Hedy Lamarr, ein eftirsóttasta leikkona heims á fjórða og fimmta áratugnum, lék ekki aðeins í Hollywood-myndum. Hún var líka uppfinningamaður og þróaði tækni sem var vísir að mikilvægum uppfinningum á borð við þráðlaust internet. Fáir vissu af þessari iðju leikkonunnar sem hún stundaði við föndurkrókinn heima hjá sér.

 

Á bás einum í Kolaportinu liggur rykug mappa. Hún geymir gamlar leikaramyndir. En eitt sinn var siður hjá yngri kynslóðum að safna slíkum myndum, alveg eins og síðar gerðist með myndir af körfuboltastjörnum á borð við Larry Bird, Michael Jordan og Magic Johnson.

 

Þegar maður flettir þessari möppu í Kolaportinu má sjá mynd af Hedy Lamarr.

 

Flestir myndu líklega fletta áfram. Þetta nafn: Hedy Lamarr. Það er ekki þekkt í dag. Ekki í samanburði við þessi nöfn: Ingrid Bergman, Judy Garland, Kathryn Hepburn, Clark Gable, Humphrey Bogart.

 

En um nokkurra ára skeið var Hedy Lamarr ein eftirsóttasta leikkona Hollywood. Og hún var talin fegursta kona heims. Þetta var á hinni svokölluðu gullöld MGM-stúdíósins og Hedy Lamarr var ein af helstu stjörnum þess.

 

wplamarr01

 

En hún var meira en það. Eins og kom í ljós löngu síðar, rétt áður en hún lést, hafði þessi íðilfagra kvikmyndastjarna lifað tvöföldu lífi. Hún hafði stundað vísindastörf. Og uppgötvað tækni við flutning útvarpsbylgja sem átti eftir að gegna lykilhlutverki fyrir tækni sem menn nota bæði í hernaði og í daglegu lífi.

 

Því Hedy Lamarr er einn þeirra uppfinningamanna sem við getum þakkað fyrir hinu mögnuðu þráðlausu tækni sem við notum daglega með tölvum, símum og interneti.

 

En hún fékk ekki viðurkenningu á merkum vísindastörfum sínum fyrr en hún var komin á grafarbakkann, áratugum eftir að uppgötvanirnar höfðu verið gerðar.

 

Eftir stórglæsilegan feril í Hollywood á fjórða, fimmta og sjötta áratugnum, þar sem hún lék í stórmyndum á borð við Algiers, Boom Town, Tortilla Flat og Samson and Delilah, hnignaði ferillinn mjög snögglega.

 

Annex - Lamarr, Hedy (Heavenly Body, The)_01

 

Hedy Lamarr fór út af sporinu í mörgum málum. Hún var handtekin í Los Angeles fyrir búðarþjófnað árið 1966. Það varð til þess að hún missti af hlutverki í kvikmyndinni Picture Mommy Dead, sem átti að vera endurkoma hennar á hvíta tjaldið eftir mögur ár. Í staðinn fékk ungverska leikkonan Zsa Zsa Gabor hlutverkið.

 

Ári síðar kom sjálfsævisaga Hedy Lamarr út. Bókin hét Ecstasy and Me og seldist vel, sumpart vegna fjálglegra lýsinga um lífið í Hollywood og ekki síst vegna þess hversu lygileg ævi Hedy Lamarr var. Á fyrstu blaðsíðunum segir hún meðal annars:

 

Ég var harðákveðin að verða stórstjarna. Vitið þið hvernig það er að vera alvöru stjarna? Virkileg stórstjarna? Ég efast um að nokkur leikkona hafi gert almennilega grein fyrir líðan sinni í þeirri ótrúlegu þjóðfélagsstöðu. Ég skal segja ykkur frá því í örfáum orðum.

 

Að vera stjarna jafngildir því að ríkja yfir öllum heiminum og öllum íbúum hans. Stjarna getur eignast það sem hún vill; og ef það er eitthvað til sem hún getur ekki keypt er alltaf karlmaður til staðar sem gefur henni það.

 

Allir dýrka stjörnur. Ókunnugt fólk slæst um að komast í tæri við þær. Eftir að maður hefur baðað sig í slíkri frægð er allt það sem á eftir kemur fátækt.

