Á heimili Jóns Sigurðssonar forseta og Ingibjargar Einarsdóttir í Kaupmannahöfn var myndarlegur páfagaukur í búri sem bar nafnið Poppedreng. Lesbók Morgunblaðsins ræddi við Indriða Einarsson rithöfund árið 1933 um minningar hans um heimilishagi Jóns og Ingibjargar. Indriði var oft gestur á heimilinu og segir frá ýmsu og þar á meðal frá þessum merka páfagauki:

 

Til hægri handar við innganginn gegnt [sporöskjulaga] borði, var fuglabúr all stórt, og hekk uppi í loftkrók. Þar var páfagaukur, er nefndur var „Poppedreng“, og var mikils virtur á heimilinu. Er hann örfaðist af skrafi manna og gerðist of íhlutunarsamur um stjórnmálin, var dúkur breiddur yfir búr hans, og fjell þá á hann værð. Dúkurinn átti líka að hlífa „Poppedreng“ við reyk. En mikið var reykt þarna. Reykti Forseti jafnan sjerstaka tegund vindla, langa og granna, og reykti ákaft, en tugði jafnan nokkuð vindilinn, svo gárungar ýktu, og sögðu, að hann og eldurinn mættust í miðjum vindli. Síðustu árin varð Forseti að neita sjer um reykingar eftir kl. 8 að kvöldi, samkvæmt læknisráði.

 

Lesið stórskemmtilegar lýsingar Indriða hér, en hann lýsir meðal annars jólahaldi á heimilinu. Jón og Ingibjörg bjuggu í íbúð á Øster Voldgade 12 (áður númer 8) frá 1852 til ársins 1879, þegar þau létust bæði með nokkurra daga millibili. Húsið komst í eigu Alþingis árið 1967 og þar er í dag hið svokallaða Jónshús, menningar- og félagshús Íslendinga í Danmörku. Hér er ljósmynd sem sýnir vinnuherbergi Jóns þar sem Poppedreng bjó í búri sínu.

 

Mynd: JL (jonsigurdsson.is)

Mynd: JL (jonsigurdsson.is)

 

Screen Shot 2015-01-02 at 7.10.35 PM

 

jonogingibjorg

Páfagaukaeigendurnir Jón og Ingibjörg.