Vídjó

Kókó er rúmlega fertug górilla sem býr á rannsóknarstöð í Woodside í Kaliforníuríki í Bandaríkjunum. Hún hefur birst á forsíðum New York Times og fleiri stórblaða, um hana hafa verið gerðar tvær heimildarkvikmyndir og skrifaðar margar bækur.

 

Hin merka Kókó er í miklum metum hjá ritstjórn Lemúrsins og við höfum nokkrum sinnum fjallað um hana.

 

Í sumar varð hún 44 ára gömul og nú hefur rannsóknarstöðin birt myndband sem sýnir Kókó leika sér við kettlinga á afmælisdeginum.

 

Þetta var ekki í fyrsta sinn sem Kókó hitti ketti.

 

Kókó er nefnilega mjög hænd að kisum. Þegar hún var 12 ára eignaðist hún fyrsta kettlinginn sinn.

 

Henni fannst gaman að leika sér við þennan loðna og litla vin sinn. Hún gaf honum nafnið All Ball, því hann var alveg kringlóttur. Górillunni fannst skemmtilegast að halda á kisanum og klappa honum.

 

All Ball slapp einn daginn úr húsinu þar sem Kókó býr og stökk út á götu. Þar varð kötturinn fyrir bíl og drapst.

 

Vídjó

 

Kókó brást mjög illa við þeim tíðindum. Patterson, kennari hennar, þurfti að segja henni frá slysinu. Hún segir að górillan hafi gefið frá sér hljóð sem samsvari gráti hjá okkur mönnunum. Eftir atvikið dró hún þá ályktun að górillur syrgi þá sem deyja og geti haft mun dýpra tilfinningalíf en menn höfðu gert sér grein fyrir.

 

Górillur eru auðvitað náskyldar mönnum og eru álitnar ákaflega gáfaðar skepnur. Tilfinningalíf þeirra er flókið, górillur geta hlegið, syrgt ástvini og myndað sterk vináttubönd. Þó ýmislegt sé á reiki um hugarstarfsemi þeirra eru sumir á því máli að górillur geti til dæmis hugsað í fortíð og framtíð.

 

Í heimildarmynd Frakkans Barbet Schroeder, Kókó: Górillan sem talar, frá 1978 er fylgst með Kókó og Penny Patterson við leik og störf. Hér eru hins vegar ýmsar skemmtilegar klippur af YouTube:

 

 

Vísindamennirnir sem ólu Kókó upp náðu með ótrúlegum hætti að kenna henni að tjá sig. Málvísindamenn deila reyndar nokkuð um hvers eðlis málskilningur hennar er. Það er þó hægt að slá föstu að górillan kann að beita táknum um fyrir ólíka hluti, til dæmis ólíkar tegundir af mat, dýr, hlutina sína, liti og ýmislegt fleira.

 

Leikarinn góðkunni William Shatner, sem frægastur er fyrir að leika Kirk skipstjóra í Star Trek-þáttunum, kynntist Kókó á sínum tíma og skrifaði um kynnin í sjálfsævisögu sinni Up Till Now. Shatner skrifar að Kókó hafi kunnað orðin „vatn“ og „fugl“. Þegar hún sá önd lenda á tjörn í fyrsta skipti hafi hún blandað orðunum saman í „vatns-fugl“ og notað það fyrir þennan furðulega fugl.

 

Vídjó

 

Sálfræðingurinn og fræðimaðurinn Penny Patterson hefur verið helsti kennari Kókó. Hún hefur skráð fjöldamörg nýrði sem górillan skapar með táknum sínum.

 

Þegar Kókó bragðaði melónu í fyrsta skipti kallaði hún hana „drykkjarávöxt“. Górillur hefur hún kallað „dýra-manneskjur“.

 

Fyrir Kókó er mjólkurís „kalda skálin mín“. Hringur er „fingurarmband“. Jógúrt með appelsínubragði er „appelsínugul blómasósa“. Þegar Kókó verður reið kallar hún fólkið á rannsóknarstofunni „skítugu, heimsku klósett“. Og svo mætti lengi telja.