 

Ég sat alein heima að kvöldi til fyrir stuttu. Og á meðan ég þjáðist vegna meðferðar sem ég hlaut á lögreglustöð vegna máls sem kom upp í verslun einni, og vegna þess að Zsa Zsa Gabor var ráðinn í staðinn fyrir mig í kvikmynd (ímyndið ykkur bara hvernig það fór með sálartetrið!) komst ég að því að ég hafði grætt – og eytt – eitthvað um 30 milljónum dollara.

 

Sama dag hafði ég ekki getað borgað fyrir samloku í sjoppu úti á horni.

 

En við skulum byrja á byrjuninni.

 

Hedwig Ewa Maria Kiesler var fædd í Vínarborg 9. nóvember 1914. Hún var dóttir auðugra broddborgara og var menntuð í fínum einkaskólum. Æskuárin voru miklir umbrotatímar. Austurríska keisaradæmið liðaðist í sundur eftir fyrri heimsstyrjöldina.

 

tumblr_mndc9hHZTv1qebdsfo1_500

Hedwig Kiesler.

 

Og þegar Hedy, eins og Hedwig litla var alltaf kölluð, komst á unglingsár voru óveðurskýin aftur farin að hrannast upp í Evrópu.

 

Hún var enn kornung þegar austurríski leikstjórinn Max Reinhardt uppgötvaði hana og lýsti yfir að hún væri „fegursta kona Evrópu, með sláandi dökkt og exótískt útlit“.

 

Hún reis hratt til metorða og landaði árið 1933 hlutverki í tékkneskri kvikmynd, sem hét Extase. (Ecstasy á alþjóðlegum markaði, Alsæla). Hedy var aðeins 18 ára gömul og fór með hlutverk konu sem er nýgift mun eldri manni, sem veitir henni enga ást.

 

625828cc163c7a697fa53d7f12

 

Hún kynnist yngri manni og á við hann ástarfund. Senurnar þegar persóna Hedy syndir nakin í stöðuvatni og hleypur um skóginn gerðu myndina heimsþekkta. Því þessi mynd var ein sú fyrsta á almennum markaði sem sýndi nakinn kvenlíkama og kynlífssenur.

 

Sena úr þessari mynd:

 

Extase hneykslaði marga. Foreldrar Hedy, bankastjórinn og frú hans, gengu sármóðgaðir út af frumsýningu hennar fljótlega eftir að nektarsenurnar hófust.

 

Hin unga Hedy Kiesler varð þekkt nafn eftir að sýningar Extase hófust víða í Evrópu. Reynt var að sýna myndina í Bandaríkjunum en þar bönnuðu yfirvöld hana. Hún þótti ósiðleg.

 

Fritz Mandl, hergagnaframleiðandi og eiginmaður Hedy.

Fritz Mandl, hergagnaframleiðandi og eiginmaður Hedy.

 

Fljótlega eftir þetta giftist Hedy austurríska auðmanninum Fritz Mandl sem var fjórtán árum eldri en hún. Hann var eigandi fyrirtækisins Hirstenberger Patronen-Fabrick sem var einn af stærstu hergagnaframleiðendum heims. Hedy lifði með honum ævintýralegu lífi, enda var hann einn ríkasti maður heims. En eiginmaðurinn krafðist þess að Hedy hætti að leika og í staðinn varð hún að fara með hlutverk glæsilegu eiginkonunnar sem tekur á móti tignum gestum í kokteilboðum.

 

„Sem frú Mandl, tók ég á móti allskyns hefðarfólki, stórstjörnum og þjóðarleiðtogum í veislum. Adolf Hitler kyssti eitt sinn hönd mína tilgerðarlega og litli monthaninn hann Mussolini lyfti eitt sinn stól fyrir mig. Ég hafði allt sem mig langaði í – föt, skartgripi, sjö bíla. Allan heimsins lúxus nema frelsið.“

 

Mussolini og Hitler. Hedy Lamarr kynntist báðum.

„Monthaninn“ Mussolini og hinn „tilgerðarlegi“ Hitler. Hedy Lamarr kynntist báðum.

 

Mandl var ákaflega afbrýðissamur maður. Hann hafði látið aðstoðarmenn sína kaupa filmur með myndinni Extase þar sem Hedy kom fram nakin, til þess að eyða þeim. Og hann vildi ekki að kona sín umgengist annað fólk. Hann bannaði henni að fara út. Og með tímanum varð Hedy að fanga í risastórri íbúð þeirra í Vínarborg. Eftir að nokkrar flóttatilraunir höfðu mistekist klæddi Hedy sig í föt þjónustukonu á heimilinu og stakk af. Hún tók lest til Parísar og dvaldi þar um skeið í felum frá valdamiklum eiginmanninum.

