Varst þú á Austurvelli 30. mars 1949? Segðu okkur hvernig var.

 

Árið 1949 sam­þykkti rík­is­stjórn Stefáns Jóhanns Stefánssonar aðild Íslands að Norður-​​​​Atlantshafsbandalaginu. Ákvörð­unin var mjög umdeild á sínum tíma, og fjöldi manns safn­að­ist saman við Austurvöll þann 30. mars í mót­mæla­skyni. Eins og frægt er, kom til harð­vítugra átaka milli and­stæð­inga samn­ings­ins, lög­reglu og stuðn­ings­manna aðildar.

 

Lemúrinn hefur birt margar ljósmyndir frá þessum degi. Magnaðar myndir Valgerðar Tryggvadóttir sýna margar merkilegar senur. Þá eru myndir lögreglunnar ekki síður athyglisverðar.

 

Fjölmargir lesendur hafa deilt með okkur upplifun sinni á þessum degi í athugasemdakerfinu. Við hvetjum alla sem þetta lesa og voru á Austurvelli til þess að skrifa um þennan sögulega dag.

 

Guðmundur Pétursson:

„Tapaði þarna skóhlífum, sem tróðust af mér þegar fólk fyrir framan mig snerist á hæli og flúði undan kylfuhöggum lögreglunnar en þeir sem voru fyrir aftan mig höfðu ekki enn lagt á flótta.“

 

1949-10

Táragas á Austurvelli. Mynd: Valgerður Tryggvadóttir.

 

Guðrún Þórðardóttir:

„Minnstu munaði að ég skylli afturábak og træðist undir þegar flótti brast skyndilega í liðið við táragasið. Þetta var álíka skemmtilegur viðburður og stórbruni fyrir krakka á þessum árum.“

 

Gísli Gunnarsson:

„Var í norðvesturhorni Austurvölls nýorðinn 11 ára ásamt skólabróður mínum. Báðir fengum við táragas í augun. Margir vilja gleyma einni staðreynd: Fyrr um daginn hafði flugvél flogið lágt yfir Reykjavík og dreift miðum þar sem þrír stjórnmálaleiðtogar, stuðningsmenn Nató, skoruðu á fólk að mæta á Austurvöll til að verja Alþingi fyrir kommúnistum. Margir mættu í þeim tilgangi og fengu að launum barsmíði og táragas lögreglu og hvítliða.“

 

1949-althingi-door

Dyr Alþingishússins eftir átökin. Mynd: Lögreglan.

 

Emilía Jónsdóttir Anderson:

„Var þarna alveg óvart um 10 ára hafði stolist með Ernu vinkonu ofaní bæ, höfðum ekki hugmynd um hvað var að gerast fengum táragas og héldum að það væri komið stríð, heldur betur fegnar að komast heim!“

 

Ásbjörg Helgadóttir:

„Ég var stödd í skjóli Reyjavíkurapóteks þarna og hafði gott yfirlit yfir fólkið á Austurvelli. Þetta byrjaði vel og fólkið stóð bara á vellinum og talaði saman en allt í einu voru kylfur á lofti frá lögreglu, sem geystist allt í einu yfir og unglingar barðir líka, jafnvel í höfuðið. Það var lögreglan, sem kom látunum af stað. Verst þótti mér þó, þegar hvítliðarnir svokölluðu, helltust bókstaflega út úr Alþingishúsinu, að vestanverðu og þar þekkti ég marga. Allir voru þeir líka með kylfur og svo var barið og barið af þeim og lögreglu, almenning, sem hafði ekkert til að verja sig með. Greinilega var þetta undirbúið af Stjórninni. Samt gat ég ekki annað en hlegið, þó þetta væri hræðilegt, þegar hvítliði einn ætlaði að berja ungling en sá tók kylfuna af hvítliðanum og barði hann sjálfann. Svo fann ég kylfu þarna og á hana enn þann dag í dag. Þetta var hroðalegur endir og einu líkingarnar við þann dag eru líkingar Vesturvelda frá Rússlandi, sem maður veit alls ekki, hvort eru sannar. Lögreglan kallaði „Gas, gas“ Svo hentu þeir sprengjum en ekki veit ég hvaða sprengum. Ég slapp, þó ung væri en verð miður mín, þegar ég hugsa til dagsins, vegna ríkisstjórna, sem fara flestar illa með almenning í landinu og lærdómsríkt um stjórnir.“

 

Stefán Bjarni Hjaltested:

„Mikið varð ég hræddur þennan dag þegar lætin byrjuðu. Var að selja Vísir í Austurstræti. Óli blaðasali frændi minn bjargaði mér með því að fara með mig inn í Apotek þar sem við biðum meðan ólætin gengu yfir.“

 

Og Svanur Jóhannesson skrifar:

„Ég var 19 ára og mætti á Austurvöll. Við fengum frí í vinnunni eftir hádegið, en svo mætti ég í Iðnskólann kl. 16.00. Þegar ég kom út á götu sá ég þessa miða sem Gísli talar um, þar sem stjórnmálaforingjar hvöttu fólk til að mæta niðreftir til að verja Alþingishúsið. Þegar við höfðum staðið nokkra stund fyrir framan styttuna af Jóni forseta, þá komu hvítliðarnir út úr húsinu og voru með hjálma og kylfur. Þeir ógnuðu fólki. Gömul kona stóð rétt hjá mér. Ég þekkti hana í sjón. Hún hét Karólína Ziemsen, var kona Ottós N. Þorlákssonar fyrsta forseta Alþýðusambandsins. Hún reif kjaft við hvítliðana og sendi þeim tóninn. Þá reiddi einn hvítliðinn kylfuna til höggs á gömlu konuna. Það þýddi að þessi vörður laganna var snarlega afvopnaður. Ég tók hjálminn og fór með hann heim því nú var farið að kasta táragassprengjum í allar áttir. Ég mætti svo í teiknitíma hjá Kristni Péturssyni í Iðnskólanum kl. 16.00 og var þar fram að kvöldmat. Þetta var í gamla Iðnskólanum við Tjörnina og gasmökkur var yfir öllu miðbæjarsvæðinu og náði jafnvel inn í húsið. Ég man vel eftir því að við Jón Stefánsson (sonur Stefáns frá Hvítadal) rifumst um þessa atburði og herstöðvamálið í tímanum, en annars var nokkuð kyrrt. Hjálmurinn sem ég tók var merktur stöfunum M.Sv. innan í svitaskyggninu og hafði ég alltaf sérstakan mann í huga þegar mér varð hugsað til þessa atviks. Undir svitaskyggninu var brotið dagblað frá 1941 eða 1942.“

 

Kvikmyndasafnið geymir myndskeið frá þessum degi. Hér sjást táragassprengjurnar:

Vídjó