Pablo Saracho-Soto, fréttaritari Lemúrsins í Púertó Ríkó, skrifar:

 

Í júlí heimsótti Barack Obama Bandaríkjaforseti Púertó Ríkó og leitaði þar stuðnings fyrir komandi baráttu sína fyrir endurkjöri. Hann stoppaði ekki lengi en þrátt fyrir það voru haldnar margar samkomur á eyjunni – þar sem komu hans var ýmist fagnað eða mótmælt.

 

Áður en Obama lenti var mikið umstang í höfuðborginni San Juan. Til dæmis var styttum af hinum og þessum Bandaríkjaforsetum, sem heimsótt hafa eyjuna, komið fyrir auk stórra skilta: „Við erum stolt fyrir að hafa verið þátttakendur í sögunni: Kennedy 1961, Obama 2011“.

 

Fjöldi manna kom saman fyrir framan þinghúsið í gamla miðbænum og fagnaði fánadegi Bandaríkjanna en aðeins einni húsalengju frá var stefnu stjórnvalda á eyjunni og á meginlandinu mótmælt. Þar sem Púertó Ríkó-búar mega kjósa í forkosningum en ekki í forsetakosningunum sjálfum, fá þeir oft mikla athygli í upphafi kosningabaráttunnar en þurfa síðar að hlusta á óljós skilaboð frá Washington hvað varðar pólitíska framtíð eyjunnar.

 

Í fyrri viku lýsti stjórnmálaflokkurinn PNP, sem berst fyrir því að Púertó Ríkó verði að fylki í Bandaríkjunum, yfir að hann ætli að leggja til að þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin til að ákveða framtíð eyjunnar. Ef atkvæðagreiðslan verður að veruleika verður það í fimmta sinn sem slík aðferð er notuð til að athuga vilja fólksins hvað varðar framtíð „þessa sérstaka sambandssvæðis“ Bandaríkjanna.

 

Púertó Ríkó, sem er enn á lista hjá nýlendunefnd Sameinuðu þjóðanna, hefur verið bandarískt yfirráðasvæði frá 1898. Allt frá því er Spánn afsalaði sér völdum yfir Púertó Ríkó til Norður-Ameríku, hafa eyjaskeggjar aðeins gert örfáar uppreisnartilraunir gegn hinum erlendu valdhöfum. Það hefur verið túlkað sem vangeta Púertó Ríkó-manna til að ákveða hvort eyjan eigi að vera sambandsland, fylki eða sjálfstætt ríki. Þessi óvissa hefur flækt ýmis önnur mikilvæg mál.

 

Púertó Ríkó stendur í ströngu sem ein síðasta nýlenda heimsins, en nú um stundir eru efstu mál á baugi úrelt menntakerfi, ásakanir um spillingu í stjórnkerfinu og mannréttindabrot lögreglunnar.

 

Pablo tók meðfylgjandi ljósmynd í San Juan, höfuðborg Púertó Ríkó, þegar Obama var í heimsókn. Hún sýnir Púertó Ríkó-búa sem vilja að eyjan verði að fylki í Bandaríkjunum.