Eftir að Þjóðverjar höfðu viðurkennt ósigur í seinni heimstyrjöldinni í maí árið 1945 voru þýskar borgir í rjúkandi rúst. Á árunum 1943 til 1945 höfðu flugherir Bretlands og Bandaríkjanna sprengt markvisst flest byggð ból og notað til þess um eitt og hálft milljón tonn af sprengiefnum. Fyrir stríð voru 16 milljón heimili í Þýskalandi en eftir stríð stóð aðeins um helmingur þeirra. Fjórðungur hafði verið jafnaður við jörðu á meðan annar fjórðungur var mjög skemmdur.

Ástandið var sérstaklega slæmt í stærri borgum, eins og Berlín, Hamborg eða Nürnberg – svo ekki sé minnst á Dresden og Leipzig, undurfallegar miðaldaborgir sem voru gjöreyðilagðar.

Þetta skapaði talsverð vandamál fyrir bandamenn þegar kom að því að hreinsa upp rústirnar og koma lífinu í Þýskalandi aftur af stað. Endurreisnaráætlun Evrópu, betur þekkt sem Marshall-aðstoðin, hafði reyndar ekki verið samþykkt en engu að síður þurfti einhver að taka til, sópa saman rústunum og endurbyggja borgirnar. Erfitt reyndist að fá karlmenn til þessara starfa, enda hafði þriðjungur allra karlmanna á aldrinum 15-50 ára fallið í stríðinu. Konur voru þá orðnar sjö milljónum fleiri en karlar í Þýskalandi.

Rústakonur við Jägerstrasse í Berlín.
Rústakonur við Jägerstrasse í Berlín.

Hernámsstjórn bandamanna í Þýskalandi brá á það ráð að gefa út tilskipun, þann 10. júlí 1946, að allar konur á aldrinum 15 til 50 ára skyldu skrá sig til þjónustu í almannaþágu.casino online Þessi þjónusta var einfaldlega erfiðisvinna, upphreinsun á þungu grjóti og byggingarvinna í kjölfarið: múrhleðsla, vírabindingar, pípulagningar og fleira í þeim dúr.

Í fyrstu var óttast að konurnar kynnu að mótmæla og mæta einfaldlega ekki til starfa. Sú varð þó ekki raunin. Jafnvel konur sem höfðu öðrum störfum að gegna, og voru því afsakaðar frá uppbyggingarstarfinu, buðu sig fram. Svo virðist sem þeim hafi leiðst hið grámyglulega líf innan um stríðsrústirnar. Eina leiðin til að horfa fram á veginn var að láta hendur standa fram úr ermum.

Rústakonur að störfum.
Rústakonur að störfum.

Konurnar sem tóku að sér að endurbyggja þýsku borgirnar voru kallar Trümmerfrauen, eða „rústakonurnar.“ Konurnar unnu nótt við nýtan dag að leggja múrsteina, byggja hús, byggja skóla, endurleggja heilu göturnar og vegina. Þessar konur sem tóku þátt í þessari ótrúlegu enduruppbyggingu lögðu þar með grunninn að velsæld í Þýskalandi á seinni hluta 20. aldarinnar. Oft og tíðum heyrum við sögur af „þýska efnahagsundrinu“, og er þar átt við undurskjótan efnahagslegan endurbata Þýskalands (eða Vestur-Þýskalands) á 6. og 7. áratug síðustu aldar. Þessi endurbati hefði aldrei átt sér stað, hefði ekki verið fyrir framgöngu rústakvenna.

Minnisvarði í Dresden.

Í Þýskalandi, og Austurríki reyndar líka, er litið á rústakonurnar sem hetjur. En eftir að vinnu þeirra var lokið má deila um hvort framkoma stjórvalda í þeirra garð hafi verið ásættanleg. Flestar konurnar höfðu unnið ómetanlega erfiðisvinnu fyrir samfélagið sitt. En það var kannski einmitt málið. Þær unnu þessa vinnu því þær vildu vinna. Þegar enduruppbyggingunni var að mestu lokið, og ný kynslóð ungra karlmanna farin að vaxa úr grasi, var rústakonunum sagt að nú gætu þær snúið heim til sín.

Stjórnvöld í Þýskalandi og Austurríki hafa þó sýnt rústakonunum þá virðingu að reisa fjölda minnismerkja, afrekum þeirra til heiðurs. Í nánast hverju einasta þéttbýli má sjá að minnsta kosti eitt minnismerki sem sýnir konu í erfiðisvinnu, til að minna okkur á – sem til Þýskalands komum – hverjar þær voru sem byggðu upp borgirnar úr rústunum einum.