Hjónin Richard og Anna Wagner í Berlín tóku mynd af sér við jólatréð hvert ár í yfir fjóra áratugi.

Þau sendu ljósmyndirnar sem jólakort til vina og ættingja. Sú fyrsta var tekin á aðfangadagskvöld 1900, árið sem Wagner-hjónin giftust, en sú síðasta 1942.

Óhætt er að segja að myndirnar endurspegli sögu Þýskalands, sem var auðvitað sérstaklega stormasöm á tímabilinu. Við sjáum áhrif beggja heimsstyrjalda. Þarna eru tækninýjungar eins og ryksugan sem birtist 1927.

Og hjónin eldast saman.

Myndirnar eru geymdar hjá Heimatmuseum Charlottenburg í Berlín.

Þau eru nýgift. Anna lyftir kettinum Meitz eins og til að sýna honum jólagjafirnar.
Árið er 1908. Anna og Richard eiga fallegt heimili og góð klæði.
Árið er 1915 og fyrri heimsstyrjöldin er hafin. Wagner-hjónin stilla sér upp á aðfangadagskvöld með landakort í bakgrunni, sem sýnir hreyfingar hermanna á vígstöðvum. Á borðinu eru pylsur og miði þar sem á stendur „hungursneyð“ (Hungersnot).
Jólin 1917. Nú er nokkuð liðið á stríðið og kolaskortur hefur gert vart við sig í Þýskalandi. Hjónin klæðast þykkum kápum.
Árið 1924 virðist nokkuð huggulegt hjá hjónakornunum.
Allt fram streymir endalaust. Jólin 1927. Við sjáum ryksugu. Er þetta rafmagnsjólasería?
Jólin 1933.
Jólin 1937.
Aðfangadagskvöld 1940. Það er aftur komið stríð og hjónin sitja í þykkum vetrarkápum fyrir framan einfaldar gjafir.
Gjafir eru enn af skornum skammti jólin 1942. Þetta er síðasta myndin. Ringulreið síðari heimsstyrjaldar hafði líklega sitt að segja. Anna lést í ágúst 1945, nokkrum mánuðum eftir stríðslok.