 

En Breakdown er ekki miðlungsmynd. Hún er mjög góð framan af þegar andi Hitchcock svífur yfir vötnum, stígandinn er dularfullur og dimmur, áhorfandinn veit lítið. Fyrri helmingurinn er klassísk mystería með engum tæknibrellum og fáum sprengingum.

 

Kurt Russell keyrir eins og allt vel tamið fólk úr stórborg gerir, hæfilega hratt og beint, vísirinn á hraðamælinum svífur rétt aðeins yfir hámarkshraða. Eiginkonan er blíð og góð. Þetta er hresst og heilbrigt fólk með sterk bein og fallegt Colgatebros.

 

En það er eitthvað á seyði í eyðimörkinni. Ljótur karl á ljótum bíl birtist allt í einu á veginum og hjónin klessa næstum á hann.

 

Þau keyra smáspöl í viðbót þangað til fíni rauði jeppinn bilar skyndilega. Hjónin standa ráðalaus með húddið opið á miðjum vegi.

 

Þangað til á sjóndeildarhringnum birtist gríðarstór amerískur flutningabíll. J. T. Walsh situr við stýrið, góðlegur á svipinn og með derhúfu á hausnum. Jæja gott, hugsa hjónin með sér. Þetta er bara ósköp venjulegur amerískur bifreiðastjóri. Fellow American, Proud American. Og hann býðst til að skutla frúnni á næstu bensínstöð og á meðan ætlar Kurt Russell að bíða hjá jeppanum sínum.

 

Konan hverfur á braut með flutningabílnum. Og svo líður og bíður þangað Kurt kemur jeppanum sínum í gang og ætlar bara að finna konuna sína í hvelli á bensínstöðinni svo þau geti haldið ferð sinni áfram. En þar er hún ekki. Enginn á bensínstöðinni kannast við að hafa séð neinn flutningabíl eða neina konu.

 

 

Frú Taylor er horfin. Kurt Russell uppgötvar að hann er lentur í súrrealískri martröð. Nú ætla ég ekki að segja meira frá söguþræðinum. En við tekur mikil barátta þar sem Kurt breytist í hörkutól sem æðir um skrjáfþurrar auðnirnar í leit að konunni sinni. Sú barátta er auðvitað mikil hetjusaga – þetta er Hollywood – en hún er ekki spennandi.

 

Góðar bíómyndir eldast vel – en síðari hálfleikur Breakdown er ekki góður. Og satt best að segja kom yfir mig ákveðin tómleikatilfinning. Tíminn birtist þar í sinni verstu mynd – allt í einu finnst manni árið 1997 vera fornöld. Það er vond tilfinning.

 

Boðskapurinn virðist eingöngu vera að karakter Kurts, herra Taylor, sé hinn siðprúði maður sem nú sé mættur í óbyggðirnar þar sem hann þurfi að berjast við villimenn.

 

Kurt Russell hleypur í leit að konunni með angistarsvip og berst við vonda karla. Hann hefur allt í einu breyst í ódýra útgáfu af John Rambo, allir Ameríkanar og þar með taldir vel greiddir stórborgaruppar geta greinilega breyst í stríðsmenn á augabragði.

 

 

Myndin fjarar smám saman út á meðan handritshöfundurinn lemur karakter Kurts sundur og saman í fyrirsjáanlegum aksjónatriðum. Við heyrum kálhausahljóð þegar hann er kýldur og allt í einu virðast óvinirnir full fífldjarfir, breytast í peð sem deyja fyrir málstaðinn fyrir hreinan kjánaskap. Allt í einu eru öll brögð lélegu spennumyndarinnar notuð. Þetta er eins og að vera staddur í verslunarmiðstöð í útlöndum – maður hefur séð þetta allt áður – í Kringlunni og Glæsibæ.

 

Welcome to the desert of the real

Argentínski rithöfundurinn Borges skrifaði smásögu um glæsilegt og víðáttumikið keisaraveldi þar sem kortagerðarmenn voru í miklum metum. Hin góða kortagerðarmenning gerði að verkum að ákveðið var að búa til kort sem væri jafn stórt ríkinu sjálfu – minna myndi ekki duga. Þegar veldið missti landsvæði var kortið minnkað og stækkað við landvinninga. Þegar ríkið mikla leið svo undir lok var kortið það eina sem eftir var.

 

Franski heimspekingurinn Jean Baudrillard notaði þessa sögu Borgesar til að lýsa kenningum sínum um líf nútímamanna sem hann taldi aðeins lifa í kortinu sjálfu en ekki raunveruleikanum. Þegar menn gægðust undir hið afar glæsilega kort væri þar ekkert nema eyðimörk. Breakdown frá 1997 reynist líka eyðimörk þegar gægst er undir yfirborð hennar. En hún er samt sæmileg.