 

Á endanum komst hún í kynni við Louis B. Mayer hjá MGM, Metro-Goldwyn-Mayer, sem bauð henni samning hjá kvikmyndaverinu. Hún sigldi með honum yfir Atlantshafið.

 

Nína Sæmundsson mótaði mynd Hedy  stuttu eftir að hún kom til Bandaríkjanna.

Nína Sæmundsson mótaði mynd Hedy stuttu eftir að hún kom til Bandaríkjanna.

 

Þegar til Hollywood var komið var Hedy send á enskunámskeið. Og eitt fyrsta verkið var að breyta nafni hennar í Hedy Lamarr. Mayer fann upp á nafninu, það var vísun í Barböru La Marr, sem hafði verið fræg og íðilfögur leikkona á þögla tímabilinu.

 

Fyrsta hlutverk Hedy í Hollywood var í stórmyndinni Algiers, eða Alsír, eftir leikstjórann John Cromwell.

 

Vídjó

 

Þar lék hún á móti franska leikaranum Charles Boyer. Í myndinni fer hann með hlutverk Pepe Le Moko sem er franskur skartgripaþjófur sem býr í Casbah, hættulegu hverfi í Algeirsborg þar sem stigamenn búa í hálfgerðu völundarhúsi og fela sig fyrir lögreglu.

 

Þjófurinn fer út úr felustað sínum þegar hann kynnist gullfallegri franskri stúlku sem er á ferðalagi í Alsír.

 

Þessi bíómynd sló rækilega í gegn, fyrst og fremst vegna Hedy Lamarr sem skaust á stjörnuhimininn eftir frumsýningu.

 

Hedy í Hollywood.

Hedy í Hollywood.

 

Sagt er að höfundar hinnar sögufrægu myndar Casablanca, sem út kom fjórum árum síðar, hafi skrifað hana með Hedy Lamarr í huga. En hún hafnaði hlutverkinu og Ingrid Bergman var ráðin í staðinn.

 

Á fimmta áratugnum lék Hedy Lamarr í mörgum vinsælum bíómyndum. Í Boom Town lék hún á móti stórleikurunum Clark Gable, Spencer Tracy og Claudette Colbert.

 

Árið 1942 fór hún með hlutverk þokkagyðjunnar Dolores Ramirez í kvikmyndinni Tortilla Flat sem var byggð á samnefndri skáldsögu eftir John Steinbeck. Þar lék hún aftur á móti Spencer Tracy.

 

Vídjó

 

Kvikmyndin Samson and Delilah var eitt af meistaraverkum leikstjórans Cecil B. DeMille en hann var frægastur fyrir sögulegar myndir á borð við Kleópötru og The Ten Commandments. Þessi mynd byggði á biblíusögunni um Samson og Dalílu konu hans sem Hedy Lamarr lék.

 

Þarna var komið var fram á sjötta áratuginn. Það var þá sem fór að molna undan Hollywood-ferli Hedy Lamarr. Ýmis vandræði eltu hana. Hún giftist sex mönnum á ævinni og virtist sífellt lenda á blindgötum í einkalífinu. Um 1960 hafði alveg fjarað undan leikferlinum.

 

Ævisagan.

Ævisagan.

 

Hedy lenti í peningavandræðum og var árið 1966, eins og áður var nefnt, handtekin fyrir búðarhnupl. Listamaðurinn Andy Warhol lék sér með þann leiða atburð með furðulegri stuttmynd sem hét einfaldlega Hedy.

 

Og mörgum árum síðar, árið 1974, gerði grínistinn Mel Brooks grín að henni í kvikmyndinni Blazing Saddles. Hedy Lamarr var um 1980 gleymd stjarna. Hún flutti til Florida og lifði þar rólegu lífi til dauðadags árið 2000.

 

En örfáum árum áður en hún dó fékk hún loks viðurkenningu á stórkostlegu afreki sínu, sem fáir vissu af.

 

Hún hafði ákveðið áhugamál, sem hún leyndi börnum sínum og minntist ekkert á í ævisögu sinni.

