Vídjó

Hunter S. Thompson var einn litríkasti blaðamaður Bandaríkjanna á sínum tíma. Eins og allir litríkir menn lét hann ekki deigan síga og bauð sig fram í kosningum. Hann var fógetaefni Freak Power-hreyfingarinnar í skíðabænum Aspen í Colorado-ríki. Hann vildi fæla fjárfesta frá og endurnefna borgina Fat City.

 

Við munum eftir mörgum yfirlýstum grínframboðum í kosningum. En yfirlýst furðuframboð eru þó fágætari. Hver hefur ekki horft á frambjóðendur í kappræðum sem þrátt fyrir furðulegar yfirlýsingar og enn furðulegri kosningaloforð halda andliti alvarlegir í bragði eins og þeir átti sig ekki sjálfir á því hversu furðulegir þeir séu? Hunter S. Thompson áttaði sig hins vegar fyllilega á því hversu furðulegt framboð hans var og hann gerði út á það enda var hann fógetaefni Freak Power-hreyfingarinnar í Aspen.

 

Árið 1969 bauð hinn 29 ára gamli Joe Edwards sig fram til borgarstjóra Aspen í Pitkin-sýslu Colorado-ríkis. Edwards bauð sig fram sem fulltrúi Freak Power-hreyfingarinnar gegn íhaldsöflum demókrata og repúblikana í borginni. Kosningabaráttu Edwards var stjórnað fyrir opnum dyrum við langt eikarborð á krá við aðalstræti borgarinnar. Við borðið sat óopinber kosningastjóri Edwards; Hunter S. Thompson.

 

Thompson var þá ekki orðinn jafn þekktur (eða alræmdur) og hann síðar varð en hafði fyrst vakið landsathygli árið 1965 þegar bókin Hell’s Angels: The Strange and Terrible Saga of the Outlaw Motorcycle Gangs kom út. Þar sagði frá ári sem hann eyddi í slagtogi við vítisengla. Næstu ár vann hann fyrir sér með skrifum fyrir sum af stærstu dagblöðum og tímaritum Bandaríkjanna. Hann flutti til smábæjarins Woody Creek í Pitkin-sýslu með fjölskyldu sinni árið 1967.


Hunter S. Thompson – Aspen Sheriff Election 1970

Nick Dagan | Myspace Video

Úr heimildamyndinni Breakfast with Hunter: Innslag frá BBC um kosningarnar og það sem Thompson hafði um þær að segja.

 

Freak Power hreyfingin átti að virkja fjölda nýbúa Aspen og nágrennis sem höfðu flúið San Francisco eftir að ekkert varð úr þeim breytingum sem fólk hafði vonast eftir í kjölfar ástarsumarsins mikla 1967. Í bænum voru tveir repúblikanar á móti hverjum skráðum demókrata.

 

Óháðir kjósendur voru þó fjölmennari en skráðir meðlimir stóru flokkana: „taugaveiklað samansafn af vinstri/brjálæðingum og Birchistum: ofstækismenn, dópsalar, nasískir skíðakennarar og skynvilltir bændur sem höfðu enga pólíska sannfæringu utan sjálfsbjargarviðleitni,“ eins og Thompson sagði sjálfur frá.

 

Viðundrin voru virkjuð til þáttöku og kusu sem aldrei fyrr en allt kom fyrir ekki. Edwards tapaði með aðeins 6 atkvæðum á móti frambjóðanda sem repúblikanar og demókratar tefldu sameiginlega fram.

 

Þessi litli munur varð til þess að Thompson fór að velta því fyrir sér hvort samborgarar hans væru róttækari en hann hafði áður gert sér grein fyrir – og hvort það væri mögulegt fyrir Freak Power-hreyfinguna að vinna í kosningnum með eilítið skipulagðari herferð.

 

Árið eftir bauð hann sig því fram til fógeta í sýslunni en það er eina löggæsluembættið í Bandaríkjunum sem kosið er í.

 

HST-ForSheriff2

Hunter S. Thompson í kosningaham. Thompson skóf allt hár af höfði sér og gat þá talað um hinn síðhærða mótframbjóðanda sinn en hann skartað hefðbundinni herraklippingu.

 

Thompson var heiðarlegur maður og lofaði ekki upp í ermina á sér. Forgangsverkefni hans voru þrjú, rífa upp malbikaðar götur borgarinnar og tyrfa yfir, breyta nafni Aspen í Fat City til að fæla fjárfesta í burtu og leyfa neyslu vímefna en refsa harkalega fyrir viðskipti með þau í ágóðaskyni. Eða eins og Thompson komst að orði:

 

One: rip up all city streets with jackhammers and sod the streets at once. Two: change the name Aspen to Fat City. This will prevent greedheads, land rapers and other human jackals from capitalising on the name Aspen. Three: it will be the philosophy of the sheriff’s office that no drug worth taking should be sold for money. My first action will be to install a set of stocks so that dishonest dope-dealers can be punished in a proper fashion.

 

Sá orðrómur komst á kreik að Thompson yrði undir áhrifum við skyldustörf ef hann yrði kosinn. Til málamynda og til að róa smáborgarann lofaði Thompson því að vera ekki undir áhrifum meskalíns á meðan hann væri við skyldustörf.

 

Dag einn birtist Thompson á ritstjórnarskrifstofu Rolling Stone tímaritsins í San Francisco með bjórkippu í fanginu og lýsti því yfir að hann yrði senn kjörinn fógeti Aspen og að hann vildi skrifa grein um Freak Power hreyfinguna og borgarstjórakosningarnar frá árinu á undan.

 

thompson-for-sheriff

 

Á þeim tímapunkti hafði hann samkvæmt skoðanakönnunum örlítið forskot á hina tvo frambjóðendurna í slagnum. Thompson hafði gert ráð fyrir því að greinin myndi tryggja framboðinu þá umfjöllun sem þyrfti til að gulltryggja honum sigurinn.

 

Vopnin snerust hins vegar í höndunum á honum. Greinin jók vissulega áhugann á kosningunum en jók ekki fylgi hans heldur mótframboðanna. Þau fóru loksins að taka hann alvarlega, frambjóðandi repúblikana dró framboð sitt til baka og stuðningsmenn hans voru hvattir til að kjósa fulltrúa demókrata í kosningunum. Í greininni kom fram hernaðaráætlun Freak Power-framboðsins sem gerði andstæðingum Thompson mögulegt að bregðast við þessu óhefðbundna framboði.

 

Að lokum fór þannig að Thompson tapaði kosningunum með 400 atkvæðum. Honum hafði vissulega tekist að virkja viðundrin til að kjósa. Það sem verra var fyrir hann var hinn almenni borgari sem fram að þessu hafði ekki séð tilgang í því að mæta á kjörstað sem neyddist til þátttöku til að varna kjöri Thompson.

 

0f5abab17f76fd38d7a140b73c6ffb31

 

Greinin markaði þannig upphafið að endalokum pólítísks frama Hunter S. Thompson en var upphafið að samstarfi og vináttu Thompson og Jann Wenner, ritstjóra Rolling Stone. Samstarf sem átti eftir að einkenna blaðamannaferil Thompson.

 

Vídjó

Hefðbundnir stjórnmálamenn lofa því að laða að fjárfesta og ferðamenn. Hunter S. Thompson lofaði að fæla þá frá.