Armenski ljósmyndarinn Suren Manvelyan tekur nærmyndir af mannsaugum.  Skoðið fleiri myndir úr þessari röð hér. Manvelyan hefur líka beint linsunni að dýraaugum og þær myndir eru ekki síður magnaðar.

 

Sagt er að fegurðin búi ekki í hlutunum, heldur í auga áhorfandans. Þessar myndir sýna það í mjög beinni merkingu þeirra orða. Í þessum augum er auðvelt að sjá sandeyðimerkur, dali og fjöll, eða jafnvel plánetur, sólir og stjörnuþokur.

 

Suren Manvelyan er sjálfur mjög áhugasamur um útlit alheimsins og ólíkar birtingarmyndir hans, enda er hann eðlisfræðingur og sérhæfir sig í skammtafræði.

 

„Augasteinn er linsa augans. Hann er glær og brýtur ljósgeisla þannig að þeir falli á sjónu. Augasteinninn er gerður úr nokkrum lögum af prótínþráðum. Svokallaðir beltisþræðir (e. suspensory ligaments) halda honum kyrrum fyrir aftan sjáaldrið. Inni í augnknettinum er stórt rými sem augasteinninn skiptir í tvennt, fremra augnhólf (e. anterior cavity) fyrir framan augasteininn og augnvökvahólf (e. vitreous cavity) fyrir aftan hann. Fremra hólfið inniheldur augnvökva sem minnir á heila- og mænuvökva. Hann er seyttur úr háræðum í brárklökkum. Í augnvökvahólfinu fyrir aftan augasteininn er glært augnhlaup (e. vitreous body). Saman halda augnvökvi og augnhlaup uppi þrýstingi í auganu sem gerir því kleift að halda lögun sinni og halda sjónu þétt upp að æðu svo að hún nái auðveldlega í næringu og geti þá gegnt hlutverki sínu vel. Augnhlaupið myndast á fósturskeiði og er ekki endurnýjað eins og augnvökvinn.“ Úr svari við spurningunni Úr hverju er augað? á Vísindavefnum.