Tabasco-sósa er ein lífseigasta vara sem um getur í matarmenningu vesturlandabúa. Þá er ekki aðeins átt við geymsluþol sósunnar (sem er reyndar svo gott sem endalaust) heldur einnig líftíma hins farsæla McIlhenny Company sem hefur séð heiminum fyrir þessari bragðmiklu sósu síðan 1868.

 

Edmund McIlhenny var bandarískur viðskiptamaður sem fór á hausinn um miðja 19. öldina.  Eftir að hafa farið á hausinn ákvað hann að flytja frá Maryland til Louisiana og fara í matvælabransann en hann vildi þá selja afurð sem hann fann upp sjálfur með því að blanda saman þremur hráefnum og tappa þeim á litlar ilmvatnsflöskur. Uppskriftin var því, og er enn, einföld en hráefnin eru tabasco-chili-ávöxtur, edik og salt. Hvorki meira né minna.

 

Edmund McIlhenny (1815-1890). Stofnandi McIlhenny-fyrirtækisins og höfundur uppskriftarinnar af Tabasco-sósu.

Edmund McIlhenny (1815-1890). Stofnandi McIlhenny-fyrirtækisins og höfundur uppskriftarinnar að Tabasco-sósu.

 

Líftími Tabasco-sósunnar átti stóran þátt í vinsældum hennar. Sósan endist í fimm ár frá því að flaska hennar er opnuð og var því álitin góður kostur fyrir bandaríska hermenn sem fengu úthlutaðan neyðarpakka þegar þeir voru sendir til „starfa.“ Sósan nýttist dátunum vel, bæði til að bragðbætingar matvæla og einnig til að passa upp á að kjöt og fiskur skemmdust síður – þar sem edikið í sósunni hjálpaði til við að geyma matvæli.

 

Í dag er McIlhenny-fyrirtækið enn rekið sem fjölskyldufyrirtæki. Núverandi forstjóri er reyndar sá fyrsti í sögunni sem ber ekki eftirnafnið McIlhenny en Tony Simmons tók við rekstri fyrirtækisins eftir andlát Paul McIlhenny í febrúar á þessu ári.

 

Margir eru hræddir við Tabasco-sósu og telja hana allt of bragðsterka. Hún er þó tiltölulega mild miðað við margt annað og nær aðeins 2500-5000 stigum á Scoville-kvarðanum svokallaða. Tabasco-sósa er einstaklega heppileg með hvers konar steiktum mat eða grilluðum og þá sérstaklega með (djúp)steiktum fiski eða kjúklingi. Tabasco-sósa og egg er eitt besta kombó sem fyrirfinnst í matreiðsluheiminum og þá er nokkuð gott að bragðbæta poppkorn með tabasco-sósu, en það er rík hefð fyrir því við landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó. Hér er einnig mælt með því að bæta Tabasco-sósu út í íslenska kjötsúpu. Það hljómar ef til vill furðulega til að byrja með… en það er algerlega frábært!

 

Fjölmargar flökkusögur ganga um framandi eiginleika Tabasco-sósunnar, sem á meðal annars að auka kynhvöt og frjósemi – þó áræðanleiki þeirra sagna sé takmarkaður.

 

Tabasco-fjölskyldan. Fyrirtækið er einnig í samstarfi við önnur matvælafyrirtæki sem framleiða tabaso-bragðbættar vörur.

Hluti Tabasco-fjölskyldunnar. Fyrirtækið er einnig í samstarfi við önnur matvælafyrirtæki sem framleiða tabaso-bragðbættar vörur.

 

Þá er auðvitað rétt að minnast á hinar fallegu ilmvatnsflöskur sem geyma sósuna. Þær eru 59 ml að stærð og hafa nánast haldið óbreyttu útliti í 145 ár, allt síðan fyrirtækið var stofnað. Í dag eru framleiddar um 700 þúsund slíkar flöskur á dag auk þess sem McIlhenny framleiðir mun fleiri afbrigði af Tabasco-sósu – til að mynda með habanero-pipar í stað tabasco-pipars. Sú sósa skorar nokkuð hátt á Scoville-kvarðanum, að minnsta kosti miðað við systursósu sína.

 

Hér má að lokum sjá myndskeið frá Discovery Channel um framleiðsluferli Tabasco-sósunnar:

 

Vídjó