 

Það voru uppfinningar og ýmsar pælingar á sviði rafmagnsverkfræði. Hún vann við þetta á síðkvöldum heima hjá sér, þar sem hún var með nokkurs konar föndurkrók.

 

Um 1940 hitti Hedy framúrstefnutónskáldið George Antheil í kokteilboði. Þau kynni áttu eftir að bera ávöxt.

 

Antheil var frægur fyrir ótrúlegt hugmyndaflug og hafði meðal annars samið tónverk þar sem mörg sjálfvirk píanó léku saman í ákveðnum kór.

 

Vídjó

 

Hedy Lamarr hafði heyrt um ákveðið tæknilegt vandamál á árunum þegar hún var gift hergagnaframleiðandanum Mandl í Vínarborg. Hvernig væri hægt að koma í veg fyrir að óvinur í hernaði gæti truflað sendingu á útvarpsbylgjum?

 

Með útvarpsbylgjum væri til dæmis hægt að senda tundurskeyti í sjóhernaði. En þar sem bylgjur voru á einni rás væri auðvelt fyrir óvininn að trufla sendinguna og stefna tundurskeytinu í aðra átt.

 

Hún ræddi þennan vanda við Antheil. Hann hafði látið spila á 16 flygla samtímis í verkinu Ballet Mechanique, með svokölluðum píanóhólkum úr sjálfspilandi píanóum.

 

Í samtölum þeirra fæddist frábær hugmynd. Þau myndu nota píanóhólkana til að senda út fjöldann allan af útvarpsbylgjum, hverri á sinni rás.

 

Þessa aðferð kölluðu þau frequency-hopping, bylgjuhopp.

 

Sjálfvirkt píanó (e. player piano)

Vídjó

 

Bylgjuhoppið kæmi í veg fyrir að óvinurinn gæti komist inni í sendinguna því hún myndi stöðugt hoppa á milli 88 rása sem sjálfspilandi píanóhólkar myndu skipta á tilviljanakenndan hátt.

 

Lamarr og Antheil fengu einkaleyfi fyrir þessari snjöllu hugmynd árið 1941. En yfirvöld í Bandaríkjunum veittu þessum tvímenningum úr listaheiminum litla athygli. Í staðinn báðu þau Hedy að aðstoða við sölu á stríðsskuldabréfum, en fjölmargir leikarar tóku þátt í því á stríðsárunum.

 

En Bandaríkjaher dustaði rykið af bylgjuhoppinu á sjötta áratugnum. Og tækni Lamarr og Antheil var komin í notkun árið 1962 þegar Kúbudeilan stóð sem hæst og ný heimsstyrjöld virtist vera í aðsigi.

 

En Hedy Lamarr naut ekki góðs af því og sökk sífellt ofan í meiri vandræði. Hún var gleymd og einmana á árunum eftir 1960, barðist við fíkn og missti á tímabili forræðið yfir börnum sínum. Um raunir hennar má lesa í fyrrnefndri ævisögu. Ecstasy and Me.

 

Einkaleyfið fyrir uppfinningunni.

Einkaleyfið fyrir uppfinningunni.

 

Hana grunaði ekki að uppfinning sín myndi hafa mikil áhrif.

 

En svo fór að bylgjuhoppstækni Lamarr og Antheil hafði gífurleg áhrif á sviði fjarskipta, sérstaklega farsíma. Þegar gemsar komu til sögunnar þurfti að senda merkin á milli þeirra á svipaðan hátt og Hedy hafði séð fyrir sér, með handahófskenndu hoppi. Hugmyndir hennar komu því að góðum notum. Og Wifi-tæknin sem notuð er með þráðlausu interneti er einnig hönnuð með þetta í huga.

 

2634633047_f7417d3da5_o

Uppfinning Hedy og Antheil.

 

Árið 1998 fékk Hedy Lamarr uppreisn æru þegar stórfyrirtæki keypti einkaleyfið fyrir uppfinningu hennar. Fjallað var um hana á lofsverðan hátt í virtum vísindaritum. Hún lést árið 2000, eflaust mjög sæl með þessi málalok.

 

Það var miklu meira spunnið í þessa hugrökku og greindu konu en flestir héldu. Hún var ekki bara exótískt bimbó, fallegt andlit. Gefum Hedy Lamarr sjálfri lokaorðið:

 

„Hvaða stelpa sem er getur verið glæsileg. Þú þarft bara að standa kyrr og setja upp heimskulegan svip.“